Hoppa yfir valmynd
16. september 2019 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Framsækið fjárlagafrumvarp 2020

Grein eftir Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra sem birtist í Morgunblaðinu 14. september 2019.

Á kjörtímabilinu hefur gengið vel að sækja fram á öllum sviðum samfélagsins og í fjárlagafrumvarpi ársins 2020 birtist glögglega áframhaldandi sókn í þá veru. Í frumvarpinu birtist enn frekari framsókn í þágu mennta-, vísinda-, menningar-, lista-, íþrótta- og æskulýðsmála í landinu sem er í samræmi við sáttmála ríkisstjórnarflokkanna. Heildarframlög málefnasviðanna eru komin í 115 milljarða. Til samanburðar námu heildarframlögin tæpum 98 milljörðum króna árið 2017 og er því um að ræða nafnverðshækkun upp á 17,5% eða 17 milljarða króna á þremur árum!

Vel fjármagnaðir framhaldsskólar
Framlög á hvern framhaldsskólanemenda í fullu námi hækka úr 1.732.000 kr. árið 2019 í 1.819.800 kr. árið 2020. Framlög til framhaldsskóla hafa hækkað umtalsvert undanfarin ár en sú hækkun mun halda sér samkvæmt fjármálaáætlun fyrir árin 2020-2024. Árið 2020 munu heildarframlög til framhaldsskólastigsins nema 36,3 milljörðum kr. sem er aukning um 6 milljarða frá árinu 2017. Auknir fjármunir sem runnið hafa til skólanna að undanförnu gera þeim kleift að efla sitt skólastarf enn frekar, meðal annars með því að bæta námsframboð, styrkja stoðþjónustu og endurnýja búnað og kennslutæki.

Starfsnám í forgangi
Meðal áhersluverkefna á árinu 2020 er að efla starfsnám. Forgangsraðað er í þágu þess í nýju reiknilíkani framhaldsskólanna á komandi ári. Þá verður unnið að tillögu um framkvæmd þingsályktunar um aðgengi að stafrænum smiðjum og farið í mat á endurskipulagningu námstíma til stúdentsprófs. Áfram er unnið að því fjölga nemendum sem útskrifast úr framhaldsskóla á tilsettum tíma með því að kortleggja betur nemendur í brotthvarfshættu og innleiða reglubundnar mælingar. Sérstök áhersla er þar lögð á nemendur með annað móðurmál en íslensku og nemendur á landsbyggðinni. Þá hefur verið settur á laggirnar starfshópur sem meta mun þörf á heimavist á höfuðborgarsvæðinu fyrir framhaldsskólanema.

Öflugra háskólastig og OECD-markmið í augnsýn
Undanfarin ár hafa framlög til háskóla og rannsóknastarfsemi verið aukin verulega og er ráðgert að þau nemi tæpum 41 milljarði kr. á næsta ári. Það er hækkun um 22,3% frá árinu 2017 þegar þau námu tæpum 33,4 milljörðum. Nýverið birti Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) árlega skýrslu sína Menntun í brennidepli 2019 (e. Education at Glance) þar sem fram kemur að Ísland nálgist óðfluga meðaltal OECD í framlögum á hvern ársnema í háskóla. Samkvæmt henni voru framlögin á Íslandi 94% af meðaltalinu árið 2016 sem er nýjasta mælingin. Ríkisstjórnin stefnir á að framlög á hvern nemanda hér á landi nái OECD-meðaltalinu árið 2020. Við erum því sannarlega á réttri leið. Meginmarkmið stjórnvalda er að íslenskir háskólar og alþjóðlega samkeppnishæfar rannsóknastofnanir skapi þekkingu, miðli henni og undirbúi nemendur til virkrar þátttöku í þekkingarsamfélagi nútímans og til verðmætasköpunar sem byggist á hugviti, nýsköpun og rannsóknum. Til að ná meginmarkmiði háskólastigsins er meðal annars unnið að því að auka gæði náms og námsumhverfis í íslenskum háskólum, styrkja rannsóknastarf og umgjörð þess ásamt því auka áhrif og tengsl háskóla og rannsóknastofnana. Unnið er að heildstæðri menntastefnu Íslands til ársins 2030, þvert á skólastig. Á sviði háskóla stendur yfir endurskoðun á reglum um fjárveitingar til þeirra með það að markmiði að styðja betur við gæði í háskólastarfi. Þá er einnig unnið að gerð stefnu um starfsemi rannsókna-, fræða- og þekkingarsetra og ráðgert að birta og hefja innleiðingu á stefnu Íslands um opinn aðgang að rannsóknaniðurstöðum og rannsóknagögnum.

Gríðarleg fjölgun í kennaranám
Meðal áhersluverkefna á málefnasviði háskólastigsins eru aðgerðir sem miða að fjölgun kennara. Í frumvarpi til fjárlaga ársins 2020 er gert ráð fyrir 220 milljónum kr. til verkefnisins en meðal aðgerða sem að því miða eru námsstyrkir til kennaranema á lokaári meistaranáms til kennsluréttinda á leik- og grunnskólastigi. Stjórnvöld hafa ásamt lykilfólki í menntamálum unnið að því að mæta yfirvofandi kennaraskorti og fyrr á árinu kynntum við tillögur og byrjuðum hrinda þeim í framkvæmd. Árangurinn hefur ekki látið á sér standa en umsóknum um kennaranám hefur stórfjölgað eða um 45% í Háskóla Íslands.

Stórbætt kjör námsmanna
Í undirbúningi er nýtt og fullfjármagnað stuðningskerfi fyrir námsmenn sem felur í sér gagnsærri og jafnari styrki til námsmanna. Námsaðstoðin sem sjóðurinn mun veita verður áfram í formi lána á hagstæðum kjörum og til viðbótar verða beinir styrkir vegna framfærslu barna og 30% niðurfelling á hluta af námslánum við lok prófgráðu innan skilgreinds tíma. Kerfið miðar að því að bæta fjárhagsstöðu háskólanema, ekki síst þeirra sem hafa börn á framfæri, og skapa hvata til að nemar klári nám sitt á tilsettum tíma. Á yfirstandandi haustþingi mun ég mæla fyrir frumvarpi þessa efnis og vil ég þakka námsmönnum sérstaklega fyrir virkilega gæfu- og árangursríkt samstarf við smíði þess.

Þróttmikið vísindastarf
Á næsta ári aukast framlög til vísindamála sem heyra undir mennta- og menningarmálaráðuneyti verulega. Markmið okkar er efla rannsóknir, vísindamenntun og tækniþróun í landinu og gera íslenskt vísindasamfélag enn betur í stakk búið til þess að taka þátt í alþjóðlegu vísindasamstarfi. Vel fjármagnaðir samkeppnissjóðir í rannsóknum styrkja framúrskarandi vísinda- og nýsköpunarstarf á öllum sviðum. Sá árangur sem íslenskt vísindafólk hefur náð á undanförnum árum er framúrskarandi og því er mikilvægt að halda áfram að styðja myndarlega við málaflokkinn.

Menning í blóma
Á næsta ári munu framlög til menningar-, lista-, íþrótta- og æskulýðsmála vaxa í 16,1 milljarð króna. Það er 32% aukning frá árinu 2017 þegar að framlögin námu 12,2 milljörðum. Meðal áhersluverkefna á sviði menningar og lista eru málefni íslenskrar tungu, aðgengi að menningu og listum og mótun nýrrar menningarstefnu. Til marks um áherslur stjórnvalda sem stuðla vilja að bættu læsi og styrkja stöðu íslenskrar tungu hækka framlög í bókasafnssjóð höfunda um 62% árið 2020. Aukinn stuðningur er við starf safna í landinu með hækkuðu framlagi sem nemur 100 milljónum kr. til Safnasjóðs sem úthlutar til verkefna og rekstrarstyrkjum til viðurkenndra safna. Þá hækka framlög til þriggja höfuðsafna þjóðarinnar, Þjóðminjasafns Íslands, Listasafns Íslands og Náttúruminjasafns Íslands um 15 milljónir kr. Áfram er unnið að tillögum að byggingu nýs þjóðarleikvangs í knattspyrnu í Laugardal og unnið eftir nýrri íþróttastefnu sem var samþykkt nú í ár.

Bætt rekstrarumhverfi fjölmiðla

Rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla er erfitt. Í fjárlagafrumvarpinu er eyrnamerkt fjármagn til stuðnings fjölmiðlum í samræmi við sáttmála ríkisstjórnarflokkanna. Ég mun leggja það fram á haustþingi en það heimilar opinberan stuðning við einkarekna fjölmiðla vegna öflunar og miðlunar frétta og fréttatengds efnis.

Það hefur gengið vonum framar á kjörtímabilinu að efla þá málaflokka sem heyra undir mennta- og menningarmálaráðuneytið. Vinna við helstu stefnumál hefur gengið vel og aðgerðir á ýmsum sviðum eru þegar farnar að skila árangri. Það er í senn ánægjulegt að finna fyrir þeim mikla meðbyr sem þessir málaflokkar njóta í samfélaginu. Slíkt er hvetjandi fyrir mennta- og menningarmálayfirvöld til að gera enn betur og halda ótrauð áfram á þeirri vegferð að bæta lífskjör á Íslandi til langrar framtíðar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira