Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

02. maí 2020 Mennta- og barnamálaráðuneytiðLilja Alfreðsdóttir

Atvinnusköpun er númer 1, 2 og 3

Grein Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra sem birtist í Morgunblaðinu á laugardaginn 2. maí 2020.

Stærsta verkefni íslenskt samfélags í dag er að skapa störf. Íslenskt samfélag hefur alla burði til að sækja fram. Menntunarstig er hátt og samfélagið er auðugt af hugviti og auðlindum. Við verðum að nýta allt sem við eigum og leggja grunninn að nýjum verðmætum framtíðarinnar. Markmið stjórnvalda eru skýr: skapa störf og verja störf. Fernt er mikilvægt í þeirri baráttu. Fjárfesting, einkaneysla, samneysla og hrein útflutningur.

Stjórnvöld eru að stórauka allar fjárfestingar bæði í innviðum og hugviti. Þetta er gert með því að flýta framkvæmdum og ráðast í nýjar framkvæmdir. Þegar hefur verið kynnt að opinberar fjárfestingar verði yfir sögulegu meðaltali. Kynntar hafa verið tug milljarða fjárfestingar til að vinna á móti samdrætti. Að auki er fjárfest í menntun, menningu og nýsköpun til að skapa störf til framtíðar. Hér ætlum við okkur stóra hluti.

Einkaneysla hefur verið að dragast saman í samkomubanninu. Nauðsynlegt er að örva einkaneyslu til að búa til ný störf og verja þau. Öll þau viðskipti sem við eigum eru til þess fallin að auka einkaneyslu. Þess vegna hafa stjórnvöld ákveðið að taka höndum saman við atvinnulífið um að verja störf og auka verðmætasköpun með sérstöku kynningarátaki sem ber heitið: Íslenskt – gjörið svo vel. Þetta er jákvætt skref og hvetur okkur áfram í að búa til verðmæti.

Stjórnvöld eru af öllu sínu afli að styðja við samneysluna, meðal annars með því að efla heilbrigðis- og menntakerfin. Þessi grunnkerfi okkar hafa staðist stærsta álagspróf samfélaga í veröldinni. Annars vegar náðu heilbrigðisyfirvöld utan um COVID-19 veiruna með eftirtektarverðum árangri og hins vegar voru skólarnir áfram opnir og huguðu að velferð nemenda sinna. Það er afrek og við eigum að nota okkur þann árangur til að styrkja samfélagið okkar.

Greiðslujöfnuður þjóðarbúa þarf alltaf að vera sjálfbær, þ.e. að út- og innflutningur þurfa að vera í jafnvægi. Útflutningstekjur íslenska þjóðarbúsins hafa vaxið mikið síðustu ár, sem hefur skilað okkur fádæma góðri hreinni erlendri stöðu og stórum gjaldeyrisforða. Þessi hagfellda staða hefur orðið til meðal annars vegna vaxtar ferðaþjónustunnar, sem hefur búið til um helming allra nýrra starfa síðasta áratug. Nú reynir á að við hugsum út fyrir kassann og búum til útflutningsverðmæti. Ferðaþjónustan getur fengið vindinn í seglin ef við nýtum okkur þann árangur sem náðst hefur í sóttvörnum og tengjum saman vísindin og atvinnulífið. Þar eru tækifæri. Einn merkilegasti forseti Bandaríkjanna, Franklin D. Roosevelt sagði í Kreppunni miklu: „Það eina sem er að óttast er óttinn sjálfur“. Hlustum á þessa hvatningu og munum að gæfan er undir okkur komin!





Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum