Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

18. febrúar 2019 Mennta- og barnamálaráðuneytiðLilja Alfreðsdóttir

Ný íþróttastefna í farvatninu

Grein eftir Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, sem birtist í Morgunblaðinu 18. febrúar 2019.

Bikarúrslitaleikir karla og kvenna í körfubolta áttu sér stað um helgina í Laugardalshöll, þar sem Valskonur urðu bikarmeistarar í fyrsta sinn og Stjarnan í karlaflokki í fjórða sinn á ellefu árum. Leikirnir varpar ljósi á það besta í íþróttalífi þjóðarinnar, þ.e. þrautseigju og baráttu leikmannanna, ásamt því að draga fram samkennd og stemningu sem ríkir milli liðanna og stuðningsmanna þeirra.

Íþróttir hafa fylgt þjóðinni allt frá landnámi en glíma, hlaup og aflraunir voru meðal þeirra íþrótta sem getið er um í Íslendingasögunum. Árið 1828 komu tillögur fram um kennslu í leikfimi og hófst leikfimikennsla í Lærða skólanum árið 1857. Þegar nær dró aldarmótunum 1900 fór íþróttafélögum að fjölga en elsta starfandi íþróttafélagið í dag, Glímufélagið Ármann, var stofnað árið 1888. Segja má að ákveðin vatnaskil hafi orðið í íþróttalífi þjóðarinnar árið 1906 þegar að fyrsta ungmennafélagið var formlega stofnað á Akureyri en ungmennafélögin beittu sér meðal annars fyrir líkamsrækt og framþróun íþrótta sem og ræktun mannsandans. Fyrsta almenna íþróttamót í Reykjavík var haldið að frumkvæði Ungmennafélags Íslands (1907) árið 1911. Annað mikilvægt skref fyrir umgjörð og starfsemi íþrótta var stigið árið 1912 þegar að skipulagt samstarf íþróttafélaga í landinu hófst með stofnun Íþróttasambands Íslands (ÍSÍ). Gaf sambandið meðal annars út íþróttareglur, skipulagsskrá um íþróttamót, heilsufræði fyrir íþróttamenn og fleira. Barðist ÍSÍ til að mynda fyrir sundskyldu í skólum sem Alþingi veitti heimild til árið 1925 en leikfimi varð einnig skylda í héraðs- og gagnfræðaskólum. Menntun íþróttakennara formgerðist enn frekar árið 1942 þegar að Íþróttakennaraskóli ríkisins var formlega stofnaður á Laugavatni upp úr einkaskóla sem sinnt hafði slíkri menntun frá árinu 1932. Alþingi hafði stuttu áður, árið 1940, sett íþróttalög og komið á fót embætti íþróttafulltrúa ríkisins.

Það er fróðlegt að staldra við og horfa til sögunnar. Það er engin tilviljun að við Íslendingar náum langt í hinum ýmsu greinum íþróttanna. Framsýni fólks hér á öldum áður á stóran þátt í því hvernig okkur hefur tekist til æ síðan og ljóst er að grunnur íþróttastarfs í landinu er traustur, aðstaða til íþróttaiðkunar góð og fagleg nálgun í þjálfun til fyrirmyndar. Það er kappsmál okkar allra að halda áfram á þeirri braut en á komandi vikum verður ný íþróttastefna til ársins 2030 kynnt. Hún byggist á því grundvallarsjónarmiði að almennt íþróttastarf utan skólastofnana skuli skipulagt af frjálsum félagasamtökum eins og ÍSÍ, UMFÍ og fleirum og að allir hafi jöfn tækifæri til að taka þátt.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum