Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

15. desember 2020 Mennta- og barnamálaráðuneytiðLilja Alfreðsdóttir

Sælustund á aðfangadagskvöld

Íslendingar búa að ríkulegri menningu sem hefur fylgt okkur um aldabil. Þjóðlög og rímur hafa ómað síðan á 12. öld og hugvit þjóðarinnar á sviði tónlistar er botnlaust. Tónlistin vekur athygli um víða veröld, safnar verðlaunum og viðurkenningum. Þátta- og kvikmyndaframleiðendur flykkjast til landsins og allir vilja upplifa andagiftina sem Íslandi fylgir. Með mikilli fagmennsku hefur tónlistarmönnum tekist að koma Íslandi á kortið sem tónlistarlandi – eitthvað sem við Íslendingar vissum auðvitað fyrir löngu.

Við erum einnig mikil bóka- og sagnaþjóð. Íslendingasögurnar, Halldór Laxness og hið árlega jólabókaflóð er einstakt fyrirbæri og raunar hefur jólabókaflóðið aldrei verið stærra en nú! Eflaust eru margir sem finna fyrir valkvíða enda munu jólin ekki duga til að lesa allt sem okkur langar. Fyrir tveimur árum samþykkti Alþingi frumvarp mitt um stuðningskerfi við útgáfu bóka á íslensku. Ákvörðunin markaði þáttaskil í íslenskri bókmenntasögu og tölurnar tala sínu máli. Útgefnum titlum fjölgar – sérstaklega í flokki barnabóka – og bóksala fyrir jólin er um 30% meiri en á sama tíma í fyrra.

Á árinu hafa margir listamenn orðið fyrir miklu tekjutapi, enda listviðburðir bannaðir meira og minna síðan í mars. Stjórnvöld hafa stutt við listafólk með ýmsum hætti, t.d. með 10 stuðningsaðgerðum sem kynntar voru í október. Ein þeirra var vitundarvakning um mikilvægi menningar og lista og um helgina var kynnt áhugavert verkefni í þá veru, sem miðar að því færa þjóðinni listviðburði heim að dyrum!

Almenningi um allt land býðst að senda vinafólki eða ættingjum sínum landsþekkt listafólk, sem bankar upp á 19. og 20. desember til að skemmta þeim opnar. Alls verða heimsóknirnar 750 talsins og yfir 100 listamenn taka þátt í verkefninu. Það er unnið í samstarfi við Listahátíð í Reykjavík og ég vona að sem flestir fái notið þessarar glæsilegu gjafar.

Við erum lukkuleg þjóð. Við megum ekki gleyma því að við eigum ofgnótt af bókum, hrífandi tónlist, myndlist og hönnun sem hlýjar þegar frostið bítur í kinnar. Við eigum að standa vörð um íslenska menningu og listir, styðja við listamennina okkar og setja íslenska list í jólapakkana. Miðstöð hönnunar og arkitektúrs hefur birt yfirlit á vefsíðu sinni yfir verslanir sem selja íslenska hönnun, og þar er sko af nægu að taka. Bækur og leikhúsmiðar eru ekki amaleg gjöf heldur, ekki síst þegar viðburðaþyrst þjóðin losnar úr Covid-klónum!

Það bærist eitthvað innra með manni þegar ró leggst yfir heimilið á aðfangadagskvöld, allt heimilisfólk satt og sælt, ljúfir jólatónar óma og maður kúrir með jólabók í hönd. Þessi stund rammar inn hamingjuna hjá mér um jólin. Ég segi því hiklaust – íslensk menning og listir eru jólagjöfin í ár!

-

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu, 15. desember 2020

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum