Hoppa yfir valmynd
02. september 2019 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Hús þjóðarinnar – Hús íslenskunnar

Grein eftir Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra sem birtist í Morgunblaðinu 30. ágúst 2019.

Það ríkti eftirvænting og gleði á stuttum viðburði sem fram fór í gær við Arngrímsgötu í Reykjavík. Þar undirrituðum við samning um langþráða byggingu – Hús íslenskunnar. Framkvæmdir eru hafnar og ráðgert að þeim muni ljúka í sumarlok árið 2023. Hús íslenskunnar verður glæsilegt og verðugur heimavöllur fyrir fjöregg íslenskrar menningar, tungumálið okkar. Þar munu tvinnast saman fortíð, samtíð og framtíð íslenskunnar.

Táknrænt hús
Hús íslenskunnar mun iða af lífi. Það mun hýsa fjölbreytta starfsemi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Undanfarin ár hefur ekki verið unnt að halda sýningar á handritum sem varðveitt eru hjá Stofnun Árna Magnússonar en með tilkomu hússins verður bylting í aðstöðu stofnunarinnar til að varðveita, rannsaka og miðla menningararfi þeim sem handritin geyma. Með tilkomu hússins verða nemendur og fræðimenn í íslenskum fræðum í fyrsta sinn undir sama þaki og helstu rannsóknargögn um þróun og sögu tungumálsins. Þannig myndar húsið umgjörð utan um þjóðararf Íslendinga og skapar aðstæður til að efla þekkingu og þróun á tungumálinu. Þá verður húsið miðstöð fólks sem miðlar menningararfinum til komandi kynslóða.

Handrit heim
Það er tímabært að við hefjum nú formlegar viðræður við dönsk stjórnvöld um að fleiri handritum úr safni Árna Magnússonar, sem nú eru varðveitt hjá Árnastofnun í Kaupmannahöfn, verði skilað hingað heim. Í kjölfar handritamálsins svonefnda var mörgum handritum skilað á árunum 1971-1997 en tæplega 1400 þeirra eru enn í Kaupmannahöfn. Í vikunni var málið rætt í ríkisstjórn og í framhaldinu samþykkt að skipa starfshóp sem fara mun yfir næstu skref. Þá ráðgeri ég einnig að funda með menntamálaráðherra Danmerkur um málið nú í september. Viðhorf okkar og meðvitund um mikilvægi handritanna fyrir sögu okkar og tungumál hafa breyst umtalsvert á þeim áratugum sem liðnir eru frá samningagerðinni við Dani. Aðstaðan til þess að varðveita, rannsaka og miðla þeim menningararfi sem handritin geyma verður öll önnur með tilkomu Húss íslenskunnar. Handritasafn Árna Magnússonar er einstakt og ómetanlegt, ekki aðeins fyrir okkur heldur einnig sem hluti af bókmenntasögu heimsins. Til marks um það er handritasafnið á skrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (e. UNESCO) yfir andleg minni veraldar.

Áfram íslenska
Um þessar mundir vinnum við að aðgerðaáætlun sem byggist á þingsályktun sem samþykkt var á Alþingi síðastliðið vor um hvernig efla megi íslensku sem opinbert mál hér á landi. Þegar hafa verið kynntar ýmsar leiðir í þá veru sem meðal annars tengjast máltækni og útgáfu bóka á íslensku. Með þingsályktuninni, og þeim 22 aðgerðum sem þar eru tilgreindar, er markmiðið að ná ennþá betur utan um það mikilvæga og viðvarandi verkefni stjórnvalda að tryggja að íslenska verði áfram notuð á öllum sviðum íslensks samfélags. Verkefnið er spennandi og ánægjulegt hversu margir sýna því áhuga og vilja leggja því lið. Helstu markmið aðgerðanna eru í fyrsta lagi að íslenska verði notuð á öllum sviðum samfélagsins, í öðru lagi að íslenskukennsla verði efld á öllum skólastigum ásamt menntun og starfsþróun kennara og í þriðja lagi að framtíð íslenskrar tungu í stafrænum heimi verði tryggð. Tæknibylting gjörbreytir nú okkar daglega lífi. Um leið og í því felast spennandi tækifæri er sú þróun einnig áskorun fyrir íslenskuna. Til að mynda hefur snjalltækjabyltingin aukið verulega aðgang að erlendu afþreyingarefni og upplýsingaveitum. Til að íslenskan verði áfram gjaldgeng og okkar sjálfsagða mál hafa stjórnvöld fjárfest í máltækniáætlun fyrir íslensku. Markmið hennar er að tryggja að hægt sé að nota íslensku í samskiptum við tæki og í allri upplýsingavinnslu.

Sameiginlegt verkefni
Íslenskan opnar leið inn í fortíðina með því að tengja okkur við fólkið sem hér lifði áður og þann menningarheim sem bókmenntirnar geyma – en hún opnar líka leið út í heim því ef hugsun og skilningur á móðurmálinu er frjór og fjölbreyttur erum við betur í stakk búin til þess að læra og meðtaka önnur mál og menningu. Það eru forréttindi fyrir fámenna þjóð að tala eigið tungumál og við ætlum að snúa vörn í sókn fyrir íslenskuna. Þegar talið berst að tungumálinu og fólk ræðir um verndun íslenskunnar og menningararfsins gleymum við því stundum að tungumálið er í senn okkar verk og verkfæri. Íslenskan lifir á meðan við notum hana og nýtum í öllum okkar daglegu störfum. Við höfum val um að efla hana og styrkja á hverjum einasta degi. Það er ekki flókið verkefni en kallar á ákveðna viðhorfsbreytingu. Við berum öll sameiginlega ábyrgð á framtíð tungumálsins og ég bind vonir við að með Húsi íslenskunnar muni rannsóknir og miðlun á því sviði eflast og dafna, okkur öllum til heilla.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira