Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

03. janúar 2018 Mennta- og barnamálaráðuneytiðMennta- og menningarmálaráðuneytið

Menntun, menning og vísindi í kjölfar Brexit

Lilja Alfreðsdóttir - mynd

Breska þjóðin ákvað í þjóðaratkvæðagreiðslu á síðasta ári að ganga úr Evrópusambandinu og því mun framtíðarskipulag Evrópu taka breytingum. Til að tryggja vandaðan undirbúning af hálfu íslenskra stjórnvalda fyrir viðræður um framtíðarsamskipti Íslands og Bretlands skipaði utanríkisráðherra fimm vinnuhópa um Brexit sl. sumar. Mennta- og menningarmálaráðuneytið tekur þátt í þremur þessara vinnuhópa. Hér verður farið yfir nokkur af þeim brýnu málum eins og gagnkvæma viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi, samstarfsáætlanir á sviði mennta- og menningarmála og vísinda ásamt hugverka- og höfundaréttindum.

EES-samningurinn tryggir gagnkvæma viðurkenningu á menntun og hæfi á sameiginlega vinnumarkaðnum. Einstaklingi sem hefur aflað sér faglegrar menntunar og hæfis til starfs í einu af aðildarríkjum EES-samningsins er heimilt að starfa hvar sem er innan evrópska efnahagssvæðisins með sömu réttindum og skyldum og heimamenn. Við útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu verða bresk stjórnvöld ekki skuldbundin til að viðurkenna menntun sem aflað er á Íslandi til að gegna þeim lögvernduðu störfum. Á sama hátt verður íslenskum stjórnvöldum ekki skylt til að viðurkenna menntun sem aflað hefur verið í Bretlandi. Eitt meginmarkið íslenskra stjórnvalda er að tryggja að áfram verði hægt að viðhalda skilvirkni núverandi viðurkenningarkerfis og komast að gagnkvæmu samkomulagi.

Bókun 31 við EES-samninginn um samvinnu á sérstökum sviðum utan marka fjórþætta frelsisins gerir Íslandi kleift að taka þátt í samstarfsáætlunum Evrópusambandsins á sviði mennta-, menningar- og vísindamála. Þátttakan hefur skilað miklu fyrir bæði einstaklinga og mennta-, menningar- og vísindakerfið í landinu. Hinn 8. desember sl. náðist samkomulag um þátttöku Breta í samstarfsáætlunum ESB á sviði mennta-, menningar- og vísindamála til ársins 2020. Íslensk stjórnvöld telja að mikill ávinningur hafi náðst í þessu samstarfi og leggja ríka áherslu á að svo verði áfram í framtíðinni.

EES-samningurinn hefur að geyma reglur um hugverkaréttindi og óskráð réttindi á borð við höfundarétt. EES-samningurinn felur í sumum tilfellum í sér aukna vernd hugverka- og höfundaréttinda umfram alþjóðasamninga á því sviði og á öðrum sviðum auðveldar samningurinn skráningu og skilvirka vernd slíkra réttinda á Evrópska efnahagssvæðinu. Íslenskir höfundar njóta þannig aukinnar verndar á verkum sínum umfram það sem gengur og gerist í ýmsum alþjóðlegum samningum. Brýnt er að tryggja hagsmuni þessu tengdu í framtíðinni.

Íslensk stjórnvöld munu halda áfram að sinna hagsmunagæslu vegna Brexit og fylgjast náið með framvindu úrsagnarferlisins. Það er mikilvægt að viðhalda góðum og nánum samskiptum við Bretland, sem er okkar helsta viðskiptaþjóð, og efla þau til framtíðar.

Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 3. janúar 2018

 

 

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum