Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

16. nóvember 2017 Mennta- og menningarmálaráðuneytiðKristján Þór Júlíusson

Dagur íslenskrar tungu

Góðir hátíðargestir.

Nú fögnum við degi íslenskrar tungu í tuttugasta og annað sinn. Í allan dag og fram á kvöld er efnt til fjölbreyttra viðburða í skólum og stofnunum um land allt. Með þeim hætti undirstrikum við mikilvægi þess að eiga eigið tungumál, tala eigið tungumál og nota íslensku til alls.

Við minnumst jafnframt á þessum degi þjóðskáldsins Jónasar Hallgrímssonar sem á sérstakan sess í vitund og menningu landsmanna. Mennta- og menningarmálamálaráðuneyti hafði frumkvæði að því að gera fæðingardag Jónasar Hallgrímssonar, 16. nóvember, að degi íslenskrar tungu árið 1996 og hefur allar götur síðan beitt sér fyrir því að á þessum degi beini skólar, stofnanir, fjölmiðlar og almenningur athygli að stöðu tungunnar og gildi hennar fyrir þjóðarvitund og menningu almennt.

Það var vel til fundið að velja fæðingardag Jónasar fyrir þennan hátíðisdag. Hann fæddist árið 1807 og dó einungis 37 ára. Þrátt fyrir það lifa ljóðin hans góðu lífi enn þann dag í dag sem og önnur skrif eins og um vísindi og náttúrufræði svo ekki sé minnst á mörg nýyrði sem hann smíðaði. Ef mér bregst ekki bogalistin þá eru nýyrðin um 190 sem eru skráð eftir hann og má þar nefna orðin sund, meðalhraði, hugsunarleysi, uppsprettulind og sólkerfi. Til gamans má geta þess að Jónas þýddi og skrifaði fyrstu kennslubókina í sundi árið 1820. Í formála bókarinnar segir að þegar Íslendingar voru 50.000, þá hafi einungis sex Íslendingar kunnað að synda. Sundlaugin á Þelamörk í Hörgársveit, heimasveit Jónasar, ber einmitt nafnið Jónasarlaug.

Konráð Gíslason, vinur Jónasar, lýsti útliti hans á eftirfarandi hátt í eftirmælum sem birtust í tímaritinu Fjölni árið 1847:
„Jónas var gildur meðalmaður á hæð, þrekvaxinn og limaður vel, en heldur feitlaginn á hinum seinni árum sakir vanheilsu, vel rjettur í göngu, herðamikill, baraxlaður, og nokkuð hálsstuttur, höfuðið heldur í stærra lagi, jarpur á hár, mjúkhærður, lítt skeggjaður og dökkbrýnn….“
Þetta nefni ég hér til að undirstrika fjölbreytileika og möguleika tungumálsins. Í textanum birtist ljóslifandi mynd af Jónasi án þess að notuð sé mynd af honum. Í þá daga voru mannlýsingar oft nákvæmar og ákveðnar en nú tíðkast ekki lengur að lýsa fólki með þessum hætti. Við eigum engu að síður mörg íslensk orð sem eru gegnsæ og myndræn. Orðið hugmynd er sérstaklega skýrt og skemmtilegt í því samhengi.

En að allt öðru.
Mig langar að minnast á verkefni sem nú er í gangi á Facebook eða fésbókinni sem nefnist Hreintungumánuðurinn og snýst um að sleppa öllum enskuslettum í nóvember. Þar eru þátttakendur hvattir til að taka þeirri áskorun að finna íslensk orð yfir allt sem við hugsum og sleppa „öllu beisikk og solid sjitt!“ svo dæmi séu tekin. Íslenskan á undir högg að sækja og það getur haft afgerandi áhrif á framtíð hennar hvort kennarar, foreldrar, læknar, fjölmiðlafólk eða íþróttaþjálfarar, svo dæmi séu tekin, tali vandað mál. Ef við notum ekki fjölbreytt íslenskt mál dags daglega þá er hætt við því að íslenskan endi með þeim hætti sem Þórarinn Eldjárn nefnir í kvæðinu Á íslensku en þar segir:

„Ef íslensk tunga er aðeins spariflík,
að endingu hún verður fagurt lík.“

Tölum íslensku rétt og vel en tölum líka erlend tungumál rétt og vel. Blöndum ekki ensku saman við íslenskuna að óþörfu. Ég held að engum detti í hug að blanda íslensku saman við ensku.

Góðir hátíðargestir!
Á degi íslenskrar tungu, 16. nóvember ár hvert, eru veitt Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar. Í reglum mennta- og menningarmálaráðuneytisins um verðlaunin segir að þau beri að veita einstaklingum er hafa með sérstökum hætti unnið íslenskri tungu gagn í ræðu eða riti, með skáldskap, fræðistörfum eða kennslu og stuðlað að eflingu hennar, framgangi eða miðlun til nýrrar kynslóðar. Ráðgjafarnefnd dags íslenskrar tungu gerir tillögu til mennta- og menningarmálaráðherra um verðlaunahafa og rökstyður val sitt. Ráðgjafarnefndin var að þessu sinni skipuð Baldri Hafstað, prófessor emerítus sem var formaður nefndarinnar, Guðrúnu Ingólfsdóttur íslenskufræðingi og Degi Hjartarsyni kennara og rithöfundi. Verðlaunahafi fær í verðlaun 700 þúsund krónur, Íslensku teiknibókina og skrautritað verðlaunaskjal.

Ég hef með ánægju fallist á tillögu ráðgjafarnefndarinnar um að Vigdís Grímsdóttir rithöfundur hljóti Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar árið 2017.

Í greinargerð nefndarinnar segir svo:
„Vaknaðu Þyrnirós heitir ein af Tíu myndum úr lífi þínu, fyrstu bók Vigdísar Grímsdóttur frá árinu 1983, sem þá þegar hafði vakið athygli fyrir ljóð í ýmsum tímaritum. Vaknaðu Þyrnirós er smásaga sem hefst á ljóði með hvatningarorðum til sofandi konu, reyndar ekki þeirrar sömu Þyrnirósar og við lesum fyrir börnin okkar, því hún brosir, gömul og grett framan í prinsinn.
Í textanum sem fylgir þessu skuggalega ævintýraljóði lætur íslensk yfirstéttarkona hugann reika og þar standa meðal annars þessi orð:
„Ég roðna hvorki af stolti né ánægju þó að einhverjir sjái í mér falinn listamann. Ég er sannfærð um hæfileika mína og veit að hefði ég ekki gifst Páli fyrir 20 árum þá hefði ég orðið skáldkona. Þetta veit ég; en mér kemur aldrei til hugar að sjá eftir þeirri ákvörðun sem ég tók á sínum tíma.“
Það er eins og Vigdís hafi í þessari sögu, Vaknaðu Þyrnirós, sögunni sem hún skrifaði fyrir aldarþriðjungi, slegið tón, ort stef sem hefur fylgt okkur allar götur síðan með óvæntum tilbrigðum og töfrandi myndum, jafnt í ljóðum sem óbundnu máli, skáldsögum og skáldaðri ævisögu en einnig í viðtalsbókum við kynsystur. Hún hefur vakið okkur, heillað okkur inn í sína töfrandi veröld sem hefur síðan orkað hvetjandi á leikstjóra og kvikmyndafólk til nýrrar sköpunar.
Um eina af skáldsögum Vigdísar var sagt: „Hún lýkur upp dyrum spennandi og heillandi heims … en úr fjarska berst þungur dynur mikilla örlaga.“
Vigdís hefur haft mótandi áhrif á samtíð okkar og menningu. Með rödd sinni, stundum ögrandi og tilfinningaþrunginni, stundum mildri og sefjandi, hefur hún hrifið okkur með sér og fengið okkur til að takast á við krefjandi spurningar um manneskjuna og þá veröld sem við lifum og hrærumst í. Hún knýr okkur ekki síst til að líta í eigin barm eins og hún gerir sjálf, til dæmis í skáldævisögunni Dísusögu þar sem Dísa á gula kjólnum og Gríms í svarta sjalinu gera upp gömul vandamál og hlífa sér hvergi.
Vigdís Grímsdóttir hefur, hvar sem hún er stödd: á Kleppsvegi, í Norðurfirði eða Trékyllisvík, hreyft við lesendum, ekki aðeins hér heima, heldur víða um lönd, með sínum seiðmagnaða frásagnarmáta.“

Því er það að ráðgjafarnefndin telur Vigdísi Grímsdóttur verðskulda Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu 2017 og bið ég hana að koma hingað og veita verðlaununum viðtöku. Innilega til hamingju.


Góðir hátíðargestir!
Í reglum mennta- og menningarmálaráðuneytis um verðlaun og viðurkenningar á degi íslenskrar tungu segir að auk Verðlauna Jónasar Hallgrímssonar sé heimilt að veita sérstakar viðurkenningar fyrir stuðning við íslenska tungu. Ég hef eftir tillögu ráðgjafarnefndar ákveðið að veita eina viðurkenningu á degi íslenskrar tungu og hlýtur hana Gunnar Helgason leikari og rithöfundur .

Í greinargerð ráðgjafarnefndar segir:
„Gunnar Helgason leikari og rithöfundur hefur nýtt listræna hæfileika sína í þágu barna og unglinga, m.a. með sjónvarpsþáttum og heimsóknum í skóla en umfram allt sem höfundur barna- og unglingabóka; hann hefur eignast sérstakan sess í hjörtum ungs fólks um allt land.
Ungmennin hafa gleypt í sig bækur hans og þannig hefur hann auðveldað þeim leiðina að fleiri bókum og meiri lestri, vakið lestraráhuga sem enst getur ævilangt.
Ein af aðferðum Gunnars í samskiptum við grunnskólanemendur er að hlusta á rödd þeirra sjálfra, láta þau hafa áhrif á væntanlegt efni og skapa þannig þá tilfinningu að þau séu þátttakendur í spennandi ferli.
Af bókum Gunnars nægir að minna annars vegar á Vítaspyrnu í Vestmannaeyjum og aðrar sögur í flokknum af Jóni Jónssyni og félögum; þar eru rangstöðureglur stundum flóknar, jafnt í fótboltanum sem lífinu sjálfu. Og hins vegar á Mömmu klikk og pabba prófessor með hina einstöku Stellu í aðalhlutverki.
„Mitt markmið í lífinu er að skemmta börnum og ég trúi því að heimurinn verði betri þegar börnin hlæja,“ segir Gunnar. En bak við glens og gaman býr sitthvað sem vekur til umhugsunar og hvetjandi umræðu.
Gunnar Helgason er eldhugi sem vill auðga líf ungmenna, hver sem staða þeirra er í samfélagi okkar. Hann er óþreytandi baráttumaður fyrir málstað íslenskunnar. Hann og hans líkar skynja manna best mikilvægi þess að börnin ánetjist bókum á mikilvægasta þroskaskeiði sínu.“

Bið ég nú Gunnar Helgason að koma fram og veita viðtöku viðurkenningu á degi íslenskrar tungu. Til hamingju.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira