Hoppa yfir valmynd
20. ágúst 2018 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Sókn í rannsóknum og nýsköpun

Grein eftir Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, sem birtist í Morgunblaðinu 20. ágúst 2018
Nýsköpun og hagnýting hugvits er forsenda fjölbreytts atvinnulífs, velferðar og styrkrar samkeppnisstöðu þjóða. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð rík áhersla á mikilvægi rannsókna og viljann til þess að efla þær með fjölbreyttum hætti. Mikilvægur liður í því fyrir okkur Íslendinga er samstarf við vísindamenn, fyrirtæki og stofnanir erlendis.

Á grundvelli EES-samningsins hefur Ísland meðal annars átt gott samstarf við önnur ríki í gegnum rannsóknar- og nýsköpunaráætlunum ESB og hefur árangur af sókn íslenskra aðila í evrópskar samkeppnisáætlanir verið góður í samanburði við önnur Evrópulönd. Það hefur skapað grunn að víðtæku og farsælu samstarfi íslenskra stofnana og fyrirtækja við erlenda aðila til mikilla hagsbóta fyrir íslenskt samfélag. Sem dæmi um slíkt má nefna styrk sem Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor í faraldsfræði við læknadeild HÍ, hlaut ásamt sínu samstarfsfólki til þess skoða þátt erfða í heilsufari og sjúkdómsáhættu í kjölfar áfalla, og styrk sem Inga Dóra Sigfúsdóttir, prófessor við sálfræðisvið HR, hlaut ásamt sínu samstarfsfólki til þess að rannsaka áhrif umhverfis á andlega líðan, heilsu og hegðun barna og unglinga.

Fjárfesting þátttökuríkja í verkefnum styrktum af Sjóndeildarhring 2020 (e. Horizon 2020), áttundu rammaáætlun ESB um rannsóknir og nýsköpun, nemur um 79 milljörðum króna. Þar af námu beinir styrkir til íslenskra aðila um 7,6 milljörðum kr., eða um 10% á tímabilinu frá ársbyrjun 2014 fram í mars á þessu ári. Nú er vinna hafin við níundu rannsóknar- og nýsköpunaráætlunina, 2021-2027, en meðal nýjunga í þeirri áætlun er aukið fjármagn til nýsköpunar, áhersla á stór þverfagleg verkefni, opinn aðgang að þekkingu og einföldun regluverks. Mikilvægt er að Ísland haldi áfram að vinna á grundvelli EES-samningsins á þessu sviði og að Íslendingar geti sótt enn frekar fram í rannsóknum og nýsköpun til framtíðar. Ísland og Noregur vinna nú að því í sameiningu að tryggja að nýja rannsóknaráætlunin taki tillit til sérstöðu EES/EFTA-ríkjanna í þessu samhengi líkt og fyrri áætlanir hafa gert.

Ég lít björtum augum til framtíðar vitandi af þeim öfluga mannauði sem við eigum. Við viljum halda áfram að skapa þekkingarsamfélag þar sem rannsóknir og nýsköpun skila sér út í samfélagið með betri menntun, betri heilsu og betri efnahag. Þannig gerum við okkur gildandi í tæknibyltingu framtíðarinnar og höldum Íslandi í fremstu röð.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira