Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

10. mars 2020 Mennta- og barnamálaráðuneytiðLilja Alfreðsdóttir

Gerum það sem þarf

Grein Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra sem birtist í Morgunblaðinu 10. mars 2020

Rétt viðbrögð ráða mestu um áhrif áfalla. Yfirvofandi hættu þarf að mæta með mikilli röggsemi, en einnig er mikilvægt er að horfa á samhengi hlutanna svo fyrstu viðbrögð verði ekki þau einu. Fyrsta skrefið í baráttunni við kórónaveiruna sem orsakar COVID-19 snýr að heilsuvernd, enda nauðsynlegt að hefta útbreiðslu hennar. Samhliða þarf að huga að efnahagslegum og ekki síður félagslegum viðbrögðum. Neikvæð efnahagsleg áhrif veirunnar eru einhver þau mestu sem alþjóðakerfið hefur séð í langan tíma. Þess vegna þarf umfang efnahagsaðgerða ríkisstjórnarinnar að vera verulegt.

Heilbrigði og fólkið okkar
Óværan hefur veruleg áhrif á allt daglegt líf okkar. Sumir verða veikir, en allir þurfa að breyta hegðun sinni og venjum; forgangsraða með hliðsjón af eigin heilsu og annarra og skilgreina hvað skiptir mestu máli. Heilbrigðisyfirvöld hafa staðið sig vel. Þau sýna ábyrgð og leggja nótt við dag við að rekja smitleiðir, miðla upplýsingum og halda veirunni í skefjum. Samfélagið allt hefur lagst á árarnar með yfirvöldum, sett sjálfu sér strangar reglur og dregið tímabundið úr nánum samskiptum. Hundruð einstaklinga í sóttkví hafa verndað heilsu annarra og lágmarkað álag á heilbrigðiskerfið með einangrun sinni. Það er lofsvert framlag.

Aðgerðunum fylgir þó verulegur kostnaður, bæði beinn og óbeinn. Hjól hagkerfisins hægja á sér og geta stöðvast ef stjórnvöld eru ekki með augun á veginum og fótinn á bensíngjöfinni. Ríkisstjórnin er meðvituð um þessa hættu og hefur undirbúið mótvægisaðgerðir sem hrint verður í framkvæmd á réttum tíma, í samstarfi við lykilaðila, fagstéttir, atvinnulíf og samtök.

Menntakerfið: Kennsla heldur áfram
Eitt mikilvægasta samfélagsverkefnið á þessum tímapunkti er að tryggja að skólastarf raskist sem minnst. Skólastjórnendur og kennarar hafa sýnt mikla yfirvegun við þessar óvenjulegu aðstæður, þar sem markmiðið er að halda uppi starfseminni eins lengi og unnt er. Í uppfærðum áætlunum skólanna er gert ráð fyrir ýmsum aðstæðum; hlutverki kennara í fjarkennslu og heimanámi ef samkomubann tekur gildi, líðan nemenda og stuðningi við þá sem mest þurfa á að halda. Vonandi þarf ekki að grípa til þeirra aðgerða sem hafa verið undirbúnar, en það mjög traustvekjandi að vita af þeirri undirbúningsvinnu sem þegar hefur verið unnin.

Efnahagslífið: Innspýting og súrefni
Ófærð og ítrekuð óveður hafa verið táknræn fyrir krefjandi aðstæður í efnahagslífinu í vetur. Ofan á þungan vetur bætist heilsufarsógnin sem nú steðjar að og vafalaust þykir mörgum nóg. En það dugar lítt að sitja með hendur í skauti og bíða vorsins. Við þurfum að ráðast í almennar og sértækar aðgerðir, þar sem áfallið er bæði á framboðs- og eftirspurnarhliðinni. Virðiskeðja alþjóðahagkerfisins hefur verið rofin. Fyrir nokkrum vikum benti ég á brýna þörf á heildstæðri efnahaghagsáætlun sem næði til innviðafjárfestinga, atvinnulífs og fjármálakerfisins. Viðbrögðin við þeim hugmyndum voru afar ánægjuleg og á skömmum tíma hafa litið ljós framkvæmdaáætlanir. Í góðu árferði undanfarinna ára höfum við greitt niður skuldir, safnað í góðan gjaldeyrisforða og komið okkur í kjöraðstæður til að bregðast við vandanum sem nú blasir við okkur. Við erum í dauðafæri að auka innviðafjárfestingar og styrkja með þeim samfélagið til frambúðar. Við getum fært atvinnulífinu aukið súrefni með almennum aðgerðum, lækkað tryggingargjald fyrirtækja og endurskoðað gistináttaskatt. Á sama hátt eiga sveitarfélög að leggjast á árarnar, til dæmis með endurskoðun fasteignagjalda sem hafa skilað verulega auknum tekjum vegna hækkandi eignaverðs. Við eigum óhikað að grípa til aðgerða til hjálpar ferðaþjónustunni, sem glímir við fordæmalausar aðstæður. Tugþúsundir einstaklinga hafa atvinnu af ferðaþjónustu og greinin hefur skapað yfir 40% af gjaldeyristekjum þjóðarbúsins.

Útlánavextir fjármálakerfisins hafa ekki lækkað í takt við meginvexti Seðlabanka Íslands. Þetta verður að breytast og huga verður að greiðslufrestum fyrirtækja sem lenda í vandræðum vegna ástandsins. Peningamálayfirvöld og ríkissjóður verða að ganga í takt svo aðgerðirnar heppnist samfélaginu til heilla. Þá ætti bankinn einnig að auka laust fé í umferð og endurskoða niðurgreiðsluferil skulda ríkissjóðs Íslands. Hlutdeildarlán sem félags- og barnamálaráðherra hefur kynnt geta einnig haft mikil áhrif, unnið með hagkerfinu og aðstoðað fólk til að eignast eigin íbúð.

Veturinn er að hopa og framundan eru jafndægur að vori. Ég er sannfærð um að í sameiningu náum við tökum á COVID-19. Við verðum að forgangsraða í þágu samfélagsins, því eins og John Stuart Mill sagði: „Þegar til lengdar lætur, veltur gildi ríkisins á manngildum þegnanna.“

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum