Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

30. apríl 2018 Mennta- og barnamálaráðuneytiðMennta- og menningarmálaráðuneytið

Norðurlöndin mæta samfélagslegum áskorunum með þekkingu og samvinnu

Norðurlöndin mæta samfélagslegum áskorunum með þekkingu og samvinnu - myndJohannes Jansson/norden.org
Grein eftir mennta- og vísindaráðherra Norðurlandanna sem birtist fyrst í Morgunblaðinu 28. apríl 2018.
Við getum verið stolt af mörgu á Norðurlöndum. Samfélagslegar áskoranir aukast ekki bara í öðrum heimshlutum heldur einnig í nærumhverfi okkar og þörf er á meiri samvinnu og þekkingu til að takast á við þær. Á fundi norrænna mennta- og vísindaráðherra í Stokkhólmi á dögunum var lagður mikilvægur grunnur að áframhaldandi samvinnu á sviði menntamála á Norðurlöndunum.

Tengsl okkar hvíla á sterkri menningu lýðræðis og grasrótarafla; gildum jafnræðis, jafnréttis og samvinnu. Á óróleikatímum þurfum við að treysta þau og jafnframt efla það sem gerir Norðurlöndin og sjálfstjórnarsvæðin bæði sterk og skapandi. Við sjáum neikvæð teikn á lofti, ekki einungis í fjarlægum heimshlutum heldur einnig hér heima, til dæmis með hatursorðræðu og dreifingu falsfrétta. Á slíkum tímum er mikilvægt að standa vörð um hlutverk þekkingar og vísinda. Háskóla- og vísindakerfi Norðurlanda byggja á sterkum grunngildum þar sem akademískt frelsi er tryggt. Háskólarnir eru gangverkið í þróun samfélagsins að betri framtíð, aukinni velsæld og sterku lýðræði.

Þekking veitir fólki öryggi. Við munum vinna áfram að því að styrkja menntun og rannsóknir þannig að þeir sem búa á Norðurlöndunum geti menntað sig alla ævi. Norðurlandasamningur um aðgengi að háskólum hefur verið framlengdur til næstu þriggja ára og umsækjendur um háskólavist í öðru norrænu landi geta áfram fengið skólavist á sömu forsendum og íbúar viðkomandi lands. Fyrr á þessu ári var einnig settur af stað hópur sem vinnur að samræmdri viðurkenningu háskólagráða á Norðurlöndum. Með þessum tveimur aðgerðum getum við tryggt aðgengi að háskólamenntun fyrir alla á Norðurlöndum og aukið hreyfanleika innan landanna, sem aftur leiðir að bættum sameiginlegum vinnumarkaði og betri menntun á svæðinu. Jafnframt þurfum við að sjá til þess að háskólar geti tekist á við áskoranir samtímans og halda í það sem hefur tryggt árangursríkan framgang norrænna samfélaga. Við eigum að varðveita það sem gerir okkur einstök án þess að hræðast framþróun. Þróttmikið og skapandi vísindastarf getur svarað þeim miklu samfélagslegu áskorunum sem við stöndum frammi fyrir, s.s. örri stafrænni þróun, breyttum þörfum innan heilbrigðisgeirans og loftslagsbreytingum svo fátt eitt sé nefnt.

Kunnátta í tungumálum verður æ mikilvægari í hnattvæddu samfélagi og flest Norðurlönd eiga það sameiginlegt að vera með marga nemendur sem fleiri en eitt tungumál. Tungumálakunnátta er auðlind sem ætti að nýta betur. Þær áskoranir og tækifæri sem felast í fjöltyngdu samfélagi nútímans eru okkur sameiginlegar og við getum lært margt hvert af öðru, ekki síst um hvernig þróa megi það fjöltyngi sem er til staðar.

Markmið samvinnu okkar er að styrkja norrænt rannsóknarstarf og sameiginlega stefnu. Til að halda stöðu okkar sem leiðandi þekkingarsvæði þurfum við meta og þróa þá samvinnu í takt við tíðarandann. Markmið okkar er að Norðurlöndin verði áfram leiðandi á sviði þekkingar og hæfni. Til að ná því markmiði þurfum við að vinna saman þvert á landamæri. Í sameiningu geta Norðurlöndin, Færeyjar, Grænland og Álandseyjar haldið áfram að vera hnattræn fyrirmynd þekkingar og velferðar.

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra Íslands
Helene Hellmark Knutsson, ráðherra háskólamenntunar og rannsókna í Svíþjóð
Sanni Grahn-Laasonen, menntamálaráðherra Finnlands
Søren Pind, Danmarks ráðherra háskólamenntunar og rannsókna í Danmörku
Iselin Nybø, ráðherra háskólamenntunar og rannsókna í Noregi
Jan Tore Sanner, ráðherra menntamála og aðlögunar í Noregi




Efnisorð

Heimsmarkmiðin

4. Menntun fyrir öll
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum