Hoppa yfir valmynd
09.05.2022 10:52 Innviðaráðuneytið

Ávarp á Samorkuþingi

Ávarp flutt á Samorkuþingi – 9. maí 2022

Góðir gestir.

Það er mér sannur heiður að fá að ávarpa ykkur öll hér á fjölmennu Samorkuþingi hér í Hofi á Akureyri. Það er líka tímabært að óska ykkur til hamingju með 25 ára afmælið um árið – og aldrei of seint að fagna því. Á móti kemur að þið verðið skyndilega orðin þrítug áður en þið vitið af.

Dagskráin á þinginu er afskaplega metnaðarfull og glæsileg og það er virkilega ánægjulegt að vera gestur ykkar og fá að fylgjast aðeins með þinginu. 

Ísland verði leiðandi á sviði orkunýtingar

Hin fjölmörgu orku- og veitufyrirtæki um land allt eru mikilvægir innviðir og mannauðurinn í þeim gegna ríku hlutverki fyrir samfélagið. Það er gríðarlega orka í landinu og mikil orka í mannauðinum sem vinnur við að beisla hana. Auðlindin færir okkur mikil auðæfi sem erum þakklát fyrir en megum heldur ekki taka sem gefna. 

Til framtíðar þurfum við að tryggja að nægt framboð sé til staðar grænni orku fyrir heimilin í landinu, atvinnulífið og orkuskiptin sem framundan eru, ásamt framleiðslu á rafeldsneyti.

Ísland hefur öll tækifæri til þess að verða leiðandi á sviði skynsamlegrar orkunýtingar og grænum lausnum sem leysa munu jarðefnaeldsneyti af hólmi. Með því móti náum við einnig metnaðarfullum markmiðum okkar um kolefnishlutleysi og fullum orkuskiptum.

Orkumál í víðu samhengi

Samstarf stjórnarflokkanna hefur nú staðið á fimmta ár. Þegar við endurnýjuðum samstarfið í vetur settum við fram mjög skýr markmið á sviði orkumála, ekki síst í tengslum við loftslagsmál og orkuskipti. Þetta eru málaflokkar sem gríðarlega þýðingarmiklir fyrir samfélagið og því mikilvægt að ná breiðri samstöðu um aðgerðir. 

Í stjórnarsáttmálanum er kveðið skýrt á um þetta: Markmiðið er að tryggja nýtingu orkuauðlinda með hagkvæmum og sjálfbærum hætti. Við ætlum að ljúka við þriðja áfanga rammaáætlunar og fjölga kostum í biðflokki. Samhliða verða lög um verndar- og orkunýtingaráætlun endurskoðuð frá grunni. 

Við stefnum einnig að því að setja lög um nýtingu vindorku í því augnamiði að einfalda uppbyggingu vindorkuvera til framleiðslu á grænni orku. Áhersla verður lögð á byggja vindorkuver á afmörkuðum svæðum nærri tengivirkjum og flutningslínum svo hægt sé að tryggja afhendingaröryggi. Það er afskaplega þýðingarmikið að breið sátt ríki um uppbyggingu vindorkuvera og horft verði til sjónrænna áhrifa, dýralífs og náttúru. 

Þá er einnig rétt að geta þess að í stjórnarsáttmálanum er stefnt að því að stjórnvöld beiti fyrir stórátaki í samvinnu við sveitarfélög í frárennslismálum þannig að þau standist ítrustu kröfur náttúruverndar um allt land eigi síðar en 2028.

Flutnings- og dreifikerfi raforku í landinu

Það eru rúm tvö ár síðan mikið óveður gekk yfir landið, einkum norðanvert, og hafði í för með sér verulegt tjón á mannvirkjum, ekki síst raflínum. Þegar í stað var lagt í mikla fjárfestingu í innviðum raforkukerfisins og sömuleiðis í varaafli í fjarskiptakerfinu. Þessir innviðir hafa staðist öll próf það sem af er vond veður. Það er ánægjulegt og sýnir að rétt skref hafa verið stigin á síðustu misserum.

Við ætlum þó ekki að láta staðar numið. Við vitum að nauðsynlegt er að stórefla innviði flutnings- og dreifikerfi raforku í landinu til lengri tíma. Við þurfum að tengja betur lykilsvæði á landinu og tryggja afhendingaröryggi raforku um land allt. 

Í því skyni er mikilvægt að hraða eins og kostur er stjórnsýslumeðferð ákvarðana sem tengjast línulögnum. Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp að breytingu á skipulagslögum sem ætlað er að einfalda skipulags- og leyfisveitingaferli vegna framkvæmda í flutningskerfi raforku. Frumvarpið byggist á tillögum starfshóps sem skipaður var til að fjalla sérstaklega um þetta álitamál í tengslum við viðameiri vinnu átakshóps í kjölfar fárviðrisins í desember 2019. Frumvarpið var fyrst lagt fram af umhverfis- og auðlindaráðherra á 151. löggjafarþingi en það kom nú í minn hlut að leggja það fram að nýju eftir að skipulagsmál færðust yfir til innviðaráðuneytisins.

Ég tel þessar breytingar á stjórnsýslunni bæði tímabærar og nauðsynlegar. Athuganir starfshópsins leiddu í ljós að töluverðar tafir hafi orðið á síðustu árum í undirbúningsferli framkvæmda við flutningskerfi raforku. Það er því til mikils að vinna. Ná breiðri sátt um að þessi verkefni fái skýrari farveg en áfram gætt að faglegri meðferð allra mála. 

Framkvæmdir í meginflutningskerfi raforku eru umfangsmiklar og liggja gjarnan um mörg sveitarfélög. Gera verður ráð fyrir að slíkar framkvæmdir útheimti ítarlega umfjöllun í skipulagi og umhverfismati. Þá er það von okkar að skýrari stefnumótun, til að mynda með endurskoðaðri landsskipulagsstefnu verði til þess fallin að minnka líkur á ágreiningi og vafamálum í undirbúningsferli framkvæmda.

Eins og áður segir heyra skipulagsmál nú undir innviðaráðuneytið ásamt húsnæðis- og mannvirkjamálum. Nýir málaflokkar munu tvinnast saman við sveitarstjórnarmál, byggðamál og samgöngumál en verður stefnur og áætlanir í þessum málaflokkum samhæfðar. Framundan er að leggja fram nýja húsnæðisstefnu til fimmtán ára og að endurskoða landsskipulagsstefnu.

Loftslagsmálin verkefni okkar allra

Eitt mikilvægasta verkefni okkar um þessar mundir – er baráttan við loftslagsbreytingar af mannavöldum. Og sú barátta fer fram á öllum sviðum samfélagsins. Loftslagsmálin er verkefni okkar allra, áskorun sem allir þurfa að taka og gera ráð fyrir í atvinnulífinu og daglegu lífi.

Ríkisstjórnin hefur lagt fram mjög metnaðarfulla áætlun í loftslagsmálum með raunhæfum aðgerðum til að standa við skuldbindingar samkvæmt Parísarsamningnum, sem eru í raun skuldbindingar gagnvart okkur sjálfum. 

Við höfum sett okkur sjálfstætt landsmarkmið um 55% samdrátt á losun á beinni ábyrgð Íslands fyrir 2030 miðað við árið 2005. Lögð verður áhersla á markvissar og metnaðarfullar aðgerðir til að draga úr losun vegna landnotkunar og hraða orkuskiptum á öllum sviðum. Markmiðið er að Ísland nái kolefnishlutleysi og fullum orkuskiptum eigi síðar en árið 2040 og verði þá óháð jarðefnaeldsneyti fyrst ríkja.

Loftslagsáætlunin var fyrst lögð fram árið 2020 og var sú metnaðarfyllsta sem íslensk stjórnvöld hafa sett fram. Frá þeim tíma höfum við heldur gefið í enda full ástæða til. Aðgerðirnar í áætluninni eru 50 talsins - vinna hafin við þær allar og eru 47 þeirra komnar vel á veg eða í framkvæmd. Hægt er að fylgjast með því hvernig gengur á vef Stjórnarráðsins.

Það er lykilatriði að unnið er að loftslagsmálum hjá öllum ráðuneytum og aðgerðirnar skiptast á milli þeirra. Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið gegnir þó vitanlega afar mikilvægu hlutverki með stórar aðgerðir og við samræma og fylgja eftir loftslagsáætluninni.

Einn allra stærsta tækifæri okkar Íslendingar í baráttunni við loftslagsvána er að vera í forystu í orkuskiptum á alþjóðavísu. Þar byggjum við bæði á þekkingu og reynslu okkar og ríkum auðlindum. Orkuskiptin geta ekki aðeins orðið lykill að kolefnishlutleysi heldur hreinlega styrkt efnahagslega stöðu þjóðarinnar.

Meðal verkefna ríkisstjórnarinnar verður að leggja fram þingsályktun um orkuskipti og útfösun jarðefnaeldsneytis, þar sem settar verða fram aðgerðir og grunnur lagður að því að fullum orkuskiptum verði náð eigi síðar en 2040 og Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti fyrst þjóða.

Orkuskipti á sviði samgangna

Orkuskipti í samgöngum er ein megináhersla í aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum Innviðaráðuneytið leiðir stefnumótun á sviði orkuskipta í samgöngum og mikilvægt er að samhæfa við aðrar áætlanir ráðuneytisins – samgönguáætlun, byggðaáætlun, húsnæðisáætlun sem er í smíðum og skipulagsáætlun.

Áætlað er að 1,5 milljarði króna verði varið á fimm ára tímabili aðgerðaáætlunar samgönguáætlunar til uppbyggingar innviða fyrir virka ferðamáta, rafvæðingu hafna, orkuskipta í ferjum og fleiri nauðsynlegra aðgerða í orkuskiptum hér á landi.

Mikil tímamót urðu til að mynda þegar nýr Herjólfur hóf siglingar árið 2019 en hann mun að fullu geta gengið fyrir umhverfisvænni orku.

Og ef við víkjum að fluginu, má geta þess að nú er að unnið að því að móta heildarstefnu og aðgerðaráætlun um orkuskipti í flugi svo að Ísland verði í fremstu röð á því sviði. Stefnt er að því að setja markmið um að byrjað verði að nota umhverfisvæna orkugjafa í innanlandsflugi fyrir árið 2030 og styðja nýsköpun og prófanir á svipi orkuskipta í flugi.

Þá hefur verið unnið markvisst að rannsóknum og undirbúningi þess að rækta orkujurtir og framleiða lífdísil sem nota má sem íblöndun í jarðdísilolíu fyrir skip, báta og ferjur – og draga þannig úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Á síðasta kjörtímabili var ráðist mikið átak í að fjölga rafhleðslustöðvum við þjóðveginn og átak um að stuðla að orkuskiptum hjá bílaleigum. Áfram verður stutt við slík verkefni og styrkjum úthlutað úr Orkusjóði, sem ráðherra umhverfis-, orku og loftslagsmála veitir. Á þessu ári hafa verið auglýstir styrkir til orkuskipta allt að 900 milljónum kr. Það er umtalsverð hækkun frá síðasta ári á undan þegar styrkupphæðir námu 470 milljónum kr. 

Loks stöndum við frammi fyrir því stóra verkefni að móta nýtt framtíðartekjuöflunarkerfi ríkissjóðs vegna umferðar og orkuskipta en það verður unnið í samvinnu við fjármála- og efnahagsráðuneytið.

Næstu ár og áratugir munu færa okkur spennandi tækifæri í því að byggja upp atvinnu í kringum hreina orku. Þau tækifæri þurfum við að íhuga vel og vandlega. Við megum ekki ana að neinu en við megum ekki heldur sitja aðgerðarlaus og láta tækifærin fram hjá okkur fara. Við getum orðið leiðandi í því að framleiða rafeldsneyti sem mun hjálpa okkur síðustu metrana til orkusjálfstæðis. Við munum þurfa að knýja skipaflota okkar, þungavinnuvélar og flugflota með rafeldsneyti og þá er mikilvægt að við byggjum upp þekkingu og tækni til að búa það til hér á landi. Útflutningur á rafeldsneyti gæti orðið nauðsynlegur til þess að skapa stærðarhagkvæmni í framleiðslunni – og um leið orðið mikilvægur grænn iðnaður sem hjálpar til að leysa loftslagsvandann. Á slíkum iðnaði munum við öll græða – í sátt við náttúru okkar. Slíkur iðnaður gæti orðið mikil lyftistöng fyrir byggðir vítt og breitt um landið. Yfir 100 milljarða gjaldeyrissparnaður er ávísun á veruleg lífsgæði samhliða ávinningnum um hreint loft – og engan útblástur kolefnis.

Lokaorð

Það hefur verið áhugavert að sjá þróunina í umræðunni um loftslagsmál síðustu árin. Um tíma hafði ég áhyggjur af því að umræðan væri svo yfirþyrmandi að hún drægi úr okkur alla von og þar með allan kraft til þess að finna leiðir til að mæta vandanum. Við erum komin á betri stað hvað það varðar að við erum nú á öllum vígstöðvum að vinna að lausnum, hvort heldur í vísindasamfélaginu, iðnaði, landbúnaði, viðskiptum eða í stjórnmálum. Það er mikils virði að missa ekki vonina. Aðeins með von í hjarta getum við tekið skrefin fram á við.

Samfélagið er í stöðugri þróun. Mikilvægt er að halda áfram að byggja upp öfluga og áreiðanlega innviði fyrir samfélagið, byggðir landsins og atvinnulífið. Að við gerum það í sátt við náttúruna og fólkið í landinu til að bæta lífskjör í landinu.

Ég þakka ykkur kærlega fyrir áheyrnina og óska ykkur aftur til hamingju með afmælið og óska ykkur velgengni í þingstörfum og góðar skemmtunar í viðburðum í tilefni af þinginu.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum