Hoppa yfir valmynd
13. september 2018 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Eflum íslenskt mál til framtíðar – heildstæð nálgun

Grein eftir Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, sem birtist í Morgunblaðinu 13. september 2018.


„Ef íslenskan hverfur tapast þekking og við hættum að vera þjóð.“ Þessi orð frú Vigdísar Finnbogadóttur eru orð að sönnu og eiga erindi við okkar samfélag. Það er óumdeilt að tungumálið okkar stendur frammi fyrir áskorunum úr ýmsum áttum. Það er veruleikinn sem við búum við og veruleikinn sem við þurfum að vinna með. Verkefni sem þetta er ekki spretthlaup heldur langhlaup sem krefst elju, staðfestu og góðrar samvinnu.

Eflum íslenska bókaútgáfu
Strax á upphafsdögum þingsins verður lagt fram frumvarp til laga um stuðning við bókaútgáfu. Markmiðin eru skýr; við ætlum að stuðla að blómlegri bókaútgáfu á íslensku, auknum lestri og bættu læsi – ekki síst hjá börnum og ungmennum. Staðreyndirnar eru að læsi barna og ungmenna hefur hrakað og bóksala hefur dregist saman um 36% á síðustu tíu árum. Við það verður ekki unað hjá bókaþjóðinni sjálfri.

Með samþykkt frumvarpsins verður nýju stuðningskerfi fyrir íslenska bókaútgáfu komið á fót sem felur í sér endurgreiðslu allt að 25% útgáfukostnaðar íslenskra bóka. Þetta þýðir að íslensk bókaútgáfa mun njóta um 400 milljóna króna stuðnings á komandi ári. Þessi leið er betur til þess fallin að efla útgáfu bóka á íslensku en afnám virðisaukaskatts og gengur raunar skrefinu lengra með beinum framlögum sem nýtast munu öllum sem koma að útgáfu hér á landi. Þess utan munum við bæta við nýjum styrkjaflokki fyrir barna- og unglingabækur en yngri kynslóðin hefur bent ötullega á að auka þurfi framboð af slíkum bókum. Þessar aðgerðir marka tímamót og er ég sannfærð um að þær skili sér í öflugri bókaútgáfu og lægra verði á bókum.

Jafnvægi á íslenskum fjölmiðlamarkaði
Fjölmiðlar gegna mikilvægu hlutverki við miðlun upplýsinga og sem vettvangur umræðu og skoðanaskipta. Þeir spegla sögu okkar og styðja við og viðhalda íslenskri tungu. Að því sögðu liggur fyrir að rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla hér á landi er erfitt, meðal annars vegna samkeppni á innlendum og alþjóðlegum auglýsingamarkaði og örrar tækniþróunar. Til þessa hafa einkareknir fjölmiðlar á Íslandi verið þeir einu á Norðurlöndunum sem ekki njóta opinbers stuðnings.

Þessu munum við breyta og nú hafa verið kynntar aðgerðir í þá veru. Þessar aðgerðir snúa meðal annars að endurgreiðslu hluta ritstjórnarkostnaðar rit- og ljósvakamiðla, styrkjum vegna textunar og talsetningar, samræmingu skattlagningar á auglýsingum svo íslenskir fjölmiðlar standi jafnfætis erlendum netmiðlum og minni umsvifum Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði. Við viljum öflugt Ríkisútvarp í almannaeigu og eitt af meginmarkmiðum þess samkvæmt útvarpslögum er að stuðla að varðveislu íslenskunnar. Við viljum ekki skerða þjónustuna en ég tel sanngjarnt að við horfum til þess að jafna stöðuna á fjölmiðlamarkaði.

Við viljum skapa frjóan jarðveg fyrir fjölbreytta flóru fjölmiðla hér á landi. Fjölmiðla sem miðla vönduðu fréttaefni á íslensku og efla þannig lýðræðislega umræðu. Þessar aðgerðir eru löngu tímabærar og til þess fallnar að bæta mjög rekstrarumhverfi íslenskra fjölmiðla, lesendum, áhorfendum og hlustendum til hagsbóta.

Tunga og tækni fylgist að
Til að tryggja að íslenska verði gjaldgeng í stafrænum heimi, rafrænum samskiptum og upplýsingavinnslu sem byggist á tölvu- og fjarskiptatækni er nú unnið eftir verkáætluninni Máltækni fyrir íslensku 2018-2022. Í því felst að þróa og byggja upp tæknilega innviði sem nauðsynlegir eru til þess að brúa bil milli talmáls og búnaðar, s.s. talgreini, talgervil, þýðingarvél og málrýni/leiðréttingarforrit. Verkáætlunin er að fullu fjármögnuð í núverandi fjármálaáætlun, en áætlaður heildarkostnaður ríkisins við hana er 2,2 milljarðar króna á tímabilinu.

Íslenskan og framtíðin
Nú í haust mun ég enn fremur leggja fram þingsályktun er varðar íslenska tungu og hlutverk hennar sem opinbers máls hér á landi. Þar eru aðgerðir í 22 liðum sem snerta flest svið þjóðlífsins en helsta markmið þeirra er að íslenska verði áfram notuð á öllum sviðum samfélagsins. Meðal aðgerða þar eru að settar verði viðmiðunarreglur um notkun íslensku og annarra tungumála í upplýsinga- og kynningarefni og fjölþættar aðgerðir sem tengjast íslenskunni og menntakerfinu.

Við ætlum að sækja fram og styrkja stöðu íslenskunnar til framtíðar. Það er viðeigandi að það skref sé stigið nú á aldarafmæli fullveldisins. Saga þjóðar okkar verður áfram skrifuð og hana ætlum við að skrifa á íslensku.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira