Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

31. janúar 2018 Mennta- og barnamálaráðuneytiðLilja Alfreðsdóttir

Vatnajökulsþjóðgarður á heimsminjaskrá

Grein eftir Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra
Birtist í Morgunblaðinu 31.01.2018

Íslensk stjórnvöld vinna að því að Vatnajökulsþjóðgarður fari á heimsminjaskrá UNESCO og verður tilnefning þess efnis send inn þann 31. janúar. Heimsminjasamningur UNESCO var samþykktur árið 1972 og þykir hafa heppnast vel. Af 195 ríkjum sem eiga aðild að UNESCO hafa 193 fullgilt hann sem er mjög hátt hlutfall. 


Það sem er sérstakt við heimsminjasamninginn er að í honum er fjallað um verndun náttúru- og menningarminja í einum samningi. Þó svo heimsminjaskráin sé sá hluti samningsins sem hvað mestrar athygli nýtur meðal almennings, þá fjallar hann um margt annað, m.a. skuldbindingar ríkja til að gæta vel að menningar- og náttúruarfi sínum í hvívetna, hvort sem minjarnar eru þýðingarmiklar fyrir nánasta umhverfið, landið allt eða heiminn.

Krefjandi ferli

Það eru mörg atriði sem þarf að huga að til að komast á heimsminjaskrána. Skila þarf tilnefningu til heimsminjaskrifstofu UNESCO í París fyrir tiltekna dagsetningu og er tilnefningunni ætlað að sannfæra heimsminjanefndina um að viðkomandi staður sé einstakur á heimsvísu. Alþjóðleg samtök sérfræðinga á sviði menningarminja eða náttúruminja meta síðan staðina og skila um þá skýrslu til heimsminjanefndarinnar. Allt það ferli tekur minnst hálft annað ár en þá vonandi tekur nefndin jákvæða ákvörðun. Þess vegna bindum við vonir við sumarið 2019.
Ísland fullgilti heimsminjasamninginn í desember 1995. Frá upphafi hafa mennta- og menningarmálaráðuneytið og umhverfis- og auðlindaráðuneytið sem bera ábyrgð á samningnum hér á landi unnið náið saman að innleiðingu hans og hefur það vakið athygli í alþjóðasamfélaginu. Nú þegar eru tveir staðir á Íslandi á heimsminjaskrá UNESCO, annars vegar Þingvellir (2004) og hins vegar Surtsey (2008).

Tækifæri samfélagsins

Það eru mörg tækifæri fólgin í því að efla þjóðgarðinn með þessum hætti, ekki síst fyrir ferðaþjónustuna í þjóðgarðinum og umhverfi hans. Að hafa stað á heimsminjaskrá UNESCO innan sinna vébanda er um allan heim talin óskastaða fyrir sérhvert sveitarfélag og komast færri að en vilja. Ég efa ekki að byggðirnar í nágrenni garðsins og umhverfis hann munu styrkjast komist þjóðgarðurinn á heimsminjaskrána.

Ég vil þakka þáverandi ráðherrum Sigrúnu Magnúsdóttur, umhverfis- og auðlindaráðherra, og Illuga Gunnarssyni, mennta- og menningarmálaráðherra fyrir að setja af þessa vinnu árið 2016. Síðast en ekki síst vil ég þakka öllu því fólki sem vann á metnaðarfullan hátt að gerð tilnefningarinnar. Ég er full bjartsýni á að Vatnajökulsþjóðgarður bætist við heimsminjaskránna árið 2019 og verði þar að leiðandi þriðji staðurinn á Íslandi sem fer á heimsminjaskrá UNESCO.

 


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum