Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

26. janúar 2021 Mennta- og barnamálaráðuneytiðLilja Alfreðsdóttir

Tækifærið gríptu greitt

Lilja Alfreðsdóttir - mynd

Ný menntastefna leggur ríka áherslu á hugrekki, sköpun og gagnrýna hugsun – eiginleika sem flutt hafa fjöll og skapað margvísleg verðmæti fyrir samfélög. Tungumálið okkar geymir mörg orð yfir þá einstaklinga sem koma auga á nýja möguleika og hrinda þeim í framkvæmd enda er íslenskan „orða frjósöm móðir“ eins og Bólu-Hjálmar kvað; brautryðjandi, forkólfur, hvatamaður, frumkvöðull, frumherji, upphafsmaður, nýsköpuður, forvígismaður og nú síðast nýyrðið athafnaskáld. Og talandi um skáld. Steingrímur Thorsteinsson var eitt af þjóðskáldunum okkar. Steingrímur kom víða við í íslensku þjóðlífi á nítjándu öld. Hann þýddi meðal annars ævintýri H.C. Andersen og Þúsund og eina nótt og enn þykja snilldarþýðingar hans hentugar tækifærisgjafir handa börnum. Steingrímur var dyggur stuðningsmaður Jóns Sigurðssonar í þjóðfrelsisbaráttunni og lengi rektor Lærða skólans í Reykjavík.

Tækifærið gríptu greitt,
giftu mun það skapa.
Járnið skaltu hamra heitt,
að hika er sama og tapa

Þessar línur eru úr einu af þekktari kvæðum Steingríms og lýsa svo vel eldmóði þeirrar kynslóðar sem lagði grunn að samfélaginu sem við búum við í dag. Kvæðið fangar vel þá hugsun sem einkennir frumkvöðla og eiginleikana sem þeir þurfa öðrum fremur að temja sér. Frumkvöðlastarf snýst þó ekki eingöngu um hugarfar, heldur líka um skipulag, verkferla, þrautseigju og margt fleira. Hugarfar frumkvöðulsins er hægt að læra og styrkja, eins og allt annað. Þess vegna er mikilvægt að umgjörðin sé góð og skapi tækifæri fyrir ungt fólk. Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur til dæmis stutt við starfsemi samtakanna Ungra frumkvöðla í gegnum árin, enda styður starf þeirra vel við þá stefnu að efla nýsköpunar- og frumkvöðlahugsun nemenda. Þá fengu á dögunum ungmenni í Langholtsskóla Íslensku menntaverðlaunin fyrir framúrskarandi þróunarverkefnið Smiðjan í skapandi skólaumhverfi. Markmiðið er að auka veg þverfaglegra viðfangsefna með áherslu á sköpun, lykilhæfni og nýtingu upplýsingatækni í námi. Ég heimsótti Smiðjurnar í gær og var heilluð af því starfi sem þar er unnið.

Ný menntastefna grundvallast á því að nemendur geti beitt rökvísi, ígrundun og hafi hugrekki til að skapa. Í henni er lögð áhersla á sköpun í öllu skólastarfi til að stuðla að persónulegum þroska, frumkvæði og nýsköpun. Unnið skal með samspil gagnrýninnar hugsunar og sköpunar til þess að þroska sjálfstætt gildismat nemenda, styrkja hæfni til að setja ólíkar niðurstöður í samhengi og efla þroska til samfélagslegar umræðu. Forsenda þess að virkja og viðhalda sköpunarkrafti og -kjarki nemenda er að þeim sé búið námsumhverfi þar sem hvatt er til frumkvæðis, sjálfstæðis og skapandi hugsunar á öllum sviðum.

-

Greinin birtist í Morgunblaðinu, 26. janúar 2021

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum