Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

15. maí 2021 Mennta- og barnamálaráðuneytiðLilja Alfreðsdóttir

Sögulegar breytingar

Lilja Alfreðsdóttir - mynd

Söguleg lagabreyting var samþykkt á Alþingi í vikunni, þegar réttur iðnmenntaðra til náms í háskólum var staðfestur að minni tillögu. Þessi grundvallarbreyting er táknræn fyrir þá jákvæðu viðhorfsbreytingu sem orðið hefur gagnvart starfsmenntun á örfáum árum. Áhuginn á starfsnámi hefur snaraukist, verk- og tæknimenntaskólar eru meðal vinsælustu framhaldsskóla landsins og laða í stórauknum mæli til sín hæfileikafólk á öllum aldri.

Tugþúsundir iðnmenntaðra fá aukin réttindi

Bylting af þessum toga er ekki sjálfsprottin, heldur verður hún vegna skýrrar sýnar og markvissra aðgerða. Við upphaf kjörtímabilsins einsetti ég mér að koma verkmenntun á þann stall sem hún á skilið. Auka veg og virðingu hennar með orðum mínum og gjörðum. Með góðu samstarfi við skólafólk, fagfólk og fyrirtæki í iðnaði er það að takast og kerfisbreytingar eru að raungerast. Aukin réttindi tugþúsunda iðnaðarmanna eru stór liður í því, en auk þess munu háskólarnir njóta góðs af fjölbreyttari bakgrunni þeirra sem sækja sér nám í æðstu menntastofnunum landsins. Viðbrögðin við breytingunum hafa verið frábær og ljóst má vera að meginþorra þjóðarinnar þykir breytingin löngu tímabær.

Viðbætur við öflugt verknámskerfi

Önnur mikilvæg kerfisbreyting felst í auknum sveigjanleika í verklegum þætti starfsnámsins, sem verður að veruleika frá og með haustinu. Núverandi starfsnámskerfi hefur reynst vel, en með nýrri reglugerð um vinnustaðanám er kerfið styrkt enn frekar. Hingað til hefur vinnustaðanám undir leiðsögn iðnmeistara verið forsenda þess að nemi geti lokið námi. Meistarar hafa staðið sig með sóma og tekið á sig skyldur sem menntakerfið í heild ætti að bera.
Nýja reglugerðin talar inn í þann veruleika og gerir ráð fyrir sameiginlegri ábyrgð lykilaðila í starfsmenntakerfinu. Iðnmeistarar munu áfram geta boðið iðnnemum námssamning, en til viðbótar verður ábyrgð skólanna aukin. Þeim verður falið að tryggja í samstarfi við atvinnulífið verklega þjálfun nema sem ekki eru á formlegum samningi, ýmist með þjálfun á einum vinnustað eða eftir atvikum nokkrum. Þjálfunin mun taka mið af hæfnikröfum, sem hafa í fyrsta sinn verið tilgreindar með skýrum hætti í nýju verknámskerfi – rafrænni ferilbók sem tekin verður í notkun í haust. Sumar iðngreinar eru lengra komnar en aðrar í skilgreiningu hæfniþáttanna, en markvisst er unnið að uppfærslum og hafa faghópar í öllum greinum unnið frábært starf.

Gott samstarf er lykilatriði

Breytingarnar hafa í meginatriðum mælst vel fyrir. Fagmenn í ólíkum iðngreinum, fyrirtæki og stéttarfélög hafa gefið góð ráð, bent á áskoranir og hættur sem ber að varast. Samstarf af þeim toga er ómetanlegt, enda vilja stjórnvöld ekki skapa ný vandamál með lausnum við eldri vandamálum. Markmiðið með breytingunum er að efla starfsnám í landinu, tryggja nýliðun í mikilvægum atvinnugreinum og uppfylla bæði þarfir nemenda og atvinnulífsins. Ætlunin er jafnframt að samhæfa betur en áður nám í einstökum greinum og milli iðngreina. Þannig mun námsframvinda ekki lengur ráðast af námssamningstíma heldur skýrum hæfniviðmiðum, sem starfandi iðnaðarmenn hafa skilgreint. Þeir þekkja best hvaða færni nemar þurfa að tileinka sér og með góðu samstarfi, skilvirkri skráningu á námsframvindu og sameiginlegri ábyrgð verða gæði námsins tryggð. Þá munum við sérstaklega horfa til þess, að ekki skapist hætta á félagslegum undirboðum á vinnumarkaði við innleiðingu á nýju reglugerðinni. Þar njótum við leiðsagnar þeirra sem best þekkja til, fag- og stéttarfélaga sem taka þátt í undirbúningnum.

Þakklæti efst í huga

Kerfisbreytingar taka tíma. Allir hlutaðeigandi – stjórnkerfið, atvinnulífið, nemendur og skólar – vita að hlutverk og verkaskipting getur breyst þegar nýjar leikreglur eru innleiddar og ýmsar áskoranir geta skapast. Það er hins vegar mín sannfæring, að allir lykilaðilar muni leggjast saman á árarnar, tryggja farsæla innleiðingu og leysa þau mál sem kunna að koma upp.
Ég er stolt af breytingunum sem hafa orðið á minni vakt og þakklát þeim sem hafa breytt verknámskerfinu með okkur í ráðuneytinu; starfandi iðnaðarmönnum, fyrirtækjum, fagfélögum og verknámsskólum. Saman munum við áfram skila frábæru fagfólki út í samfélagið.

-

Greinin birtist í Morgunblaðinu 15. maí

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum