Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

29. apríl 2019 Mennta- og barnamálaráðuneytiðLilja Alfreðsdóttir

„Dáið er allt án drauma“

Grein eftir Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, sem birtist í Morgunblaðinu 25. apríl 2019.

Á dögunum var opnuð eftirtektarverð sýning í Landsbókasafni Íslands - Háskólabókasafni þar sem þess er minnst að nú eru 100 ár liðin frá útkomu fyrstu skáldsögu Halldórs Laxness, Barni náttúrunnar. Yfirskrift sýningarinnar er „Að vera kjur eða fara burt?“ en höfundurinn ungi valdi að kljást við þá eilífðarspurningu í æskuverki sínu en samband Íslands við umheiminn er eitt helsta viðfangsefni sögunnar.

Ég hvet fólk til þess að kynna sér þessa sýningu því hún er forvitnilegur aldaspegill, þar er leitast við að fanga tíðaranda og sögulegt samhengi, menningarlífið, bæjarbraginn og bakgrunn höfundarins sem þó var vart af barnsaldri árið 1919. Íslenskt samfélag var í örri mótun og þegar við hugsum til þess í dag hverjir það voru helst sem skilgreindu okkar samfélag áratugina á eftir þá leitar hugurinn ekki síst til skálda og listamanna.

Stórhuga menn
Í bók sinni Skáldalífi skrifar Halldór Guðmundsson um starfsbræður Halldórs Laxness, heimsmanninn Gunnar Gunnarsson og heimalninginn Þórberg Þórðarson – tvo aðra bændasyni sem dreymdi stóra drauma um eigin framtíð og framtíð þjóðar. Það hefur sitthvað verið skrifað, rýnt og rannsakað um verk og lífshlaup þessara þriggja og þeir á köflum skilgreindir út frá því sem aðgreindi þá og sameinaði. Mér finnst einkar athyglisvert að hugsa til þess hvers konar samfélag mótaði þessa menn, hvað nærði metnað þeirra, sköpunarþrá og hugsjónir á sínum tíma.

Raddir unga fólksins
Bernskuverk Halldórs Laxness bar með sér fyrirheit og verkinu var tekið með nokkurri eftirvæntingu þó ekki væri allir jafn hrifnir. Saga þessa verks er að mínu mati góð áminning þess fyrir okkur öll að huga vel að bernskuverkum. Að fagna þeim og hlusta á raddir unga fólksins okkar. Þó hinn sautján ára Halldór Guðjónsson hafi verið fremur óvenjulegur ungur maður, og kominn til meiri þroska en flestir jafnaldrar hans þá og ekki síður nú, þá var hann ungmenni með erindi við heiminn. Það varð gæfa landsmanna og lesenda um allan heim að höfundurinn auðgaði með verkum sínum íslenskar bókmenntir og þar með bókmenntir heimsins með stílsnilli, hugviti og innsýn, og gerir enn.

Alþjóðleg verðlaun
Í dag er haldið alþjóðlegt þing um Halldór Laxness í Veröld, húsi Vigdísar. Dagskráin er liður í Bókmenntahátíð í Reykjavík sem hófst í gær en á þinginu verður tilkynnt um hlýtur alþjóðleg bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness í fyrsta sinn. Verðlaunin verða veitt alþjóðlega þekktum rithöfundi fyrir að stuðla að endurnýjun sagnalistar með verkum sínum, en fyrir það hlaut Halldór sjálfur Nóbelsverðlaunin á sínum tíma. Að verðlaununum standa auk forsætisráðuneytis og mennta- og menningarmálaráðuneytis, Íslandsstofa, Bókmenntahátíð í Reykjavík, Gljúfrasteinn og Forlagið.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum