Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

28. mars 2018 Mennta- og barnamálaráðuneytiðLilja Alfreðsdóttir

Vísinda- og rannsóknastarf eflt á landsbyggðinni

Vísinda- og rannsóknastarf eflt á landsbyggðinni - myndHáskólasetur Vestfjarða
Grein eftir Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, sem birtist fyrst í Morgunblaðinu 28. mars 2018.

Ný námsleið á meistarastigi, sjávarbyggðafræði, verður í boði fyrir nemendur á vegum Háskólaseturs Vestfjarða á Ísafirði frá og með næsta hausti. Það er fagnaðarefni en fjármögnun til þess að hefja þetta verkefni er tryggð og ráðgert að um 20 nemendur innritist í námið árlega.

Háskólasetur Vestfjarða hefur sannað sig gildi sitt fyrir samfélögin á norðanverðum Vestfjörðum og hafa nemendur og kennarar auðgað samfélagið með þekkingu sinni, nærveru og rannsóknum en yfir 100 nemendur hafa útskrifast með meistaragráðu í haf- og strandsvæðastjórnun frá árinu 2008. Bæði haf- og strandsvæðastjórnun og nýja námsleiðin í sjávarbyggðafræði eru alþjóðlegar og kenndar á ensku, en áhersla er lögð á að nýta sérstöðu Vestfjarða m.t.t. nálægðar við hafið og strandbyggðirnar. Það er því mjög gleðilegt að hafa tryggt þennan áfanga og þar með festa Háskólasetur Vestfjarða enn betur í sessi sem öfluga menntastofnun. 

Sjávarbyggðafræði er þverfræðilegt nám sem byggir á inntaki og aðferðum félagsfræði, hagfræði, landfræði og skipulagsfræði. Námsleiðin var ein af tillögum starfshóps forsætisráðherra um aðgerðaráætlun fyrir Vestfirði sem unnin var árið 2016 og samþykkt af þáverandi ríkisstjórn. Öll kennsla fer fram við Háskólasetur Vestfjarða á Ísafirði en nemendur eru formlega skráðir í Háskólann á Akureyri og útskrifast þaðan.

Stuðningur við menntun, vísinda- og rannsóknarstarf um allt land er gífurlega mikilvægur. Það eru sóknartækifæri í að byggja upp þekkingarstarfsemi vítt og breitt um landið sem tekur mið af sérstöðu hvers landsvæðis fyrir sig. Þessi nýja námsleið er gott dæmi um hvernig staðhættir geta nýst í kennslu til þess að byggja upp verðmæta þekkingarstarfsemi á svæðinu. Það skilar árangri að efla svæðisbundna rannsókna- og þekkingarkjarna og stuðla að faglegum tengslum bæði þeirra á milli og við háskóla, rannsóknarstofnanir og fyrirtæki. Með auknu samstarfi má nýta mannauð og aðstöðu betur og stórauka aðgengi nemenda og fræðimanna að auðlindum menningar og náttúru landsins. Slíkt stuðlar að fleiri starfstækifærum á landsbyggðinni og að fjölbreyttari og sterkari samfélögum.

Ég óska forráðamönnum Háskólaseturs Vestfjarða og íbúum á svæðinu til hamingju með áfangann og hlakka til að fylgjast með starfseminni eflast og dafna.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum