Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

19. mars 2018 Mennta- og barnamálaráðuneytiðLilja Alfreðsdóttir

Hagsmunir nemenda hafðir að leiðarljósi

 

Grein eftir Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, sem birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. mars 2018.

Nemendum í 9. bekk gefst kostur á að þreyta að nýju könnunarpróf í ensku og íslensku en margir þeirra tóku próf við óviðunandi aðstæður fyrr í mánuðinum. Þátttaka í könnunarprófunum verður valkvæð en þeir nemendur sem luku prófunum fá afhentar niðurstöður úr þeim. Öllum býðst svo að þreyta sambærileg könnunarpróf að nýju í vor eða haust enda er það lögbundin skylda menntamálayfirvalda að bjóða nemendum mat á námsstöðu sinni.

En þýðir þetta endalok rafrænna prófa? Það kom ótvírætt fram á samráðsfundi í liðinni viku með fulltrúum frá nemendum, Skólastjórafélagi Íslands, Félagi grunnskólakennara, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, félagi fræðslustjóra, samtökunum Heimili og skóla, umboðsmanni barna, Menntamálastofnun og sérfræðingahópi um framkvæmd samræmdra könnunarprófa að rafrænar lausnir í skólastarfi séu komnar til að vera þar sem þær bjóða upp á marga kosti til að þróa skólastarf. Því er ég sammála.

Það er hins vegar eðlilegt í kjölfar mislukkaðrar framkvæmdar líkt og um daginn, að staldra við og spyrja hvað betur megi fara og hvað þarf að laga í stóra samhenginu. Það er til dæmis ljóst aðskiptar skoðanir eru um samræmd könnunarpróf, markmið þeirra og tilgang.

Það er því sjálfsagt að ræða um hugmyndafræðina sem liggur að baki lagaskyldunni um samræmd próf, þótt hún tengist ekki framkvæmd prófanna nú. Á fyrrnefndum samráðsfundi var ákveðið að setja á laggirnar vinnuhóp hagsmunaaðila, sem geri tillögu að framtíðarstefnu um fyrirkomulag samræmdra könnunarprófa. Leitað verður eftir tilnefningum í hópinn í vikunni og óskað verður eftir tillögum fyrir árslok.

Við eigum á hverjum tíma að rýna grunnskólalögin og raunar skólakerfið allt, og velta því fyrir okkur hvernig við búum nemendur sem best undir framtíðina. Samfélagið er að breytast og það er fullkomlega eðlilegt að skólakerfið breytist samhliða. Það er von mín að aðkoma allra ofangreindra aðila verði til þess að fundin verði farsæl lausn sem mun gera menntakerfið betra til framtíðar.

Það er ríkur vilji í samfélagi okkar að bæta menntakerfið og það er löng hefð fyrir því að leggja áherslu á gildi læsis og menntunar á Íslandi. Tækifærið til að efla umgjörð menntakerfisins er núna, nýtum það til framfara og höfum að leiðarljósi að menntun er fyrir alla.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum