Hoppa yfir valmynd
12. nóvember 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Kjálki alheimsins

Vestfjarðakjálkinn er stórbrotinn í alla staði. Í vikunni heimsótti ég Vestfirði til þess að eiga samtal við heimamenn um tækifæri svæðisins, sér í lagi á sviði ferðaþjónustu og menningarmála. Með tilkomu nýs menningar- og viðskiptaráðuneytis fyrr á árinu urðu tímabærar breytingar að veruleika. Í fyrsta sinn heyra þannig menning, ferðaþjónusta og viðskipti undir einn og sama fagráðherrann. Málaflokkarnir fléttast saman með ýmsu móti hringinn í kringum landið.

Sem atvinnuvegir skapa þessir málaflokkar gríðarleg verðmæti fyrir þjóðarbúið. Þannig verða rúmlega 40% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar til í gegnum ferðaþjónustu svo dæmi sé tekið. Með réttu hefur ferðaþjónustan stundum verið kölluð stærsta sjálfsprottna byggðaaðgerð Íslandssögunar en störfum í greininni hefur fjölgað gríðarlega á fáum árum, en tugþúsundir starfa í greininni.

Einn af lærdómum heimsfaraldursins var hversu mikilvægt það var að taka vel utan um ferðaþjónustuna og styðja fólk og fyrirtæki í greininni í gegnum faraldurinn. Stjórnvöld gripu strax til umfangsmikilla aðgerða með það að markmiði að verja þá þekkingu, reynslu og innviði sem eru ferðaþjónustunni nauðsynlegir í viðspyrnu hennar eftir faraldurinn. Kröftug viðspyrna greinarinnar í ár á meðal annars stærstan þátt í því að afkoma ríkissjóðs verður rúmum 60 milljörðum betri í ár en upphaflega var gert ráð fyrir.

Það er því mikilvægt að hlúa að ferðaþjónustu og menningu með markvissum hætti um allt land í samstarfi við heimamenn á hverju svæði fyrir sig. Það er uppörvandi að finna fyrir þeirri bjartsýni sem ríkir hjá aðilum í þessum greinum á Vestfjörðum. Vestfirðir voru til að mynda efstir á lista yfir svæði, borgir eða lönd til að heimsækja árið 2022 í árlegu vali hin virta ferðabókaútgefanda Lonely Planet. Mýmörg tækifæri felast í viðkenningu sem þessari, sem getur reynst mikil lyftistöng fyrir ferðaþjónustu og menningu á svæðinu sem og fyrir Ísland sem áfangastað.

Má segja að val Lonely Planet hafi strax haft áhrif en ferðaþjónustuaðilar láta vel af aðsókn ferðamanna til Vestfjarða í sumar. Dreifing ferðamanna um landið er mikilvæg og það er sameiginlegt verkefni ríkis, sveitarfélaga og fyrirtækja í ferðaþjónustu að nýta tækifæri líkt og þetta til að stuðla að fleiri heimsóknum ferðamanna til Vestfjarða og annarra kaldari ferðamannasvæða utan háannatíma. Til að svo megi verða þarf meðal annars að treysta innviði og tryggja greiðar vegasamgöngur að helstu náttúruperlum yfir vetrartímann, hvetja til fjárfestinga í hótelum og afþreyingu ásamt því að vinna markvisst með sérstöðu hvers svæðis fyrir sig.

Það er til mikils að vinna ef rétt er haldið á spilum. Ég mun leggja mig alla fram við að vinna náið með hagaðilum til að stuðla að vexti ferðaþjónustu um allt land og að fleiri geti starfað við greinina á ársgrundvelli.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum