Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

01. desember 2018 Mennta- og barnamálaráðuneytiðLilja Alfreðsdóttir

Menntun og menning til framtíðar

Grein eftir Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, sem birtist í Morgunblaðinu 1. desember 2018.

Á þessum hátíðardegi fögnum við aldarafmæli fullveldis þjóðarinnar. Með sambandslögunum milli Íslands og Danmerkur, sem gildi tóku 1. desember 1918, var það viðurkennt að Ísland væri fullvalda og frjálst ríki og hefur dagurinn því sérstöðu í sögu okkar. Ég vona að sem flestir gefi sér tækifæri til þess að taka þátt í viðburðum sem skipulagðir eru víða um land af þessu hátíðlega tilefni. Tímamót gefa færi á að líta um öxl og svo vill til að um þessar mundir er ár liðið frá því að núverandi ríkisstjórn tók til starfa. Þetta fyrsta ár hefur verið afar lærdóms- og viðburðaríkt en sem mennta- og menningarmálaráðherra hef ég fengið að kynnast frábæru og fjölbreyttu starfi sem unnið er að á þeim vettvangi.

Stórsókn í menntamálum
Ríkisstjórnin hefur frá upphafi tekið það verkefni föstum tökum að stuðla að nauðsynlegri uppbyggingu samfélagslegra innviða. Í stjórnarsáttmálanum boðuðum við stórsókn í menntamálum og samþykkt fjármálaáætlun næstu ára ber þess skýr merki. Öflugt menntakerfi er forsenda framfara og leggur grunninn að áframhaldandi velsæld okkar. Við viljum að skapandi og gagnrýnin hugsun, læsi og þátttaka í lýðræðissamfélagi verði áfram undirstaða íslenska skólakerfisins og það geti mætt örum samfélagsbreytingum. Á því byggist samkeppnishæfni okkar til framtíðar. Vinna er hafin við mótun nýrrar menntastefnu til ársins 2030 og þar setjum við í forgang þær áskoranir sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir í mennta-, atvinnu- og velferðarmálum.

Mikilvægi kennara
Brýnt verkefni okkar á sviði menntamála er að styrkja umgjörð í kringum kennara á öllum skólastigum og auka nýliðun í stétt þeirra. Mikilvægt er að stuðla að viðurkenningu á störfum kennara, efla faglegt sjálfstæði og leggja áherslu á skólaþróun á öllum skólastigum því kennarar eru lykilfólk í mótun framtíðarinnar. Fjölþættar aðgerðir sem snúa að nýliðun kennara verða brátt kynntar en við höfum unnið að þeim í góðu samstarfi við skólasamfélagið.

Eflum iðn-, starfs- og verknám

Eitt okkar forgangsmála er að efla iðn-, starfs- og verknám. Í því felst að styrkja utanumhald með verk- og starfsþjálfun nemenda og auka aðgengi að náminu. Niðurfelling efnisgjalda var mikilvægt skref í þá átt. Þá er brýnt að kynna betur þá fjölbreyttu náms- og starfskosti sem í boði eru. Sú vinna fer einkar vel af stað og sem dæmi fjölgaði innrituðum nemendum á verk- og starfsnámsbrautum framhaldsskóla hlutfallslega um 33% milli ára á haustönn. Kostir verk- og starfsmenntunar eru ótvíræðir og mikil eftirspurn eftir fólki með slíka menntun á ýmsum sviðum atvinnulífsins.

Vinnum gegn brotthvarfi
Annað stórt verkefni eru aðgerðir gegn brotthvarfi nemenda á framhaldsskólastigi. Aðgerðir á því sviði snúast meðal annars um aukin framlög til framhaldsskólastigsins, betri kortlagningu á brotthvarfsvandanum og bættri geðheilbrigðisþjónustu fyrir nemendur framhaldsskólanna. Niðurstöður útreikninga á árlegu nýnemabrotthvarfi sýna að það hefur minnkað miðað við gögn síðustu þriggja ára og er það vel, sem og að nú hefur svokölluð „25 ára regla“ verið afnumin.

Styrkara háskólastig
Til þess að stuðla að hagvexti og umhverfi þar sem nýsköpun blómstrar og verkvit þróast er mikilvægt að fjárfesta í háskólastiginu og hvetja til öflugs samstarfs þess við atvinnulífið. Heildarfjárframlög háskólastigsins nema tæpum 47 milljörðum kr. á næsta ári en að meðtöldum launa- og verðlagsbreytingum er það hækkun um 2,2 milljarða kr. eða um 5% milli ára. Markmiðið með auknum framlögum til kennslu og rannsókna á háskólastigi er fyrst og fremst að auka gæði náms. Fjárfestingar okkar í menntakerfinu hafa aukist að undanförnu og hefur hlutfall háskólamenntaðra hér á landi vaxið hratt. Það er ánægjulegt að atvinnuleysi hjá háskólamenntuðum er mjög lágt hér á alþjóðlegan mælikvarða.

Menningin
Aðgengi að menningu er þýðingarmikill þáttur þess að lifa í framsæknu samfélagi, því skiptir máli að landsmenn allir geti notið lista og menningar og tekið þátt í slíku starfi. Við fylgjum eftir þeirri vinnu sem unnin hefur verið í uppbyggingu menningarhúsa á landsbyggðinni og á þessu ári hafa verið tekin mikilvæg skref í uppbyggingu slíkra húsa, á Sauðárkróki og Egilstöðum. Menningarhúsin hafa sannað mikilvægi sitt víða um land og þau hafa ótvíræð jákvæð margfeldisáhrif, bæði á bæi og nærsamfélög. Á síðustu árum hefur átt sér stað vitundarvakning í verkefnum tengdum barnamenningu. Í tilefni af fullveldisafmælinu verður stofnaður barnamenningarsjóður með það markmið að styrkja börn til virkrar þátttöku í menningarlífi, listsköpun, hönnun og nýsköpun. Jafnframt verður nýjum styrkjaflokki bætt við styrki Miðstöðvar íslenskra bókmennta sem sérstaklega verður ætlaður barna- og ungmennabókum.

Framtíðin er á íslensku
Íslensk stjórnvöld hafa kynnt heildstæða áætlun sem miðar að því að styrkja stöðu íslenskunnar. Aðgerðirnar snerta ólíkar hliðar þjóðlífsins en markmið þeirra ber að sama brunni; að tryggja að íslenska verði áfram notuð á öllum sviðum samfélagsins. Þeim til grundvallar er eindreginn vilji til að tryggja framgang tungumálsins, t.a.m. með stuðningi við bókaútgáfu, einkarekna fjölmiðla, máltækni og menntun. Á næstunni mun ég leggja fram þingsályktunartillögu um að efla íslensku sem opinbert mál hér á landi. Megininntak hennar verða aðgerðir í 22 liðum sem snerta m.a. skólastarf, menningu, tækniþróun, nýsköpun, atvinnulíf og stjórnsýslu.

Verkin tala
Sem ráðherra fagna ég áhuga á þróun mennta- og menningarmála og þakka þann ríka samvinnuvilja sem ég skynja á vettvangi minna starfa. Hvoru tveggja er okkur mikilvægt til að ná þeim metnaðarfullu markmiðum sem við höfum sett okkur. Nú horfum við 100 ár aftur í tímann, fögnum tímamótum og hugsum jafnframt til framtíðar. Hún er full af spennandi verkefnum og tækifærum. Til hamingju með fullveldisdaginn.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum