Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

02. febrúar 2021 Mennta- og barnamálaráðuneytiðLilja Alfreðsdóttir

Í minningu Svavars Gestssonar

Svavars Gests­son­ar er minnst með hlýhug í mennta- og menn­ing­ar­málaráðuneyt­inu. Hann var aðsóps­mik­ill og dríf­andi mennta­málaráðherra frá 1988 til 1991, hug­sjónamaður sem markaði spor í sög­una. Hann var hvatamaður að heild­stæðri mennta­stefnu fyr­ir Ísland, sem gef­in var út árið 1990 und­ir yf­ir­skrift­inni Til nýrr­ar ald­ar og var í senn metnaðarfull og fram­sýn. Þar var stefn­an sett á ein­set­inn grunn­skóla, sam­felld­an skóla­dag og lög­fest­ingu leik­skól­ans sem fyrsta skóla­stigs­ins. Á menn­ing­ar­sviðinu stóð Svavar fyr­ir löngu tíma­bær­um end­ur­bót­um og breyt­ing­um á Þjóðleik­hús­inu, sem voru um­deild­ar í fyrstu en sam­hug­ur ríkti um þegar fram­kvæmd­um lauk árið 1991.

Svavar Gests­son var einn af stóru leik­ur­un­um á hinu póli­tíska sviði. Hafði áber­andi sterka nær­veru, var mælsk­ur og rök­fast­ur og því flink­ur í póli­tísk­um skylm­ing­um. Hann var um­deild­ur en hafði skýra sýn og drif­kraft, sem ein­kenndi hann alla tíð – ým­ist sem þing­mann, ráðherra og að lok­um full­trúa Íslands á er­lendri grund.

Sem barn og ung­ling­ur heyrði ég oft talað um Svavar, fyrst hjá lang­ömmu enda voru þau Svavar mikl­ir fé­lag­ar á vett­vangi verka­lýðshreyf­ing­ar­inn­ar og Alþýðubanda­lags­ins. Mikið rætt um póli­tík á heim­il­inu, og var mik­il virðing bor­in fyr­ir Svavari, sem líka þótti hafa gott póli­tískt inn­sæi! Ein sag­an af Svavari er skemmti­leg í þessu sam­hengi. Þannig hélt hann því fram í tæki­færis­ræðu í sex­tugsaf­mæli Stein­gríms Her­manns­son­ar, þáver­andi ut­an­rík­is­ráðherra í sam­steypu­stjórn Sjálf­stæðis-, Fram­sókn­ar- og Alþýðuflokks, að af­mæl­is­barnið væri „á villi­göt­um með íhaldi og kröt­um. Í til­efni dags­ins legg ég á og mæli um, að áður en langt um líður verður mynduð vinstri­stjórn á Íslandi und­ir for­ystu Stein­gríms Her­manns­son­ar“. Í ævi­sögu Stein­gríms seg­ir að um­mæl­in hafi vakið al­menna kátínu snemm­sum­ars 1988, þótt al­vara hafi legið að baki. Skemmst er frá því að segja, að spá­dóm­ur Svavars rætt­ist síðar sama ár, öll­um að óvör­um, vinstri­stjórn­in var stofnuð og Svavar tók við embætti mennta­málaráðherra. Þar átti Svavar far­sæl­an fer­il og kom mörg­um um­bóta­mál­um í verk.

Sam­starf minn­ar fjöl­skyldu við hans átti síðar eft­ir að verða meira. Guðrún Ágústs­dótt­ir, eig­in­kona Svavars, varð sam­herji föður míns á vett­vangi Reykja­vík­urlist­ans og Svandís dótt­ir hans sam­herji minn við rík­is­stjórn­ar­borðið. Í gegn­um þau öll kynnt­ist ég Svavari og lærði hvaða mann hann hafði að geyma. Metnaðarfull­an og dríf­andi, sem kom hug­mynd­um í verk. Síðast hitti ég Svavar vegna áforma hans og annarra um að treysta byggð í Dala­sýslu með menn­ing­ar­tengdri starf­semi á svæðinu sem fóstraði Sturlu Þórðar­son, Auði djú­púðgu, feðgana Ei­rík rauða og Leif heppna, Guðrúnu Ósvíf­ursdótt­ur og fleiri. Þar átti Svavar ræt­ur og kaus að verja drjúg­um hluta eft­ir­launa­ár­anna, í sum­ar­húsi fjöl­skyld­unn­ar við Króks­fjörð.

Með Svavari er gengið eitt af hinum stóru nöfn­um ís­lenskr­ar stjórn­mála­sögu. Ég votta eft­ir­lif­end­um hans samúð.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir,
mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

-

Minningargrein úr Morgunblaðinu, þann 2. febrúar 2021

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum