Hoppa yfir valmynd
17. nóvember 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Ísland í heimi áskorana

Á mínu æviskeiði hefur efnahagsþróun einkennst af miklum vexti í alþjóðaviðskiptum þjóðríkja sem hefur drifið áfram velferð. Lífskjör hundraða milljóna fólks hafa batnað. Heimsviðskiptin hafa þurft að takast á við stórar áskoranir undanfarið vegna heimsfaraldurs, stríðsátaka og orkukrísu, viðskiptastríða og verndarstefnu og aukinna umsvifa alræðisstjórna.

Þessi veruleiki hefur meðal annars birst í hækkandi verðbólgu um heim allan. Marg­ir seðlabank­ar hafa brugðist við auk­inni verðbólgu með því að herða taum­hald pen­inga­stefn­unn­ar með því að draga úr fé í um­ferð og með vaxta­hækk­un­um eftir tímabil lágra vaxta.

Í kjöl­farið hef­ur mynd­ast svo­kölluð lífs­kjara­kreppa (e. Cost of Li­ving Cris­is) víða um heim og finnast þess merki í raunhagkerfinu. AGS hefur nýlega spáð því að hagvaxtarhorfur verði dekkri en um árabil. Venju sam­kvæmt eru það fá­tæk­ustu rík­in og íbú­ar þeirra sem helst finna fyr­ir því þegar róður­inn þyng­ist í heims­bú­skapn­um og í fyrsta sinn í áratugi hefur fátækt aukist. Aðgerðir seðlabanka hafa þegar höggvið skarð í fjár­mála­markaði og bú­ast má við áfram­hald­andi óróa á fjár­mála­mörkuðum. Íslend­ing­ar þekkja bet­ur en aðrar þjóðir hvaða af­leiðing­ar það get­ur haft.

Þessi þróun í heimsmálunum mun óneitanlega hafa hér áhrif enda er Ísland með opnari hagkerfum. Samt sem áður eru horfur hér á landi tiltölulega bjartar í samanburði við mörg önnur ríki og spáð er 6 prósenta hag­vexti í ár sem sýn­ir þrótt­inn í hag­kerf­inu. Meg­in­skýr­ing­in á því að hag­vöxt­ur er meiri en gert var ráð fyr­ir er hraðari bati í ferðaþjón­ustu og einka­neysla. Hér á landi mælist verðbólga 9,4 prósent, en það er næst­minnsta verðbólga í Evr­ópu. Aðeins Sviss mæl­ist með lægri verðbólgu. Okkur hefur því tekist vel til við stjórn efnahagsmála, enda ber staða ríkisfjármála, erlend staða þjóðarbúsins og lífskjör þess vitni. Eins og nýleg dæmi frá Bretlandi sýna er markaðurinn óvæginn ef stjórnvöld misstíga sig. Stjórnvöld hér þurfa því áfram standa sína vakt til að tryggja áframhaldandi sterka stöðu landsins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum