Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

21. janúar 2020 Mennta- og barnamálaráðuneytiðLilja Alfreðsdóttir

Þjóðin mætir til leiks

Grein eftir Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra sem birtist í Morgunblaðinu 19. janúar 2020.

Málefni þjóðarleikvanga hafa verið til umræðu hjá ríki, Reykjavíkurborg og íþróttahreyfingunni í nokkurn tíma. Mannvirki sem eiga að hýsa alþjóðlegar keppnir eru mörg hver komin til ára sinna. Almennt bera sveitarfélög ábyrgð á uppbyggingu íþróttamannvirkja samkvæmt íþróttalögum. Ný reglugerð um þjóðarleikvanga opnar á aðkomu ríkisins sérstaklega að slíkri mannvirkjagerð.

Samkvæmt reglugerðinni er þjóðarleikvangur skilgreindur sem íþróttaaðstaða sem tengist ákveðinni íþrótt. Hér er um að ræða mannvirki sem þegar er til staðar eða á eftir að reisa. Þjóðarleikvangur uppfyllir tæknilegar staðalkröfur fyrir viðkomandi íþróttagrein ásamt því að uppfylla skilgreindar lágmarkskröfur um íþróttamannvirki samkvæmt alþjóðlegum reglum alþjóðasambanda og íslenskum reglugerðum um mannvirki fyrir almenning og fjölmiðla.

En hvers vegna eru þjóðarleikvangar mikilvægir? Við höfum lengi átt framúrskarandi íþróttafólk. Við getum sannarlega verið stolt af afreksíþróttafólkinu okkar en við eigum líka að geta verið stolt af aðstöðunni sem við höfum til að halda alþjóðlega íþróttaviðburði og íþróttakeppnir. Ljóst er að sú aðstaða sem þarf til að geta tekið á móti alþjóðlegum viðburðum í þeim íþróttagreinum sem við stöndum framarlega í þarfnast endurnýjunar.

Á dögunum skipaði ég starfshóp sem mun gera tillögur um framtíð þjóðarleikvangs fyrir inniíþróttir á Íslandi. Starfshópurinn mun m.a. vinna að öflun upplýsinga um hvernig vinna eigi eftir nýrri reglugerð um þjóðarleikvanga og afla nauðsynlegra upplýsinga um hvaða alþjóðakröfum þarf að fara eftir svo hægt sé að greina þarfir fyrir mannvirki til lengri tíma og mögulega nýtingu mannvirkja sem fyrir eru. Starfshópurinn er skipaður öflugu fólki og ég hef miklar væntingar til afraksturs vinnu hans.

Fram undan eru viðamiklar innviðafjárfestingar í hagkerfinu. Fjárfestingar ríkissjóðs eru rétt yfir langtímameðaltali, eða rúm 2% af landsframleiðslu. Vegna sterkrar stöðu ríkissjóðs verður hægt að fara í frekari innviðauppbyggingu á næstunni. Það sýnir sig að fjárfesting í íþróttum hefur verulegan samfélagslegan ábata til framtíðar. Ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á mikilvægi uppbyggingu samfélagslegra innviða og eru íþróttamannvirki liður í því.

Markmið mitt er að þessi undirbúningsvinna sem nú fer fram geti skilað sameiginlegri sýn á hvert ber að stefna og hvað þarf til þess að aðstaða afreksfólks í íþróttum sé á heimsmælikvarða. Til að ná settum markmiðum þurfa allir að leggjast á eitt, ná hraðaupphlaupinu og skora!

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum