Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

18. apríl 2018 Mennta- og barnamálaráðuneytiðMennta- og menningarmálaráðuneytið

Metnaðarfull markmið fyrir frístundaheimili

Grein eftir Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, sem birtist fyrst í Morgunblaðinu 18. apríl 2018.
Frístundaheimili gegna mikilvægu hlutverki í lífi flestra fjölskyldna barna á grunnskólaaldri. Þar fer fram frábært starf og á dögunum urðu ákveðin tímamót í faglegri umgjörð þeirra þegar í fyrsta sinn voru gefin út markmið og viðmið um gæði starfs á frístundaheimilum á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Starfsemi frístundaheimila hefur þróast mikið frá árinu 1995 þegar heimildarákvæði um þau var sett grunnskólalög. Leiðarljós frístundaheimila er að bjóða börnum upp á þátttöku í fjölbreyttu frístunda- og tómstundastarfi með það að markmiði að efla sjálfstraust og félagsfærni þeirra. Lögð er áhersla á að umhverfi starfsins einkennist af öryggi, fagmennsku og virðingu þar sem jákvæð samskipti og lýðræðislegir starfshættir eru í hávegum hafðir í samræmi við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Þessi nýju markmið og viðmið sem kynnt voru á dögunum eru í senn metnaðarfull og skýr varðandi hlutverk, öryggi, velferð, inntak starfsins, jafnræði og fagmennsku starfsfólks frístundaheimila. Gætt var að því að þau væru ekki íþyngjandi fyrir sveitarfélögin, ættu frekar að vera leiðbeinandi en þó með það að markmiði að aðbúnaður barna á grunnskólaaldri sem dvelja á frístundaheimilum og skóladagvistum sé góður og að tryggt sé að faglega verði staðið að rekstri slíkrar þjónustu. Mikið og gott samráð hefur átt sér stað í þessari vinnu við sveitarfélögin sem reka frístundaheimilin og aðra helstu hagsmunaaðila starfseminnar. Alls staðar komu fram jákvæð viðhorf við gerð markmiða og viðmiða og rætt um þýðingarmikið skref til að efla faglegt starf frístundaheimila og auka þróunarstarf í heimabyggð.

Nú er mikilvægur áfangi er í höfn sem snýr að því að samræma kröfur til starfsemi frístundaheimila og stuðla að þróunarstarfi um land allt í útfærslu og aukinni samþættingu skóla- og frístundastarfs fyrir yngri nemendur í grunnskólum. Ég bind vonir við að sú góða vinna muni gagnast öllum þeim sem starfa að málaflokknum og verða til þess að efla starf frístundaheimilanna – nemendum, foreldrum þeirra og starfsfólki til hagsbóta.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum