Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

05. september 2019 Mennta- og barnamálaráðuneytiðLilja Alfreðsdóttir

Okkar eina líf

Grein eftir Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra sem birtist í Morgunblaðinu 5. september 2019.

Vitundarvakning söfnunarinnar „Á allra vörum“ sem hleypt var af stokkunum sl. sunnudag hefur hreyft við þjóðinni. Málefnið sem sett er í forgrunn átaksins er misnotkun lyfseðilsskyldra lyfja og ótímabær dauði ungmenna vegna þeirra. Safnað er nú fyrir framkvæmd þjóðarátaks í þágu forvarna og fræðslu til grunnskólanema sem standa mun til ársins 2022. Forvarnarverkefnið verður undir merkjum slagorðsins „VAKNAÐU – þú átt bara eitt líf“ og verður leitt af samtökum sem þegar hafa unnið mikilsvert starf á því sviði, Minningarsjóði Einars Darra Óskarssonar. Einar var einn þeirra 39 sem létust vegna lyfjaneyslu á árinu 2018, þá aðeins 18 ára að aldri.

Aðgengi og framboð á lyfjum og vímuefnum, sem mörg eru mjög ávanabindandi, hefur breyst mikið á undanförnum árum og notkun þeirra virðist mun almennari en áður. Við þurfum að vera vakandi fyrir afleiðingum þeirrar þróunar því hún snertir okkur öll. Markmið átaksins er að vekja þjóðina til umhugsunar og tala opinskátt um þessi mál til að koma megi í veg fyrir þann skaða sem þessi efni geta valdið, ekki síst ungu fólki. Tölfræðin sýnir okkur að það er brýnt tilefni til aðgerða. Samkvæmt málaskrárkerfi ríkislögreglustjóra fjölgaði málum þar sem grunur er á brotum á lyfsölulögum um 229% milli áranna 2015 og 2018. Dauðsföllum vegna lyfjanotkunar fjölgaði um 56% á árunum 2016-2018. Samkvæmt niðurstöðum könnunar Rannsókna & greiningar frá 2018 höfðu 8% framhaldsskólanema undir 18 ára aldri notað morfínskyld verkjalyf án lyfseðils oftar en einu sinni um ævina og 12% framhaldsskólanema eldri en 18 ára. Tæp 11% grunnskólanema í 10. bekk höfðu tekið svefntöflur eða róandi lyf án lyfseðils einu sinni eða oftar um ævina sem ekki var ávísað á þau og 1,5% höfðu reynt örvandi lyf sem ekki voru þeim ætluð.

Við Íslendingar náðum eftirtektarverðum árangri í því að minnka áfengis- og tóbaksneyslu ungmenna en með nýjum tímum koma nýjar áskoranir. Við vitum hvaða aðferðir virka vel, fræðsla og öflugt foreldrasamstarf eru mikilvægir þættir, en einnig virk þátttaka í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Ég er þess fullviss að við munum ná árangri í þessu mikilvæga verkefni með góðri samvinnu heimila, skóla, félagasamtaka og stjórnvalda. Sem ráðherra menntamála fagna ég einlæglega framtaki „Á allra vörum“ og hvet alla til þess að kynna sér þetta mikilvæga málefni og leggja því lið.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum