Hoppa yfir valmynd
14. desember 2017 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Ávarp ráðherra á málþingi um náms- og starfsráðgjöf í framhaldsfræðslu

Lokaráðstefna Evrópuverkefnisins "Ráðgjöf og leiðsögn fyrir fullorðna (GOAL)

14. desember 2017

Ágætu gestir.
Það er mér ánægja að taka til máls hér í dag á vettvangi framhaldsfræðslu.

Þekkingarvefur um nám og menntun byggist ekki síst upp í samstarfi og samvinnu. Samvinnu einstaklinga, stofnana og fyrirtækja, bæði innanlands og í erlendu samstarfi líkt og þessi ráðstefna sem hér hefur verið skipulögð ber vitni um. Í GOAL-verkefninu, ráðgjöf og leiðsögn fyrir fullorðna (Guidance and Orientation for Adult Learners), sem Fræðslumiðstöð atvinnulífsins tók að sér að stýra fyrir hönd mennta- og menningarmálaráðuneytisins, hefur einmitt verið unnið að því að efla samstarf margra stofnana í þróunarverkefni sem tengist innihaldi námsráðgjafar fyrir þá einstaklinga sem hvað síst sækja í nám.

Gildi verkefnis eins og GOAL er ótvírætt. Í því koma verðmæti samstarfs einkar vel fram, bæði samstarfs aðila innanlands og milli þeirra aðildarríkja sem taka þátt í verkefninu.

Grunnþjónusta framhaldsfræðslu skiptist samkvæmt lögum í þrjá meginþætti; náms- og starfsráðgjöf, sem er undanfari hinna tveggja grunnþjónustuþáttanna, raunfærnimat og skipulagt nám. Bæði raunfærni¬matið og vottuðu námsleiðirnar hafa að markmiði að staðfesta og auka hæfni í starfi og opna leiðir inn í framhaldsskóla, aðfaranám að háskólum eða á vinnumarkaði. Náms- og starfsráðgjöf innan framhaldsfræðslu hefur vaxið og eflst á undanförnum árum og markað sér skýrari sess innan menntakerfisins. Viðleitni stjórnvalda til þess að auka veg náms- og starfsráðgjafar hefur m.a. falist í því að sett voru lög um náms- og starfsráðgjafa árið 2009 í þeim tilgangi að styrkja stöðu greinarinnar með lögverndun hennar.

Meginmarkmið náms- og starfsráðgjafar er að efla vitund einstaklinga um hæfileika sína, viðhorf og áhuga þannig að þeir geti notið sín í námi og starfi. Ráðgjöfinni er ætlað að auðvelda fólki, á hvaða aldri sem er og við hvaða aðstæður sem er, að átta sig á styrk sínum, færni og áhuga til að eiga auðveldara með að ákveða stefnu í námi og starfi.

Breytingar á vinnumarkaði og þróun síðustu ára hefur gert það að verkum að fullorðið fólk – sem hyggst hefja nám að nýju – stendur frammi fyrir mun fjölbreyttara vali um nám og störf en áður. Náms- og starfsráðgjöf gegnir lykilhlutverki í þessum breyttu aðstæðum þar sem mikilvægt er að taka vel ígrundaðar ákvarðanir og fyrir fólk á vinnumarkaði að geta leitað að upplýsingum um nám og störf hvar og hvenær sem er.

Fólk með litla formlega menntun stendur oft höllum fæti í námi og starfi. Ýmiss vandi, s.s. námserfiðleikar, veikindi og persónulegar aðstæður getur haft þau áhrif að fólk festist í láglaunastörfum eða verður óvirkt á vinnumarkaði. Mikilvægt er að stofnanir vinni saman að því að greina vanda einstaklings og vísa honum áfram til þeirra aðila sem helst geta sinnt þörfum hans hverju sinni – að styðja þróun einstaklingsins til að gera honum kleift að huga að námi og starfsþróun.

Frumvarp til laga um framhaldsfræðslu var fyrst lagt fram í desember 2008. Nú, níu árum síðar, er hafin vinna við endurskoðun þessara laga og mun nýtt frumvarp væntanlega verða lagt fram á næsta ári. Á sama tíma gefst gott tækifæri til að ræða saman, vega og meta starf sem unnið hefur verið á vegum framhaldsfræðslunnar, meðal annars náms- og starfsráðgjöf. Í því sambandi langar mig að minna á skýrslu sem kom út í lok maí 2015. Skýrslan ber heitið Grunnur að stefnu um náms- og starfsráðgjöf á Íslandi. Mikilvægt er að tekið sé mið af þeirri skýrslu og öðrum sambærilegum gögnum þegar rætt er um stefnumótun og þróun heildstæðrar náms- og starfsráðgjafar.

Ég vil enda ávarp mitt með því að óska ykkur ánægjulegs og árangursríks dags, bæði núna fyrir hádegi þar sem fjallað verður um helstu niðurstöður GOAL-verkefnisins og einnig eftir hádegi á vinnufundi þar sem unnið verður áfram með viðfangsefnið.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira