Hoppa yfir valmynd
22. október 2018 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Vísindasamstarf og norðurslóðir

Grein eftir Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, sem birtist í Morgunblaðinu 20. október 2018.

Hringborð norðursins er alþjóðlegur samstarfs- og samráðsvettvangur um málefni norðurslóða og er samnefnt þing þess stærsta alþjóðlega samkoman þar sem málefni og framtíð þess svæðis eru til umfjöllunar. Málefni norðurslóða snerta nær allar hliðar íslensks samfélags og eru forgangsmál í stefnumótun stjórnvalda. Eitt af þeim málefnum sem efst eru á baugi á ráðstefnu Hringborðs norðursins sem nú stendur yfir í Reykjavík eru áskoranir sem örar samfélags- og náttúrufarsbreytingar vegna hlýnunar jarðar hafa í för með sér fyrir íbúa á norðurslóðum. Viðbrögð okkar við þeim munu skipta miklu fyrir lífsgæði framtíðarinnar og því er brýnt að stefnumótun ríkja á svæðinu byggist á gagnreyndri þekkingu, yfirsýn og góðri samvinnu.

Vísindarannsóknir
Einn þáttur í alþjóðlegu samstarfi ríkjanna á norðurslóðum eru rannsóknir á lífríki, umhverfi og samfélögum norðurslóða. Vísindarannsóknir og vöktun breytinga á svæðunum veita veigamikla undirstöðu fyrir stefnumótun stjórnvalda en alþjóðlegt vísindasamstarf er forsenda þess að unnt verði að skilja og bregðast við afleiðingum hlýnunar á umhverfi og samfélög norðurslóða. Íslenskir vísindamenn og stofnanir búa yfir dýrmætri reynslu og þekkingu á fjölmörgum sviðum slíkra rannsókna, má þar sem dæmi nefna rannsóknir á samfélagslegum áhrifum loftslagsbreytinga, jöklum, breytingum á vistkerfi sjávar og kortlagningu hafsbotnsins. Þá hýsir Ísland skrifstofur Alþjóðlegu norðurskautsvísindanefndarinnar (IASC) sem er vettvangur opinberra stofnanna og samtaka á sviði norðurslóðarannsókna frá yfir 20 ríkjum. Markmið vísindanefndarinnar er að stuðla að samstarfi um rannsóknir á Norðurheimskautssvæðinu og veita ráðgjöf til alþjóðasamfélagsins um málefni norðurslóða. Vettvangur sem þessi er mikilvægur fyrir íslenskt vísindasamfélag og veitir vísindamönnum okkar aðgang að öflugasta tengslaneti vísindamanna á norðurslóðum og eykur jafnframt möguleika þeirra til alþjóðlegs samstarfs. Íslensk stjórnvöld hafa einnig átt í farsælu samstarfi við Fulbright-stofnunina um samstarf á sviði norðurslóðafræða, en á þeim vettvangi eru fræðimenn styrktir til kennslu og rannsóknastarfa.

Áhrif fólksins
„Fólkið sem býr á norðurslóðum á næstum engan þátt í þeim breytingum sem eiga sér stað, heldur stærri þjóðir sunnar á hnettinum,“ sagði Ragnar Axelsson ljósmyndari þegar hann tók á móti Íslensku bókmenntaverðlaununum fyrir ljósmyndabókina Andlit norðursins. Þetta eru athyglisverð orð og áminning til okkar um mikilvægi þess að íbúar þessa svæðis komi að mótun stefnunnar. Til að meta til fulls þá margbrotnu félagslegu, menningarlegu og sögulegu þætti sem tengjast því stóra verkefni að aðlagast örum samfélags- og náttúrufarsbreytingum er áríðandi að horfa til þess mannauðs og þekkingar sem til staðar er á hverju svæði fyrir sig. Í því felst til að mynda að efla þverfaglegar rannsóknir sem tengja sama hug- og félagsvísindi við raun- og náttúruvísindi. Með þeim hætti má stuðla að því að stefnumótun og ákvarðanataka sé byggð á heildrænni sýn og að tekið sé tillit til viðhorfa og þekkingar íbúa á viðkomandi svæðum. Norðurskautsráðið er þungamiðjan í okkar alþjóðasamstarfi á norðurslóðum og mun Ísland gegna formennsku í ráðinu frá og með næsta ári. Megináherslur ráðsins á umhverfismál og sjálfbæra þróun gera það að verkum að vísindi og rannsóknir skipa stóran sess í störfum þess. Ísland hefur nú þegar gert sig gildandi þegar kemur að framlagi til félags- og hugvísinda en frá árinu 2009 hefur Heimskautaréttarstofnunin meðal annars unnið að lögfræðilegum viðfangsefnum heimskautasvæðanna með útgáfu rita um heimskautarétt. Þá veitir stofnunin einnig stuðning til framhaldsnáms í heimskautarétti sem kennt er við Háskólann á Akureyri þar sem nemendur fræðast meðal annars um viðfangsefni öryggismála, leitar- og björgunarstarfa, auðlinda og líffræðilegs fjölbreytileika í tengslum við heimskautin tvö.

Umhverfið nýtur vafans
Ísland hefur mikilvæga sérstöðu sem norðurskautsríki þar sem stór hluti landhelgi okkar er innan norðurslóða. Hagmunir Íslands felast í því að nýta tækifæri sem fylgja þeirri stöðu með ábyrgum og sjálfbærum hætti. Auknum siglingum og annarri starfsemi fylgja sóknarfæri en líka áskoranir fyrir umhverfi, lífríki og lífshætti. Viðkvæmt vistkerfi norðurslóða á að njóta vafans og var mikilvægt skref í þá veru stigið í aðdraganda Parísarsáttmálans um loftslagsmál. Norðurskautsríkin hafa nú þegar gert þrjá lagalega bindandi samninga um; leit og björgun, varnir gegn olíumengun og samstarf á sviði vísinda. Þessir samningar eru þýðingarmiklir fyrir öryggi sjófarenda og umhverfisvernd á víðfeðmu og viðkvæmu hafsvæði. Ríkin hafa einnig átt þátt í gerð áætlunar um vöktun á líffræðilegum fjölbreytileika á norðurslóðum, aðgerðaramma vegna sóts og metans, rammaáætlunar um friðuð hafsvæði og svo framvegis. Þessu til viðbótar hafa norðurskautsríkin í sameiningu komið að mótun siglingareglna á norðurslóðum, sem Alþjóðasiglingamálastofnunin gefur út. Öll þessi samvinna miðar að því að auka umhverfismeðvitund byggða á vísindalegum rannsóknum.

Ísland hefur margt fram að færa í málefnum norðurslóða eins og ég hef rakið hér að ofan. Við eigum að halda áfram að leggja áherslu á málefni norðurslóða í víðum skilningi; tryggja stöðu okkar sem strandríkis innan svæðisins og taka virkan þátt í alþjóðlegri vísindasamvinnu er því tengist.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira