Hoppa yfir valmynd
18. júlí 2018 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Þakklæti á 100 ára fullveldisafmæli og áskoranir framtíðarinnar

Þakklæti á 100 ára fullveldisafmæli og áskoranir framtíðarinnar
Haldið er upp á það í dag að 100 ár eru frá því að samningnum um fullveldi Íslands var lokið með undirritun sambandslaganna sem tóku gildi 1. desember 1918. Sjálfstæðisbaráttan einkenndi 19. öldina og markaði endurreisn Alþingis Íslendinga. Frelsisþráin var mikil og snerist stjórnmálaumræðan einkum um hvernig Íslendingar myndu ráða sínum málum sjálfir.

Sjálfstæðisbaráttan færði okkur betri lífskjör
Fullveldisárið 1918 var krefjandi og stóð íslenska þjóðin frammi fyrir áskorunum af náttúrunnar hendi sem settu svip á þjóðlífið. Þá var frostaveturinn mikli og hafís torveldaði siglingar víða um landið. Spánska veikin tók sinn toll af þjóðinni og Katla hóf upp raust sína. Fullveldinu var fagnað hóflega í ljósi þess sem undan hafði gengið en árið 1918 færði íslensku þjóðinni aukinn rétt og varðaði mikilvægan áfanga á leið okkar til sjálfstæðis. Á þeim hundrað árum sem liðin eru höfum við sem frjálst og fullvalda ríki náð að bylta lífskjörum í landinu. Okkur hefur borið gæfa til að nýta auðlindir landsins á sjálfbæran hátt og styðja við öflugt velferðarsamfélag, þar sem allir eiga að fá tækifæri til að lifa gæfuríku lífi óháð efnahag. Hins vegar er það svo að þrátt fyrir að íslensku samfélagi hafi vegnað vel á fullveldistímanum þá er ekki sjálfgefið að svo verði næstu 100 árin. Því verðum við að vera meðvituð um þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir og takast á við þær af festu. Mig langar til að fjalla um þrjú grundvallaratriði sem oft eru nefnd sem forsendur fullveldis, en þau eru fólk, land og lögbundið skipulag. Öll þessi atriði skipta máli í fortíð, nútíð og framtíð.

Fólkið og tungumálið
Ein af þeim áskorunum sem ég vil sérstaklega nefna er staða íslenskunnar. Tungan hefur átt undir högg að sækja í kjölfar örra samfélags- og tæknibreytinga sem hafa breytt daglegu lífi okkar. Til að mynda hefur snjalltækjabyltingin aukið aðgang að erlendu afþreyingarefni. Þá getur fólk getur talað við tækin sín á ensku. Við viljum bregðast við þessu og liður í því er framkvæmd á máltækniáætlun fyrir íslensku 2018-2022. Markmið hennar er að tryggja að hægt sé að nota íslensku í samskiptum við tæki og í allri upplýsingavinnslu og gera tungumálið okkar gildandi í stafrænum heimi til framtíðar. Það er hins vegar ekki nóg að snara öllum snjalltækjum yfir á íslenska tungu. Við verðum sjálf að vera meðvituð um mikilvægi þess að leggja rækt við málið okkar og nota það. Það eru forréttindi fyrir litla þjóð að tala eigið tungumál. Því vil ég vil brýna alla til þess að leggja sitt af mörkum við að rækta það.

Landið okkar og eignarhald
Önnur áskorun sem ég vil nefna snýr að landi og eignarhaldi á því. Lög um eignarrétt og afnotarétt fasteigna kveða á um að enginn megi öðlast eignarrétt eða afnotarétt yfir fasteignum á Íslandi nema að viðkomandi aðili sé íslenskur ríkisborgari eða með lögheimili á Íslandi. Hins vegar getur ráðherra vikið frá þessu skilyrði samkvæmt umsókn frá áhugasömum aðilum, sem gerir núverandi löggjöf fremur ógagnsæja. Heimildir og takmarkanir erlendra aðila utan EES-svæðisins er lúta að fasteignum hér á landi eru einnig óskýrar. Það verður að koma í veg fyrir að landið hverfi smám saman úr eigu þjóðarinnar og að náttúruauðlindir glatist. Staðreyndin er sú að landfræðileg lega Íslands er afar dýrmæt og mikilvægi hennar mun aukast í framtíðinni. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að skoðaðar verði leiðir til að setja skilyrði við kaup á landi sem taka mið af stefnu stjórnvalda um þróun byggða, landnýtingu og umgengni um auðlindir. Það er nauðsynlegt að marka skýrari stefnu í þessu máli.

Mikilvæg þrískiptingar valdsins
Í þriðja lagi langar mig að nefna lögbundið skipulag. Það sem felst í því að verða frjálst og fullvalda ríki er einkaréttur þjóðarinnar til þess að fara með æðstu stjórn dómsvalds, löggjafar- og framkvæmdavalds. Það stjórnarfar sem reynst hefur farsælast er lýðræðið. Þess vegna er brýnt að efla Alþingi til að styðja við stjórnskipan landsins. Umboðið sem kjörnir fulltrúar hljóta í kosningum er afar þýðingarmikið og mikilvægt að styðja við það. Alþingismönnum ber að varðveita þetta umboð af mikilli kostgæfni og það er okkar hlutverk að tryggja að opinber stefnumótun taki ávallt mið af því. Alþingismenn er kjörnir til að framfylgja málum sem þeir fá umboð til í kosningum. Pólitískt eignarhald á stefnumótun er lykilatriði í því að hún sé farsæl og sjálfbær. Ef kjörnir fulltrúar framkvæmdavaldsins missa sjónar af sínu umboði og hlutverki gagnvart kjósendum er lýðræðið sjálft í hættu..

Fullveldið og sá réttur sem því fylgir hefur gert okkur kleift að stýra okkar málum ásamt því að vera virkir þátttakendur í alþjóðasamfélaginu. Á dögum sem þessum, þegar við horfum 100 ár aftur í tímann fyllumst við flest þakklæti fyrir þær ákvarðanir sem tryggðu okkur þessi réttindi. Hugurinn leitar síðan óneitanlega til framtíðar og þeirra verkefna sem bíða okkar, það er okkar að tryggja þá farsæld. 

Höfundur er Lilja Alfreðsdóttir

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira