Hoppa yfir valmynd
19. nóvember 2019 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Skilningur og skólastarf

Grein eftir Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra sem birtist í Morgunblaðinu 19. nóvember 2019.

Sigursæll er góður vilji. Þessi málsháttur er í miklum metum hjá manni sem á dögunum hlaut verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu. Raunar má segja að þetta séu hin bestu einkunnarorð Jóns G. Friðjónssonar, prófessors, málvísindamanns og kennara, sem sannarlega er vel að þeim verðlaunum kominn. Jón hefur með ástríðu og hugsjón unnið íslenskunni ómælt gagn og með miðlun sinni tendrað áhuga annarra á tungumálinu, ekki síst í gegnum stórfróðlegar bækur sínar og kennsluefni, og fyrir það erum við honum afar þakklát.
Í viðtali við Jón á dögunum talaði hann fyrir mikilvægi þess að efla lesskilning og sagði að móðurmálinu stæði meiri ógn af því hversu stór hluti nemenda gæti ekki lesið sér til gagns við lok grunnskólanáms, en af erlendum tungumálum. Við erum meðvituð um þann vanda og þau miklu áhrif sem hann hefur á framtíðarmöguleika í námi og starfi. Læsi snýst ekki einvörðungu um bækur og nám, heldur aðgengi að upplýsingum sinni víðustu mynd, úrvinnslu á þeim upplýsingum og gagnrýnni hugsun. Lesskilningur leggur þannig grunninn að öðru námi og er markmið okkar að leggja meiri áherslu á hann og þjálfun hans. Það er enda ekki nóg að geta lesið hratt og skýrt, ef skilningurinn á efninu er takmarkaður. Þeir sem lesa þurfa að skilja innihald efnisins og máta það við hugarheim sinn, umhverfi og fyrri reynslu til þess að öðlast þekkingu á inntaki þess.

Við lesum ekki lestursins vegna heldur vegna áhuga okkar á efninu. Því eru skemmtilegar bækur og hæfilega flóknir textar ein besta hvatningin fyrir unga lesendur. Fyrir þau er hver texti tækifæri; hvort sem hann er í bók, á blaði eða á skjá. Það er fagnaðarefni að vísbendingar eru um aukna útgáfu bóka á Íslandi og herma tölur að aukningin sé 47% milli ára í flokki skáldverka fyrir börn samkv. tölfræði Bókatíðinda. Þá benda nýjustu kannanir til þess að landsmenn lesi nú að meðaltali meira en fyrir tveimur árum.

Merking málsháttarins hér í upphafi er að góður vilji skili sigri. Við vinnum að því nú í góðu samstarfi að efla móðurmálið og tryggja með fjölbreyttum leiðum að íslenskan okkar þróist áfram og sé notuð á öllum sviðum þjóðlífsins. Margar þeirra leiða tengjast menntakerfinu með beinum hætti, s.s. aðgerðir sem miða að því að bæta læsi og lesskilning en einnig því að styðja betur við íslenskukennslu nýrra málnotenda og stuðla að jákvæðri umræðu og fræðslu í samfélaginu um fjölbreytileika tungumálsins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira