Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

22. janúar 2018 Mennta- og barnamálaráðuneytiðLilja Alfreðsdóttir

Sigrar fatlaðs fólks

Sigrar fatlaðs fólks

Vitnisburður þjóða á 21. öldinni ræðst meðal annars af hvernig búið er að fötluðu fólki. Eitt af því sem gerir Ísland og hin Norðurlöndin að öflugum þjóðum er sá samfélagslegi sáttmáli um að veita einstaklingum jöfn tækifæri til menntunar og að sækja sér heilbrigðisþjónustu. Góður árangur Norðurlandanna er ótvíræður. Þjóðartekjur á mann eru með því hæsta í veröldinni og félagslegur hreyfanleiki er einnig sá mesti. Þetta er mikill og lofsverður árangur sem náðst hefur enda er mjög eftirsóknarvert að búa í þessum ríkjum.

Menntun eykur lífsgæði

Menntun fatlaðs fólks er mikilvæg og eykur lífsgæði og tækifæri til muna. Aðgengi og fjölbreytt námsúrval hefur verið að aukast á Íslandi á síðustu árum. Mjög gott dæmi um slíka framþróun er sérnámsbraut við Fjölbrautarskólann í Ármúla sem er fyrir nemendur með fötlunargreiningu. Hlutverk og markmið brautarinnar er að nemendur fái tækifæri til að stunda nám við hæfi innan félagsheildar fjölbrautaskóla. Þannig viðhalda þeir og auka þekkingu sína og færni til að takast á við viðfangsefni daglegs lífs. Lögð er áhersla á að nemendur á brautinni einangrist ekki heldur séu þeir hluti af skólaheildinni. Í heimsókn minni í skólann var ánægjulegt að sjá nemendur og fagfólk vinna vel saman. Það er ríkur vilji hjá stjórnvöldum að halda áfram á þessari braut og auka tækifæri til menntunar þannig að allir einstaklingar fái notið sín.

Öflugt íþróttastarf til fyrirmyndar

Mikil gróska hefur einkennt íþróttastarf fatlaðra á Íslandi og mikill metnaður er lagður í umgjörð þess. Okkar fatlaða íþróttafólk hefur unnið hvert afrekið á fætur öðru á alþjóðlegum stórmótum. Ég varð þeirrar ánægju að njótandi á fyrstu dögum ársins að vera gestur á Nýárssundmóti Íþróttasambands fatlaðra. Öll umgjörð og aðbúnaður á mótinu var til fyrirmyndir og gleðin skein úr andlitum þátttakenda. Það starf sem Íþróttasamband fatlaðra hefur unnið í gegnum árin er lofsvert. Með því að leggja kapp á fagmennsku og sterka umgjörð er gott aðgengi tryggt og skilyrði fyrir afreksfólk gerð betri. 

Margir áfangasigrar hafa orðið er varðar réttindi fatlaðs fólks á Íslandi. Haustið 2016 fullgilti Ísland samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Samningurinn er leiðarvísir að því hvernig tryggja skal fötluðu fólki mannréttindi og tækifæri til jafns við aðra og gera því þannig kleift að vera virkir þátttakendur í samfélaginu. Í 24. grein sáttmálans er lögð áhersla á að allir hafi jöfn tækifæri til menntunar á öllum skólastigum án aðgreiningar. Það er von mín og vilji að stjórnvöld nái að vinna enn frekar að framgangi þessa mikilvæga málaflokks enda höfum við undirgengist skuldbindingar þessa efnis.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu þann 22. janúar, 2018.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum