Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

07. desember 2019 Mennta- og barnamálaráðuneytiðLilja Alfreðsdóttir

Hugarfar framtíðarinnar

Grein eftir Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra sem birtist í Morgunblaðinu 7. desember 2019.

Í framhaldi af niðurstöðum alþjóðlegra könnunarprófa Efnahags- og framfarastofnunarinnar (e. PISA) sem kynntar voru í vikunni hef ég kynnt aðgerðir sem miða að því að efla menntakerfið, ekki síst með aukinni áherslu á námsorðaforða og starfsþróun kennara. Þær aðgerðir verða útfærðar í góðu samstarfi við skólasamfélagið, sveitarfélögin og heimilin í landinu. Það er samfélagslegt verkefni okkar allra að bæta læsi en það verkefni snýr að tungumáli okkar og menningu.
Menntarannsóknir sýna að árangur í prófum eins og PISA ræðst fyrst og fremst af færni nemenda í rökhugsun og hæfileikanum til að nýta sér þekkingu sína til að meta og túlka texta. Góður málskilningur og orðaforði er forsenda þess að nemendur geti tileinkað sér þann hæfileika. Rannsóknir benda til þess að orðaforði og orðskilningur íslenskra barna hafi minnkað á undanförnum árum og því verðum við að mæta. Niðurstöður PISA-prófanna segja okkur að við getum gert betur. Ég trúi því að við getum það með góðri samvinnu, eftirfylgni og aðgerðum sem skilað hafa árangri í nágrannalöndum okkar.

PISA-prófin mæla fleira en lesskilning og stærðfræði- og náttúrulæsi. Auk skýrslu með niðurstöðum prófanna birtir Efnahags- og framfarastofnunin (e. OECD) fleiri gögn sem varpa ljósi á stöðu menntakerfisins út frá viðhorfum, líðan og félagslegri stöðu nemenda og eru þær niðurstöður ekki síður fróðlegar. Sú tölfræði bendir meðal annars til þess að færri íslenskir nemendur búi við einelti en nemendur gera að meðaltali í samanburðarlöndum OECD og að hærra hlutfall þeirra sé ánægt með líf sitt. Þá sýna þær niðurstöður að 73% íslensku nemendanna sem svöruðu PISA-könnuninni sl. vor séu með vaxtarviðhorf (e. growth mindset), það er að þau trúa því að með vinnusemi, góðum aðferðum og hjálp frá öðrum geti þau þróað hæfni sína og getu. Þetta hlutfall er tíu prósentustigum hærra hér á landi en meðaltal í OECD-ríkjunum. Niðurstöður PISA sýna að slíkir nemendur hafa sterkari hvöt til þess að ná góðum tökum á verkefnum, meiri trú á getu sinni, setji sér metnaðarfyllri markmið, leggi meira upp úr mikilvægi menntunar og séu líklegri til þess að klára háskólanám.

Þetta vaxtarhugarfar er afar dýrmætt því rannsóknir sýna að viðhorf til eigin getu og vitsmuna ræður miklu um árangur. Þeir nemendur sem telja að hæfileikar þeirra og hæfni sé föst stærð eru þannig líklegri til þess að gefast upp á flóknari verkefnum og vilja forðast erfiðleika og áskoranir. Ég kalla þetta hugarfar framtíðarinnar. Okkar bíða sannarlega spennandi verkefni og mörg þeirra flókin. Árangurinn mun ráðast af viðhorfi okkar og trú. Setjum markið hátt og vinnum að því saman.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum