Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

07. janúar 2021 Mennta- og barnamálaráðuneytiðLilja Alfreðsdóttir

Heimsborg við hafið

Samfélög verða til úr mörgum ólíkum þáttum. Aðstæður eru mótandi þáttur, ekki síst þar sem landslag rammar inn bæjarstæði á stórfenglegan en jafnframt ráðandi hátt. Menning og atvinnuhættir ráðast líka af legu samfélaga, í okkar tilviki aðgengi að landsins gæðum – fiskimiðum, vatni, orku og á síðari tímum atvinnuskapandi náttúru – og samgöngum á hverjum tíma.

Fáir bæir eru fegurri eða eiga merkari sögu en Seyðisfjörður. Milli himinhárra fjalla hefur byggst upp öflugt samfélag, menningarlegur hornsteinn og sögufrægur staður. Þar kom í land fyrsti símstrengurinn sem tengdi Ísland við umheiminn og þaðan hafa ferðalangar lengi lagt yfir hafið og gera enn. Tengingin við umheiminn er þar sterk og í raun má segja að Seyðisfjörður sé heimsborg í dulargervi. Fjöldi erlendra listamanna hefur dvalið við listsköpun í lengri eða skemmri tíma, þar eru veitingastaðir á heimsmælikvarða, mannlífið er blómlegt og Seyðisfjörður geymir sögufrægar byggingar af erlendum uppruna - litrík, norskættuð timburhús frá fyrstu áratugum 20. aldarinnar gera Seyðisfjörð einstakan meðal bæja á Íslandi. Mörg þeirra hafa mikið menningarsögulegt gildi og njóta friðunar í samræmi við það. Sum hafa fengið glæsilega andlitslyftingu á undanförnum árum og eigendur varið ómældum tíma og fé í varðveislu þeirra. 

Aurskriðurnar sem féllu á bæinn skömmu fyrir jól skutu Íslendingum öllum skelk í bringu og þjóðin fylgdist agndofa með fréttum. Ótrúleg mildi var að ekki yrði manntjón í hamförunum og engu líkara en almættið hafi staðið vörð um bæjarbúa. Þeirra bíður nú það verkefni að bæta hið veraldlega og menningarlega tjón sem varð, græða sárin og standa saman. Stjórnvöld hafa heitið því að styðja við Seyðfirðinga og vinna við hreinsun og endurreisn er hafin.

Brýnt að bjarga sem mestu af persónulegum verðmætum íbúa, en jafnframt er mikilvægt fyrir samfélagið að menningararfurinn glatist ekki. Að þúsundir sögulegra ljósmynda í eigu Tækniminjasafnsins hafi fundist heilar í aurnum og vinna við björgun annarra hluta úr safnkostinum gangi vel. Það er menningin sem gerir okkur mennsk og hana ber okkur að varðveita.

Í dag heimsæki ég Seyðfirðinga heim, ásamt þjóðminjaverði og forstjóra Minjastofnunar til að sjá aðstæður með eigin augum. Ég er full eftirvæntingar að hitta kraftmikið heimafólk, en kvíði því jafnframt örlítið að standa frammi fyrir eyðileggingunni sem hefur orðið. Við vitum að húsin sem skemmdust eða eyðilögðust geyma merka sögu, bæði fjölskyldna og samfélagsins alls og það er okkar skylda að sýna aðstæðunum áfram virðingu. Það hafa allir hlutaðeigandi sannarlega gert hingað til og svo verður áfram. Það mun Þjóðminjasafnið gera sem og Minjastofnun, en báðar stofnanirnar gegna lykilhlutverki við viðgerð húsa og safngripa.  

-

Greinin birtist í Morgunblaðinu, 7. janúar 2021

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum