Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

18. mars 2019 Mennta- og barnamálaráðuneytiðLilja Alfreðsdóttir

Áfram íslenska – staða íslenskukennslu í skólum

Grein eftir Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, sem birtist í Morgunblaðinu 18. mars 2019.

Íslenskan er sprelllifandi tungumál. Hún er undirstaða og fjöregg íslenskrar menningar og hún er skólamálið okkar. Hinn 1. apríl nk. skipuleggur mennta- og menningarmálaráðuneytið ráðstefnu um íslenskukennslu í skólum landsins í samvinnu við Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri, Kennarasamband Íslands og Samband íslenskra sveitarfélaga. Við hvetjum skólafólk og alla velunnara íslenskunnar til þátttöku. 

Ráðstefnan er liður í aðgerðum okkar til þess að efla íslensku sem opinbert mál hér á landi en þær eru meðal annars kynntar í þingsályktun þess efnis sem lögð var fyrir á Alþingi fyrr í vetur. Eitt af markmiðum aðgerðanna er að efla íslenskukennslu á öllum skólastigum. Á ráðstefnunni munum við meðal annars horfa til niðurstaðna rannsóknar á stöðu íslenskukennslu sem miðlað er í bókinni Íslenska í grunnskólum og framhaldsskólum sem nýverið kom út í ritstjórn Kristjáns Jóhanns Jónssonar og Ásgríms Angantýssonar. Um er að ræða fyrstu heildstæðu rannsóknina sem fram fer á öllum þáttum íslenskukennslu hér á landi. Að henni standa sjö íslenskukennarar við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri auk meistara- og doktorsnema við skólana. Niðurstöðurnar sýna jákvætt og virðingarvert starf en einnig ýmislegt sem betur má fara. 

Það eru blikur á lofti og ýmislegt bendir til þess að viðhorf til íslenskunnar sé að breytast. Þekktar eru tölulegar upplýsingar um hrakandi lestrarfærni og lesskilning íslenskra nemenda. Nemendum sem hafa annað móðurmál en íslensku vegnar verr í skólakerfinu og þeim er hættara við brotthvarfi úr námi. Framboð á afþreyingarefni á ensku hefur aukist gríðarlega og merki eru um að fleira ungt fólk velji að lesa á ensku. Samfara minnkandi bóklestri er raunveruleg hætta á því að það sem áður var talið eðlilegt ritmál fari að þykja tyrfið og torlesið. 

Við ætlum að snúa vörn í sókn fyrir íslenskuna. Kennarar og skólafólk eru lykilaðilar í því að vekja áhuga nemenda á íslensku máli en slíkur áhugi er forsenda þess að íslenskan þróist og dafni til framtíðar. Að sama skapi er áhuga- og afstöðuleysi það sem helst vinnur gegn henni. Við náum árangri með góðri samvinnu og á ráðstefnunni mun gefast gott tækifæri til að fræðast, greina stöðuna og skiptast á skoðunum um stöðu og framtíð íslenskukennslu í skólum landsins. Ég hvet alla sem hafa brennandi áhuga á þessu mikilvæga málefni til þess að mæta á ráðstefnuna.

Skráðu þig hér. 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum