Hoppa yfir valmynd
30. janúar 2019 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Efling sveitarstjórnarstigsins

Greinin var birt í Morgunblaðinu, miðvikudaginn 30. janúar 2019

Ég átti fyrir skemmstu ánægjulegan fund með fulltrúum fjögurra sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu sem ræða nú sameiningu sveitarfélaganna. Þar var ég upplýstur um stöðu viðræðna og þá vinnu sem er í gangi við að greina áhrifin ef af sameiningu yrði og þeim áskorunum sem takast þyrfti á við í náinni framtíð. Íbúum sveitarfélaganna hefur fækkað á umliðnum árum, hefðbundin landbúnaður dregist saman og atvinnulíf er fremur einhæft í samburði við aðra landshluta. Þá þarf að bæta samgöngur innan héraðs, en almennt má segja að staða annarra innviða er góð.

Á fundinum var einnig rætt um þau fjölmörgu tækifæri sem eru til staðar í héraðinu og að með samstilltu átaki heimamanna og stjórnvalda væri hægt að snúa þessari þróun við. Uppbygging gagnavers á Blönduósi er nærtækasta dæmið um það auk margvíslegrar uppbyggingar sem átt hefur sér stað í tengslum við ferðaþjónustu.

Styrkur kemur með stærð
Það verður að sjálfsögðu íbúanna sjálfra að ákveða hvort af sameiningu sveitarfélaganna fjögurra verður eða ekki. Það er sjálfsagt að sveitarfélögin taki sér góðan tíma til undirbúnings og kynningu meðal íbúa.

Ég hef þá bjargföstu skoðun að almennt hafi stærri sveitarfélög meiri burði til að sinna lögbundinni þjónustu við íbúanna. Þau eru betur í stakk búin til að takast á við hvers konar breytingar í umhverfi sínu, svo sem á sviði tækni og til að berjast fyrir mikilvægum hagsmunamálum sveitarfélagsins. Mörg sveitarfélög hér á landi eru ansi fámenn og það er umhugsunarefni. Verkefnisstjórn um stöðu og framtíð íslenskra sveitarfélaga, sem skilaði áliti sínu og tillögum árið 2017, taldi að of mikill tími og fjármunir færu í rekstur sveitarfélaga og of lítið væri aflögu til stefnumótunar og til að móta framtíðarsýn fyrir sveitarfélögin. Núverandi sveitarstjórnarskipan væri að hluta til haldið við með samstarfi á milli sveitarfélaga og byggðasamlögum.

Stefnumótun fyrir sveitarstjórnarstigið
Ég hef nýlega skipað starfshóp sem hefur það hlutverk að vinna stefnumótandi áætlun um málefni sveitarfélaga, sem meðal annars er ætlað samræma stefnumótun ríkis og sveitarfélaga með heildarhagsmuni sveitarstjórnarstigsins að leiðarljósi. Stefnumótun ríkisins á þessu sviði er nýmæli og felur í sér að gerð langtímaáætlunar í takt við aðra stefnumótun og áætlanagerð á verksviði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, þ.e. samgönguáætlun, fjarskiptaáætlun og byggðaáætlun og sóknaráætlanir.

Vinnan hefst formlega í þessari viku þegar starfshópurinn kemur saman í fyrsta skipti. Meðal þátta sem stefnumótunin mun taka til er stærð og geta sveitarfélaganna til að rísa undir lögbundinni þjónustu og vera öflugur málsvari íbúa sinna. Þá hef ég áður lýst yfir að stórauka þurfi fjárhagslegan stuðning Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga við sameiningar. Mikilvægt er að nýsameinuð sveitarfélög hafi gott fjárhagsleg svigrúm til að vinna að nauðsynlegri endurskipulagningu á stjórnsýslu og þjónustu í samræmi við forsendur sameiningar og hafi svigrúm til að styðja við nýsköpun. Þá er mikilvægt að svigrúm sé til lækkunar skulda í kjölfar sameiningar, þar sem það á við.

Samstaða um framtíðina
Ég bind miklar vonir við starfshópinn og þá vinnu sem framundan er, sem meðal annars felur í sér víðtækt og gott samráð um allt land. Það er mín von og trú að afurðin verði áætlun sem samstaða er um og stuðli markvisst að eflingu sveitarfélaganna á Íslandi til hagsbóta fyrir íbúa þeirra og landið allt.

Þar sem tilefni greinarinnar var ánægjuleg heimsókn sveitarstjórnarmanna úr Austur-Húnavatnssýslu er að lokum gaman að segja frá því, að formaður starfshópsins er Austur-Húnvetningurinn Valgarður Hilmarsson, fyrrverandi oddviti og sveitarstjórnarmaður á Blönduósi til langs tíma og nú síðast bæjarstjóri á Blönduósi.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira