Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

31. október 2019 Mennta- og barnamálaráðuneytiðLilja Alfreðsdóttir

Eflum menntun á landsbyggðinni

Grein eftir Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra sem birtist í Morgunblaðinu 31. október 2019.

Menntunartækifæri barna og ungmenna og aðgengi þeirra að íþrótta- og tómstundastarfi hefur áhrif á ákvarðanir foreldra um búferlaflutninga frá smærri byggðarlögum. Þetta sýna niðurstöður könnunar Byggðastofnunar sem í vor kannaði viðhorf íbúa í 56 byggðakjörnum utan stærstu þéttbýlisstaða landsins. Alls bárust svör frá rúmlega 5.600 þátttakendum sem allir búa í byggðakjörnum með færri en 2000 íbúa.

Könnunin beindist meðal annars að áformum íbúa um framtíðarbúsetu. Þau sem höfðu í hyggju að flytja á brott á næstu 2-3 árum voru spurð um ástæður þeirra fyrirætlana og gátu svarendur merkt við fleiri en eitt atriði. Athygli vekur að fjölskyldufólk með börn undir 18 ára aldri merkti flest við valmöguleikann „Tækifæri barns til menntunar“, eða 58% þeirra þátttakenda. Niðurstöður könnunarinnar leiða í ljós að menntasókn hefur áhrif á búferlaflutninga mun fleiri aðila en þeirra einstaklinga sem ætla að sækja sér menntun. Menntatækifæri hafa margfeldisáhrif, ekki síst fyrir smærri samfélög. Það er því mikið í húfi fyrir öll sveitarfélög að forgangsraða í þágu menntunar.

Það felast verðmæti í því fyrir okkur öll að landið allt sé í blómlegri byggð og það er stefna þessarar ríkisstjórnar að landsmenn eigi að hafa jafnan aðgang að þjónustu, atvinnutækifærum og lífskjörum. Áherslur í þeim efnum má finna í byggðaáætlun 2018-2024 en þar er meðal annars fjallað um eflingu rannsókna og vísindastarfsemi, hagnýtingu upplýsingatækni til háskólanáms og aukið samstarf á sviði mennta-, heilbrigðis- og félagsmála.

Það er mikilvægt að allir hafi jöfn tækifæri til menntunar og geti fundið nám við sitt hæfi. Við viljum tryggja öllum börnum og ungmennum slík tækifæri og er það eitt leiðarljósa við gerð nýrrar menntastefnu fyrir Ísland til ársins 2030. Markmiðið er skýrt; íslenskt menntakerfi á að vera framúrskarandi og byggja undir samkeppnishæfni hagkerfisins til langrar framtíðar. Síðasta vetur héldum við 23 fræðslu- og umræðufundi um land allt, sem lið í mótun nýju menntastefnunnar, m.a. með fulltrúum sveitarfélaga og skólasamfélagsins. Tæplega 1500 þátttakendur mættu á fundina og sköpuðust þar góðar og gagnrýnar umræður um mennta- og samfélagsmál. Niðurstöður þessara funda eru okkur dýrmætar í þeirri vinnu sem nú stendur yfir en af þeim má skýrt greina að vilji er til góðra verka og aukins samstarfs um uppbyggingu á sviði menntunar um allt land.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum