Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

02. janúar 2019 Mennta- og barnamálaráðuneytiðLilja Alfreðsdóttir

Sókn íslenskunnar

Grein eftir Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, sem birtist í Fréttablaðinu 31. desember 2018.

Í kvöld tökum við á móti nýju ári og kveðjum viðburðaríkt ár sem hefur einkennst af skemmtilegum og krefjandi áskorunum. Á slíkum tímamótum staldrar fólk gjarnan við og lítur yfir farinn veg. Á árinu sem er að líða hefur íslenskan verið sett í öndvegi í opinberri stefnumótun og einnig hjá atvinnulífinu. Vaxandi áhrif tölvu- og samskiptatækni á daglegt líf krefjast aðgerða til að tungumál, líkt og okkar, séu gjaldgeng í nútímasamskiptum. Stjórnvöld kynntu heildstæða áætlun til þess að styrkja stöðu íslenskunnar og tryggja að hún verði áfram notuð á öllum sviðum þjóðlífsins.

Mikilvægt skref var stigið á þeirri vegferð í mánuðinum þegar Alþingi samþykkti frumvarp um stuðning við útgáfu bóka á íslensku. Það felur í sér 25% endurgreiðslu vegna beins kostnaðar við útgáfu íslenskra bóka en áætluð framlög eru um 400 milljónir kr. á ári. Að auki verður stofnaður sérstakur barna- og unglingabókasjóður.

Einn angi þess að efla íslenskuna snýr að fjölmiðlum en þeir gegna mikilvægu hlutverki við miðlun upplýsinga og sem vettvangur skoðanaskipta. Rekstrarumhverfi þeirra er hins vegar erfitt. Við þessu ætlum við bregðast en á vorþingi mæli ég fyrir frumvarpi um stuðning við einkarekna fjölmiðla sem mun gera þá betur í stakk búna til að miðla vönduðu fréttaefni á íslensku og efla þannig lýðræðislega
umræðu.

Við viljum gera íslenskuna gjaldgenga í stafrænum heimi en á árinu var hrint af stað verkáætlun um máltækni. Í því felst að þróa tæknilausnir sem munu gera okkur kleift að eiga samskipti við tækin okkar á íslensku. Áætlunin er að fullu fjármögnuð en áætlaður kostnaður við hana er 2,2 milljarðar kr.

Á skólamálaþingi Kennarasambands Íslands í haust var skrifað undir viljayfirlýsingu um að hrinda í framkvæmd vitundarvakningu um mikilvægi íslensks máls. Þetta rímar meðal annars við þingsályktunartillögu í 22 liðum um eflingu íslenskunnar sem ég mælti fyrir nýverið. Ljóst er að kennarar eru í lykilhlutverki við að efla tungumálið okkar og því taka stjórnvöld frumkvæðinu fagnandi. Að því sögðu óska ég landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs og þakka fyrir viðburðaríkt ár sem er á enda.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum