Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

30. apríl 2020 Mennta- og barnamálaráðuneytiðLilja Alfreðsdóttir

Tíminn til að lesa meira

Grein Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra sem birtist í Fréttablaðinu á 30. apríl 2020.

Bókmenntaarfur Íslendinga sprettur úr frjóum jarðvegi íslenskrar sögu og menningar. Um aldir hafa Íslendingar haft ríka þörf fyrir að segja, lesa og hlusta á sögur. Þá þörf höfum við enn, líkt og blómleg bókaútgáfa og glæsileg stétt rithöfunda er til marks um. Grunnurinn að þessari sagnahefð var lagður fyrir nærri þúsund árum, þegar stórmenni á borð við Snorra Sturluson unnu stórkostleg menningarafrek með skrifum sínum.

Bókmenning þjóðarinnar hefur haldið áfram að þróast í gegnum tíðina og laga sig að breyttum heimi. Á síðasta ári tóku gildi lög um stuðning við útgáfu bóka á íslensku. Við sjáum strax árangurinn af þessari löggjöf, þar sem met voru slegin í útgáfu íslenskra skáldverka og útgefnum barnabókum fjölgaði um 47% milli ára.

Íslendingar standa því undir nafni, sem sagna- og bókaþjóð. Það hefur sýnt sig í yfirstandandi samkomubanni, sem þjóðin hefur nýtt til að lesa sér til gagns og gamans. Margir hafa skráð lesturinn á vef átaksverkefnisins Tími til að lesa, þar sem rúmlega 8 milljónir lesmínútna hafa verið skráðar í apríl. Á miðnætti lýkur átakinu og ég þakka öllum sem tóku þátt. Þátttakendur í þessu þjóðarátaki eru á öllum aldri. Þannig hafa þeir lesið mest sem eru 60 ára og eldri, en fast á hæla þeirra komu 10 til 12 ára börn sem hafa skráð rúmlega milljón lesmínútur í mánuðinum.

Orðaforði og lesskilningur eykst með auknum lestri og því er ómetanlegt fyrir börn að lesa, taka glósur og spyrja út í orð sem þau þekkja ekki. Orðaforði barna skiptir miklu máli fyrir vellíðan og árangur í skóla og býr þau undir virka þátttöku í samfélaginu. Með aukinni menntun eykst samkeppnishæfni þjóðarinnar og geta hennar til að standa undir eigin velferð. Það er lykilatriði að styrkja menntakerfið okkar til framtíðar.

Með lestrinum ræktum við menningararfinn okkar og því meira sem við lesum, því betra! Til hamingju með árangurinn, kæra bókaþjóð.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum