Hoppa yfir valmynd
19. desember 2018 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Hvað ætlar þú að lesa um jólin?

Grein eftir Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, sem birtist í Morgunblaðinu 19. desember 2018.

Nú líður að jólum en þau eru tími samveru með ástvinum og ættingjum. Einnig eru þau tími lesturs og bóka. Hátíðarnar eru kærkomin tilbreyting frá amstri hversdagsins og það er gleðilegt hversu margir njóta þess að lesa um jólin. Miðstöð íslenskra bókmennta lét nýlega gera könnun á viðhorfi þjóðarinnar til bóklestrar en niðurstöðurnar gefa sterkar vísbendingar um að lestur sé enn í dag mikilvægur þáttur í lífi landsmanna og að viðhorf fólks sé jákvætt í garð bókmennta, lestrar og opinbers stuðnings við bókmenntir.

Þar kom fram að 72% svarenda hefðu lesið eða hlustað á bækur síðastliðna 30 daga. Um 86% þeirra höfðu lesið hefðbundnar bækur á síðustu 12 mánuðum, 31% höfðu lesið rafbækur og 35% hlustað á hljóðbækur. Niðurstöðurnar benda til þess að konur lesi meira en karlar, að meðaltali lesa karlar tvær bækur á mánuði en konur 3,5 bækur. Þetta eru fróðlegar niðurstöður og þær er þarft að skoða í samhengi.

Raunin er að bóksala á Íslandi hefur dregist verulega saman eða um tæp 40% á síðustu 10 árum. Ástæður þess má einna helst rekja til breyttrar samfélagsgerðar og örrar tækniþróunar því aukið framboð lesefnis og myndefnis á netinu hefur leitt til þess að lestur bóka á íslensku hefur minnkað. Þessi þróun skapar ákveðna ógn við tungumálið en til þess að mæta því, og fleiri áskorunum sem að íslenskunni standa, verður á nýju ári sett á laggirnar nýtt stuðningskerfi sem heimilar 25% endurgreiðslu vegna beins kostnaðar við útgáfu bóka á íslensku. Markmiðið með því er að auka lestur og efla bókaútgáfu í landinu og er þetta fyrsta skrefið í heildstæðum aðgerðum stjórnvalda til stuðnings íslenskri tungu.

Ég vona að sem flestir muni gefa sér tíma til þess að lesa um hátíðarnar. Fyrir marga er það einn hápunktur jólanna að sökkva sér ofan í góða bók á aðfangadagskvöld. Megi sem flestir lesendur, á öllum aldri, finna þá ánægju og gleði þessi jólin.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira