Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

14. mars 2020 Mennta- og barnamálaráðuneytiðLilja Alfreðsdóttir

Fordæmalausir tímar

Grein Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra sem birtist í Morgunblaðinu 14. mars 2020

Í fyrsta sinn hefur samkomubann verið boðað og takmarkanir settar á skólahald, samkvæmt ákvörðun heilbrigðisráðherra. Tilefnið er öllum ljóst; útbreiðsla kórónaveirunnar COVID-19, sem samfélagið tekst nú á við í sameiningu.

Heimsfaraldurinn hefur þegar reynt umtalsvert á samfélagið. Veiran hefur veruleg áhrif á allt daglegt líf okkar. Allir hafa þurft að breyta hegðun sinni og venjum. Heilbrigðisyfirvöld hafa staðið sig vel. Þau sýna ábyrgð og leggja nótt við dag við að rekja smitleiðir, miðla upplýsingum og halda veirunni í skefjum. Samfélagið allt hefur lagst á árarnar með yfirvöldum. Hundruð einstaklinga í sóttkví hafa verndað heilsu annarra og lágmarkað álag á heilbrigðiskerfið með einangrun sinni. Það er lofsvert framlag.
Skólar á öllum skólastigum hafa starfað samkvæmt viðbragðsáætlun frá því að neyðarstigi almannavarna var lýst yfir þann 6. mars síðastliðinn. Því hefur mikil undirbúningsvinna verið unnin í skólum til að mæta þessari ákvörðun og það er mjög traustvekjandi.

Undanfarna daga hef ég einnig átt fjarfundi með rektorum og skólastjórnendum, öðrum fræðsluaðilum og fulltrúum sveitarfélaganna. Þessir lykilaðilar í skólakerfinu okkar hafa sýnt mikla yfirvegun við þessar óvenjulegu aðstæður og sýnt afar fagleg viðbrögð. Ég vil hrósa og þakka þeim sérstaklega fyrir það.

Ákvörðunin um samkomubann og takmörkun á skólahaldi var tekin í samráði við okkar færasta fólk á sviði sóttvarna. Markmiðið er fyrst og fremst að verja með öllum mögulegum ráðum þá sem eru viðkvæmastir fyrir veirunni, en þó án þess að setja samfélagið að óþörfu á hliðina. Til þess að takast á við þetta þarf að forgangsraða hvað skiptir raunverulega máli. Ég er fullviss um það að þessi ákvörðun hafi verið nauðsynleg í þessari baráttu. Við verðum að standa vörð um heilbrigðiskerfið okkar og þá sem minna mega sín.

Nú eru uppi afar óvenjulegir tímar. Neikvæð efnahagsleg áhrif veirunnar eru einhver þau mestu sem alþjóðakerfið hefur séð í langan tíma. Þess vegna verður umfang efnahagsaðgerða ríkisstjórnarinnar að vera verulegt. Það er því fagnaðarefni að ein slík aðgerð var samþykkt á Alþingi í gær og fleiri í vændum. Nýju lögin þýða að fyrirtæki landsins geta frestað greiðslu á hluta staðgreiðslu og tryggingargjalds. Stjórnvöld þurfa engu að síður að halda augunum á veginum og halda áfram að veita viðspyrnu og innspýtingu til að halda boltanum á lofti.

Nú reynir á hið víðfræga íslenska hugrekki og þrótt því nú verðum við öll að leggjast á eitt, standa saman og styðja hvort annað. Verum bjartsýn og lausnamiðuð og í sameiningu munum við ná tökum á ástandinu.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum