Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

16. desember 2019 Mennta- og barnamálaráðuneytiðLilja Alfreðsdóttir

Ísland í fremstu röð I

Grein eftir Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra sem birtist í Morgunblaðinu 16. desember 2019.

Þær breytingar sem nú eiga sér stað vegna byltinga á sviðum upplýsinga, samskipta og tækni skapa ótal tækifæri fyrir samfélög. Velsæld hefur aukist um heim allan en á sama tíma stöndum við frammi fyrir fjölbreyttum áskorunum, ekki síst í umhverfismálum. Brýnt er að við horfum til lausna og aðgerða sem stuðla að jöfnum tækifærum til þátttöku í samfélaginu og þar er menntun lykilþáttur. Framtíðarvelsæld samfélagsins mun hvíla á fjárfestingu og forgangsröðun okkar í þágu menntunar í dag. Í þessari grein verður farið yfir ýmsa þætti sem styrkja og efla menntakerfið okkar; hugarfar, orðaforða, læsi, starfsþróun og fjölgun íslenskutíma ásamt umfjöllun um árangursríkar aðgerðir.

Hugarfar menntunar
Alþjóðlegar menntarannsóknir sýna að þær þjóðir sem skara fram úr í menntamálum eiga margt sameiginlegt. Það sem einkennir þær meðal annars er að þar er skýr forgangsröðun í þágu menntunar, ekki aðeins þegar kemur að fjármagni heldur er virðing borin fyrir námi og skólastarfi. Störf kennara eru mikils metin og þau álitin meðal mikilvægustu starfa og þar er lögð rík áhersla á aðgengi að menntun og að allir geti lært og allir skipti máli. Þessi atriði mynda grunninn að öflugu menntakerfi. Íslenska menntakerfið hefur vissulega sína styrkleika en við þurfum að gera enn betur og til þess þurfum við að ganga í takt. Einfaldar skyndilausnir duga ekki, við þurfum að horfa til rannsókna og setja okkur skýr langtímamarkmið. Við höfum þegar ráðist í aðgerðir sem taka mið af fyrrgreindum grundvallaratriðum og séð góðan árangur af þeim.

Mikilvægi orðaforðans
Menntarannsóknir sýna að árangur í námi ræðst að miklu leyti af hæfni nemenda í rökhugsun og hæfileikum þeirra til að nýta bakgrunnsþekkingu sína til að skilja, ígrunda og túlka texta. Nemendur þurfa að þekkja 98% orða í textum námsgagna til þess að geta skilið og tileinkað sér innihald þeirra án aðstoðar. Fari þetta hlutfall niður í 95% þurfa flestir nemendur aðstoð til þess að skilja innihaldið, til dæmis með notkun orðabóka eða hjálp frá kennara eða samnemendum. Rannsóknir benda ótvírætt til þess að orðaforði og orðskilningur íslenskra barna hafi minnkað verulega á undanförnum árum og við því verðum við að bregðast. Þessu þurfum við að breyta með því að bæta orðaforða, með þjálfun í lestri, ritun og með samtölum.

Læsi í forgang
Til að bæta orðaforða sinn og hugtakaskilning þurfa nemendur að æfa sig í fjölbreyttum lestri. Samkvæmt breskri lestrarrannsókn skiptir yndislestur sköpum þegar kemur að orðaforða barna, en orðaforði er grundvallarþáttur lesskilnings og þar með alls annars náms. Rannsóknin leiddi í ljós að ef barn les í 15 mínútur á dag alla grunnskólagöngu sína kemst það í tæri við 1,5 milljónir orða. Ef barnið les hins vegar í um 30 mínútur á dag kemst það í tæri við 13,7 milljónir orða. Sá veldivöxtur gefur skýrar vísbendingar um hversu mikilvægur yndislestur er fyrir árangur nemenda. En við lesum ekki lestrarins vegna heldur af áhuga og því er brýnt að til sé fjölbreytt les- og námsefni sem höfðar til allra barna. Ég fagna aukinni útgáfu íslenskra barna- og ungmennabóka á þessu ári en tölfræðin bendir til þess að titlum hafi þar fjölgað um 47% frá í fyrra sem bendir þá til þess að yngri lesendur hafi meira val um spennandi lesefni. Yndislesturinn skiptir máli en við þurfum líka að auka orðaforðann til að nemendur nái tökum á fjölbreyttum og flóknum setningum. Þessi orðaforði kemur meðal annars úr fréttum líðandi stundar, fræðsluefni og söngtextum.

Starfsþróun kennara og skólastjórnenda
Öflug umgjörð um starfsþróun kennara og skólastjórnenda er einn af lykilþáttum í að styrkja menntakerfið. Nýlega skilaði samstarfsráð um starfsþróun kennara og skólastjórnenda skýrslu með tillögum um framtíðarsýn í þeim efnum. Starfsþróun felur í sér formlegt nám og endurmenntun kennara, námskeið, rannsóknir á eigin starfi, þátttöku í þróunarverkefnum, ráðgjöf, ráðstefnur og heimsóknir í aðra skóla. Stefnumiðuð starfsþróun stuðlar að aukinni starfsánægju kennara og hefur jákvæð áhrif á árangur þeirra í starfi. Mikill árangur hefur nást í Svíþjóð til að bæta færni nemenda í lesskilningi, stærðfræði og náttúruvísindum með sérsniðnum námskeiðum sem auka þekkingu í viðkomandi fagi. Við horfum til þess að stórefla starfsþróun kennara og skólastjórnenda hér á landi með markvissum hætti í samstarfi meðal annars við Kennarasamband Íslands, kennaramenntunarstofnanir, skólastjórnendur og Samband íslenskra sveitarfélaga.

Fjölgum íslenskutímum
Alþingi ályktaði í vor um mikilvægi íslenskrar tungu og nauðsyn þess að tryggja að tungumálið verði áfram notað á öllum sviðum íslensks samfélags. Meginmarkmið þingsályktunarinnar eru þau að íslenska verði notuð á öllum sviðum samfélagsins, að íslenskukennsla verði efld á öllum skólastigum ásamt menntun og starfsþróun kennara og að framtíð íslenskrar tungu í stafrænum heimi verði tryggð. Í ályktuninni eru tilteknar 22 aðgerðir til að ná þessum markmiðum. Tíu aðgerðir tengjast menntakerfinu með beinum hætti, t.d. að efla skólabókasöfn, bæta læsi og stuðla að jákvæðri umræðu og fræðsla í samfélaginu um fjölbreytileika íslenskunnar sem er sérstaklega mikilvæg fyrir nýja málnotendur. Íslenskan er skólamálið okkar en í Svíþjóð eru 35% fleiri kennslustundir í móðurmáli á miðstigi í grunnskólum en hér á landi. Það hefur staðið lengi til að fjölga íslenskutímum í viðmiðunarstundaskrá grunnskólanna og nú er tíminn kjörinn til þess. Að auki verður lögð stóraukin áhersla á orðaforða í öllum námsgreinum til að bæta lesskilning.

Mikilvægasta starfið
Á síðasta ári hefur verið ráðist í fjölmargar aðgerðir til að byggja upp betri grunn fyrir menntakerfið okkar. Samþykkt voru ný lög um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda sem auka réttindi kennara þvert á skólastig. Í þessum lögum er einnig kveðið á um kennararáð sem ég bind miklar vonir við. Þá höfum við farið í árangursríkar aðgerðir sem miða að því að fjölga kennurum, þær hafa meðal annars skilað því að 43% aukning varð í umsóknum um nám í grunnskólakennarafræði í Háskóla Íslands síðasta vor. Þessum aðgerðum munum við halda áfram. Nýlega bárust þær fregnir frá menntavísindasviði HÍ að metþátttaka sé í nám fyrir starfandi kennara í starfstengdri leiðsögn og kennsluráðgjöf.

Samvinna og samstarf
Við þurfum samtakamátt skólasamfélagsins, sveitarfélaganna og heimilanna og skýra sýn til þess að efla menntakerfið okkar. Allir geta lært og allir skipta máli eru leiðarljós nýrrar menntastefnu en drög hennar verða kynnt á næstu misserum. Með samhæfðum og markvissum aðgerðum getum við bætt árangur allra nemenda og í því tilliti munum við bæði reiða okkur á menntarannsóknir og horfa til þeirra leiða sem skilað hafa bestum árangri í nágrannalöndum okkar. Ljóst er að við þurfum einnig að fara í sértækar aðgerðir til þess að bæta stöðu drengja í skólakerfinu, nemenda í dreifðari byggðum og nemenda með annað móðurmál en íslensku. Við þurfum að halda áfram að forgangsraða í þágu menntunar til þess að tryggja að Ísland sé í fremstu röð; umbætur taka tíma – ekki síst í menntamálum en þar höfum við allt að vinna því framtíðin er mótuð á hverjum einasta degi í íslenskum skólastofum. Í næstu grein, Ísland í fremstu röð II, verður greint frá stofnun fagráða, aukinni áherslu á náttúruvísindi, eflingu menntarannsókna og nánar fjallað um hvernig við eflum tungumálið okkar.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum