Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

29. apríl 2019 Mennta- og barnamálaráðuneytiðLilja Alfreðsdóttir

Uppbygging skólastarfs á Suðurnesjum

Grein eftir Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, sem birtist í Morgunblaðinu 26. apríl 2019.

Húsnæði Fjölbrautarskóla Suðurnesja verður stækkað en skrifað var undir samning þess efnis af fulltrúum sveitarfélaga í vikunni. Viðbyggingin mun hýsa félagsrými nemenda og stórbæta aðstöðu þeirra. Stjórnvöld leggja mikla áherslu á að efla framhaldsskólastigið í landinu en framlög til þess í ár nema um 35 milljörðum króna en til samanburðar námu þau um 30 milljörðum árið 2017. Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2020-2024 er gert ráð fyrir að þessi hækkun haldi sér. Við viljum að nemendur um allt land eigi greitt aðgengi að fjölbreyttri og framúrskarandi menntun og námsaðstöðu þar sem hver og einn getur fundið nám við sitt hæfi.

Stöðug framþróun skólastarfs
Fjölbrautarskólinn á Suðurnesjum hefur verið í stöðugri uppbyggingu frá stofnun árið 1976, en hann var annar fjölbrautaskólinn sem byggður var hér á landi. Nemendur við skólann eru rúmlega 830, á starfs-, bók- og verknámsbrautum. Mikið framboð er af öflugum og fjölbreytilegum námsleiðum og mikilvægt fyrir hvert byggðalag að þar sé öflugt skólastarf. Það hefur verið mikil þörf á uppbyggingu við Fjölbrautarskólann. Á þessu svæði hefur orðið mikil fólksfjölgun á síðustu árum og það er mikilvægt að skólasamfélagið geti tekið við þeim sem vilja stunda nám og boðið upp á góða aðstöðu. Því er afar ánægjulegt að hægt sé að bæta nemendaaðstöðuna en hún er hjartað í hverjum skóla.

Tækifærin eru til staðar
Forsenda velferðar og lífsgæða á Íslandi er öflugt og fjölbreytt atvinnulíf þar sem til staðar eru störf fyrir menntað fólk sem stuðlar að nýsköpun og þróun. Fjórða iðnbyltingin er hafin og hún felur í sér sjálfvirknivæðingu á öllum sviðum atvinnulífs og samfélags. Það er mikilvægt að hver og einn nemandi geti fundið nám við sitt hæfi. Slíkt eykur ekki aðeins ánægju nemenda heldur bætir einnig námsframvindu. Námsframboð á framhaldsskólastiginu er fjölbreytt og sérstaklega í starfs- og tækninámi. Þau tækifæri sem bjóðast að námi loknu eru bæði mörg og spennandi enda mikil eftirspurn eftir slíkri menntun í atvinnulífinu. Ég hvet alla þá sem huga á nám í framhaldsskóla að kynna sér vel nám og störf í iðn- og tæknigreinum því margbreytileiki þeirra mun án efa koma flestum á óvart. Það er ljóst að framtíðin er full af tækifærum.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum