Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

03. apríl 2020 Mennta- og barnamálaráðuneytiðLilja Alfreðsdóttir

Innlend matvæli aldrei mikilvægari

Grein Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra sem birtist í Bændablaðinu 2. apríl 2020

Ísland er land náttúruauðlinda, hreinleika og heilbrigðis, fegurðar og gróðursældar. Ísland er gjöfult land sem getur í senn laðað fram allt það besta hjá okkur sem byggjum það og samtímis boðið gestum sínum nær endalausar upplifanir í náttúru sinni og hreinleika matvælanna, vatnsins og loftsins. Þess vegna eigum við að örva áhuga ungs fólks á verðmætum landsins og hvetja til menntunar og starfa á þeim vettvangi.

Mikilvægi sjálfbærar matvælaframleiðslu
Veröldin er að breytast vegna COVID-19 faraldursins sem fært hefur hörmungar yfir mörg samfélög. Þjóðir slá nú skjaldborg um heilbrigði sinna þegna og flest verja með öllum ráðum þá sem minnst mega sín. Samfélagslegur kostnaður þjóða vegna farsóttarinnar er fordæmalaus og sum staðar þarfnast sjálf samfélagsgerðin endurskoðunar. Víða eru matvælaöryggimál ofarlega á baugi og þar er Ísland ekki undanskilið. Hér er matvælaöryggi eitt þeirra mála sem margir telja sjálfsagt, án þess þó að hafa leitt hugann mikið að því eða lagst á árarnar. Þannig er það með fleiri samfélagsmál, sem vert er að halda á lofti og berjast fyrir í blíðu og stríðu. Það á við um tjáningarfrelsið í lýðræðisríkinu, þéttriðið öryggisnet velferðarsamfélagsins og samstöðu þjóðarinnar.

Margir ganga að íslenskum landbúnaði sem vísum og þiggja einstakar afurðirnar án sérstakrar umhugsunar. Hreinar afurðir, náttúrulegar og án sýklalyfja að telja má miðað við samanburðarlöndin. Ýmsir hafa leynt og ljóst haft horn í síðu greinarinnar og jafnvel gert slíkan málflutning að atvinnu sinni í ræðu og riti, án þess að hafa endilega áttað sig á mikilvægi matmælaöryggis þjóða. Allt í einu hefur það ljós runnið upp fyrir okkur, að sjálfbærni í matvælaframleiðslu þjóðarinnar sé gulls ígildi. Í alþjóðasamskiptum að undanförnu hefur bersýnilega komið í ljós, að hver þjóð er sjálfri sér næst þegar eitthvað bjátar á. Enda þótt veruleikinn hafi að undanförnu snúist um spritt, andlitsgrímur og lækningatæki má gera ráð fyrir því að sömu lögmál muni gilda ef alvarlegur matvælaskortur gerir vart við sig í heiminum.

Við getum ekki gengið að því sem vísu að tekið yrði tillit til Íslands í slíkri stöðu. Þetta er síður en svo nýr veruleiki, en hann hefur verið mörgum hulinn á undanförnum árum. Þess vegna er fjöregg þjóðarinnar fólgið í sjálfbærum búskaparháttum til sjávar og sveita. Þar liggja grunnstoðir verðmætasköpunar okkar og um leið er varðveisla þeirra eitt brýnasta samstarfsverkefni allrar þjóðarinnar. Ísland hefur fjárfest í heilnæmum landbúnaði og það er fjárfesting sem mun skila sér til framtíðar. Matvælaöryggi verður raunverulega til skoðunar í aðstæðum sem þessum þegar hið alþjóðlega markaðshagkerfi riðlast, ekki eingöngu þegar allir markaðir eru opnir og aðgangur greiður. Þess vegna þarf að hlúa að landbúnaði við allar aðstæður, en ekki eingöngu þegar við erfiðleika er að etja.

Stefna Framsóknarflokksins í landbúnaðarmálum og nýsköpun
Framsóknarflokkurinn hefur staðið þétt við bak íslensks landbúnaðar í blíðu og stríðu. Ekkert hefur haggað þeirri grundvallarsýn flokksins að sveitir landsins geymi einn okkar dýrmætasta menningararf og án blómlegrar byggðar um allt land væri samfélagið ekki sjálfbært. Sú skoðun hefur staðið af sér pólitíska vinda og tíðarandann og hin órofa varðstaða um matvælaframleiðslu er og verður eitt af okkar aðalsmerkjum.

Landbúnaðurinn er lyftistöng fyrir samfélagið. Án hans væri hér lítil sem engin matvælaframleiðsla. Án hans væri ekkert íslenskt kjöt, engin íslensk mjólk, ekkert íslenskt grænmeti. Farsælasta leiðin til að styðja við hann er að efla nýsköpun. Gott dæmi um augljósa arðsemi slíks þróunarstarfs eru nýtilkomin tækifæri til nýtingar á mysu sem fellur til við ostaframleiðslu. Til skamms tíma var tugmilljónum lítra af ostamysu hleypt til sjávar með öllum sínum próteinum og mjólkursykri, en nú eru unnin hundruð tonna af þurrkuðu hágæðapróteini úr henni. Lífræn ræktun hefur skapað nýja markaði og með framsækinni matvæla- og vöruþróun úr landbúnaðarafurðum verður stærri hluti virðiskeðjunnar eftir í sveitum. Við erum í kjöraðstæðum til að efla ræktun á íslensku grænmeti og eigum að nýta orku landsins til þess. Við eigum í auknu mæli að líta gagnrýnið á samkeppnishæfni þjóðarbúsins og sjá hvar við eigum að stíga fastar niður fæti. Við eigum að hlúa að og rækta alla slíka sprota, efla nýsköpun og tryggja hámarksnýtingu á landsins gæðum. Þegar litið er til landfræðilegrar legu landsins, fámennis, strjálbýlis, veðurfars og fleira er morgunljóst að nauðsynlegt er að gera mun betur til þess að styðja viðsjálfstæði í matvælaframleiðslu og fjárfesta um leið í öllum þeim beinu og óbeinu verðmætum sem fólgin eru í landvörslu íslenskra bænda. Það er brýnt að landið sé nýtt og eignarhald á jörðum taki mið af þörfum samfélagsins, en ekki einkahagsmunum.

Við eigum að hugsa heildrænt um íslenskan landbúnað og styðja hann með ráðum og dáð í víðfeðmu hlutverki sínu til nýrrar sóknar. Við eigum að auka áhuga ungs fólks á landbúnaði, efla menntun, vísindi, rannsóknir og þróun landbúnaðarins. Bæta þarf rekstrarumhverfi bænda og auðvelda ungu fólki aðgengi að bújörðum og nýsköpun í landbúnaði. Framsóknarflokkurinn mun ekki láta okkar eftir liggja í þeim efnum.



Lilja D. Alfreðsdóttir
mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins 


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum