Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

16. nóvember 2020 Mennta- og barnamálaráðuneytiðLilja Alfreðsdóttir

Von kviknar með bóluefni

Það tók færustu vísindamenn heims níu ár að þróa bóluefni gegn mislingum, eftir að veiran sem olli sjúkdómnum var einangruð um miðja síðustu öld. Tilraunir og rannsóknir með bóluefni gegn lömunarveiki stóðu í 20 ár, áður en fyrsta leyfið var gefið út í Bandaríkjunum árið 1955. Í því samhengi þykir kraftaverki líkast að bóluefni gegn Covid-19 sé væntanlegt innan fárra vikna, rúmlega ári eftir að fyrstu fréttir bárust af dularfullum veirusjúkdómi sem síðar varð að heimsfaraldri. Bóluefnið virðist jafnframt vera óvenju öflugt og rannsóknir sýna virkni langt umfram væntingar. 

Enginn hefur áður bólusett heimsbyggðina

Fréttirnar hafa sannarlega blásið bjartsýni í brjóst heimsbyggðarinnar og nú þykir raunhæft að sigrast á sjúkdómnum sem heimt hefur 1,3 milljónir mannslífa. Sigur í þeirri baráttu er þó ekki unninn og næstu mánuðir verða erfiðir. Frekari rannsóknir og gangasöfnun er nauðsynleg, sem vonandi styður við fyrstu niðurstöður af töfraefninu góða. Í framhaldinu þarf að framleiða efnið í miklum mæli, dreifa því og bólusetja svo til samtímis heimsbyggðina alla. Slíkt hefur ekki verið gert áður. 

Varfærin bjartsýni en mikil áhrif á fjármálamarkaði

Viðbrögðin við bóluefna-fréttunum voru mikil, þótt ýmsir hafi hvatt til varfærinnar bjartsýni. Þýsk-tyrknesku hjónin sem leiða vísindastarfið fögnuðu fréttunum með bolla af tyrknesku tei og áréttuðu af yfirvegun, að enn væri mikið starf óunnið. Fjármálamarkaðir tóku hins vegar hressilega við sér og verðbréfavísitölur sveigðust bratt upp á við. Hlutabréf hækkuðu mikið í fyrirtækjum sem verst hafa orðið úti í heimsfaraldrinum – t.d. flug- og ferðafélögum – og jákvæðir straumar kvísluðust um allt samfélagið, meðal annars inn í hagvaxtarspá Efnahags- og framfarastofnunarinnar (e. OECD). Nú spáir stofnunin því að hagvöxtur á næsta ári verði 7%, eða 2% hærri vegna tilkomu bóluefnisins, eftir sögulegan samdrátt á þessu, með tilheyrandi atvinnumissi sem vonandi snýst við á árinu 2021.

Markviss viðbrögð og varnarsigur

Þegar óheillaaldan skall á Íslandi sl. vetur mátti öllum vera ljóst, að framundan væru miklir erfiðleikar. Þúsundir starfa töpuðust í einu vettvangi og stöndugur ríkissjóður þurfti að taka á sig dæmalausar byrðar til að tryggja innlenda hagkerfinu súrefni. Sumir báru þá falsvon í brjósti að ástandið myndi aðeins vara í nokkrar vikur, en eins og ég nefndi í samtali við Morgunblaðið í byrjun apríl hlaut bóluefni að vera forsenda þess að opnað væri fyrir flæði fólks til og frá landinu. Viðbrögðin við viðtalinu voru sterk og einhverjum þótti óvarlega talað af minni hálfu, þótt veruleikinn blasti við öllum og spáin hafi síðar raungerst.

Tilraunir stjórnvalda til að örva íslenska hagkerfið hafa heppnast vel. Umfangsmikill stuðningur við fólk og fyrirtæki hefur minnkað höggið af niðursveiflunni og fjármunir sem áður fóru úr landi verið notaðir innanlands. Verslun af ýmsu tagi hefur blómstrað, spurn eftir þjónustu iðnaðarmanna verið sögulega há og hreyfing á fasteignamarkaði mikil. Innlend framleiðsla hefur gengið vel og með auknum opinberum fjárveitingum til nýsköpunarverkefna, menningar og lista hefur fræi verið sáð í frjóan svörð til framtíðar. Krefjandi og fordæmalausir tímar hafa því ekki eingöngu verið neikvæðir, þótt vissulega eigi margir um sárt að binda vegna atvinnumissis, veikinda og jafnvel dauðsfalla af völdum veirunnar. Hugur minn er hjá þeim og ég vona að viðsnúningurinn sem blasir nú við færi þeim gæfu.

Ísland hefur tryggt sér bóluefni

Baráttunni við kórónuveiruna er ekki lokið. Öll hagkerfi heimsins eru löskuð eftir ár mikilla efnahagsáfalla. Þjóðir heims munu því keppa sem aldrei fyrr um hylli frumkvöðla, fjárfesta og ferðamanna, þar sem markmiðið að skapa velsæld fyrir þegnana. Fremst í verkefnaröðinni er þó tryggja heilbrigði fólks, sem er forsenda þess að líf færist aftur í fyrri skorður. Líkt og annars staðar er undirbúningur bólusetningar hafinn hérlendis, þar sem forgangshópar hafa verið skilgreindir og skipulag er í vinnslu. Ísland hefur tryggt sér aðgang að ofangreindu bóluefni, en jafnframt verður áhugavert að fylgjast með þróun tveggja til þriggja annarra bóluefna sem eru álíka langt komin í þróunarferlinu og efnið sem vakið hefur athygli undanfarna daga.

Mesta öldurótið er næst landi

Á undanförnum níu mánuðum hefur þjóðin sýnt mikla seiglu og samhug. Siglingin hefur verið löng og ströng, en nú sjáum við til lands og getum leyft okkur að líta björtum augum fram á við. Við slíkar aðstæður er brýnna en orð fá lýst að halda einbeitingunni, enda veit fiskiþjóðin að brimið er mest næst landi – þar sem blindsker geta gatað þjóðarskútuna og valdið ómældu tjóni ef ekki er farið varlega. Það látum við ekki gerast, heldur ætlum við að standa saman og muna að leikinn þarf að spila til enda.

Greinin var fyrst birt í Morgunblaðinu, þann 14. nóvember 2020

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum