Hoppa yfir valmynd
12. nóvember 2018 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Sókn er besta vörnin

Grein eftir Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, sem birtist í Morgunblaðinu 12. nóvember 2018.

Degi íslenskrar tungu verður fagnað með fjölbreyttum hætti á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar þann 16. nóvember nk. Dagurinn hefur fest sig í sessi í hugum landsmanna og margir nýta hann til að fagna því sem vel er gert og minna á mikilvægi tungumálsins. Íslenskan skipti sköpum í sjálfstæðisbaráttu okkar og athyglivert er hversu mikla áherslu forystufólk á þeim tíma lagði á mikilvægi tungumáls og menntunar. Þegar litið er um öxl má með sanni segja að vel hafi tekist til við að auka lífsgæði á Íslandi. Við þurfum hins vegar alltaf að vera meðvituð um þá samkeppni sem ríkir um mannauðinn og keppa að því að lífskjör séu góð og standist alþjóðlegan samanburð.

„Ef íslenskan hverfur tapast þekking og við hættum að vera þjóð,“ er haft eftir Vigdísi Finnbogadóttur fyrrverandi forseta. Á tímum örrar alþjóðavæðingar og tæknibyltinga er mikilvægt að undirstrika stöðu þjóðtungunnar. Vaxandi áhrif tölvu- og samskiptatækni á daglegt líf krefjast aðgerða af hálfu stjórnvalda til að tryggja að tungumál líkt og íslenska séu gjaldgeng í nútímasamskiptum. Nauðsynlegt er að snúa vörn í sókn fyrir íslenskuna svo hún megi þróast og dafna til framtíðar. Ábyrgðin á því viðvarandi verkefni hvílir hjá stjórnvöldum og atvinnulífi hvers tíma.

Það eru forréttindi fyrir fámenna þjóð að tala eigið tungumál. Þjóðir hafa glatað tungumálum sínum eða eru við það að missa þau. Dæmi um slíkt er lúxemborgíska sem er eitt þriggja mála sem talað er í Lúxemborg. Um áratugaskeið hafa opinber skjöl í Lúxemborg verið birt á frönsku og þýsku en lúxemborgíska verið töluð. Líkt og Ísland er Lúxemborg fámennt land með háar þjóðartekjur en landfræðileg staða ríkjanna er afar ólík. Yfirvöld í Lúxemborg hafa hugað lítt að því að tæknivæða lúxemborgísku og því fer notkun hennar dvínandi.

Íslensk stjórnvöld hafa kynnt heildstæða áætlun sem miðar að því að styrkja stöðu íslenskunnar. Aðgerðirnar snerta ólíkar hliðar þjóðlífsins en markmið þeirra ber að sama brunni; að tryggja að íslenska verði áfram notuð á öllum sviðum samfélagsins. Þeim til grundvallar er eindreginn vilji til að tryggja framgang tungumálsins, m.a. með stuðningi við bókaútgáfu, einkarekna fjölmiðla, máltækni og menntun. Á næstunni verður kynnt þingsályktunartillaga um að efla íslensku sem opinbert mál hér á landi. Megininntak hennar verða aðgerðir í 22 liðum sem snerta m.a. skólastarf, menningu, tækniþróun, nýsköpun, atvinnulíf og stjórnsýslu.

Framtíð íslenskunnar er í okkar höndum – og á okkar vörum. Hún er full af spennandi áskorunum og tækifærum. Vinnum að því saman að allt sé hægt á íslensku.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira