Hoppa yfir valmynd
11. júní 2018 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Rétt skal vera rétt

Grein eftir Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, sem birtist  í Morgunblaðinu 9. júní 2018.

Ríkisfjármálaáætlun 2019-2023 liggur til grundvallar fjárheimildum mismunandi málaflokka. Nú þegar hún er til umræðu finnst mér mikilvægt að staldra við og skoða þróun framlaga á mikilvægum málefnasviðum sem heyra undir mennta- og menningarmálaráðuneytið. Fjárheimildir framhaldsskólastigsins voru auknar verulega á þessu ári, um rúma 1,2 milljarða frá fyrra ári, þær munu halda áfram að hækka miðað við ríkisfjármálaáætlun, eða um 4,3% að raunvirði frá árinu 2017 til 2023. Framlög á hvern ársnema á framhaldsskólastigi halda líka áfram að hækka, þau hækkuðu um 6,5% frá fyrra ári og gert er ráð fyrir 8% hækkun á næsta ári, miðað við að hækkun á málefnasviðinu fari í rekstur framhaldsskólanna. Áætlanir gera alls ráð fyrir 18,5% hækkun að raunvirði á hvern ársnemanda á tímabilinu 2017-2023, úr 1.338.000 kr. í 1.586.000 kr.

Undanfarin ár hafa framlög til háskólastigsins verið aukin töluvert. Framlögin jukust um 15,2% að nafnvirði milli áranna 2016 og 2018 en vísbendingar eru um að sú aukning sé umfram það sem gerst hefur í öðrum Evrópuríkjum. Ráðgert er að fjárveitingar til háskólastigsins muni halda áfram að aukast og hækki upp í 47,2 milljarða kr. árið 2023, sem þá er vöxtur upp á tæp 12% á tímabilinu.

Heildarframlög til málaflokks menningar-, lista-, æskulýðs- og íþróttamála jukust um 1,5 milljarða króna að raunvirði milli áranna 2017 og 2018, eða um 12%. Ríkisfjármálaáætlun 2019-2023 gerir ráð fyrir að útgjaldasvigrúm málefnasviðsins muni haldast í því horfi út tímabilið. Að auki gefur ríkið eftir umtalsverðar skatttekjur þegar virðisaukaskattur á bækur verður afnuminn í byrjun árs 2019. Ekki liggur fyrir ennþá hversu mikil tekjuminnkun ríkissjóðs verður vegna þessa og margar breytur geta haft áhrif á þá endanlegu fjárhæð. Vonir standa til þess að þessi aðgerð muni hafa jákvæða keðjuverkun í för með sér fyrir bæði íslenska útgáfu og aðra menningarneyslu.

Sem ráðherra fagna ég áhuga allra á þróun mennta- og menningarmála í landinu og einnig þeim ríka samvinnuvilja sem ég skynja á vettvangi minna starfa. Hvoru tveggja er okkur mikilvægt til að ná þeim metnaðarfullu markmiðum sem við höfum sett okkur.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira