Hoppa yfir valmynd
11. apríl 2019 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Öflug byggðastefna – horfum til tækifæranna

Ávarp flutt á ársfundi Byggðastofnunar 11. apríl 2019

Kæru fundargestir.

Það er ánægjulegt að ávarpa ársfund Byggðastofnunar sem haldinn er hér á Siglufirði – í Fjallabyggð.

Samfélagið hérna á utanverðum Tröllaskaga hefur tekist á við ýmsar áskoranir í gegnum tíðina hvað varðar byggða- og atvinnumál.

Mikill uppgangur í sjávarútvegi um og upp úr miðri síðustu öld færði samfélaginu mikil verðmæti og uppgangur var á öllum sviðum, næga atvinnu var að hafa og fólki fjölgaði. Siglufjörður var sennilega fimmti stærsti kaupstaðurinn á landinu um 1950 og Ólafsfjörður þá vaxandi bær, sem fékk kaupstaðarréttindi um svipað leyti.

Breytingar í vistkerfi hafsins höfðu síðan mikil áhrif á þróun mála, síldin hvarf og þó bolfiskveiðar hafi kannski um tíma haft mikla þýðingu fyrir svæðið hérna, þá kom það ekki í staðinn fyrir hinn mikla síldarafla fyrri ára.

Breytingar í sjávarútvegi almennt hafa einnig haft sín áhrif hér sem annarsstaðar. Tæknivæðing í veiðum og vinnslu hefur leitt af sér færri störf í sjávarútvegi, upptaka kvótakerfis og nákvæmari stýring á veiðum hefur takmarkað aðgengi að sjávarauðlindum, og svo mætti halda áfram að telja.

Þannig að hér hafa menn gengið í gengum breytingar sem ekki eru allar jákvæðar í byggðalegu tilliti.  Því er vel til fundið að ársfundur Byggðastofnunar sé haldinn hér – sem gefur okkur líka tækifæri til að rifa þetta upp þegar við horfum til framtíðar.

Við þurfum í því sambandi að líta til tækifæranna þegar við veltum fyrir okkur áskorunum sem við stöndum frammi fyrir á hverjum tíma. Hér eru blómlegar byggðir, sem við viljum varðveita og efla enn frekar – og hér eru tækifærin. Líftækniiðnaður og ferðaþjónusta skapa ný tækifæri – og mikilvægt er að stuðla að nýsköpun á sem flestum sviðum.

Samgöngumálin

Það eru ýmsar leiðir til að hafa góð áhrif á þróun byggðarlaga um allt land – og það er ríkur vilji þess sem hér stendur og ríkisstjórnarinnar allar, að nýta þær leiðir sem tiltækar eru til jákvæðrar byggðaþróunar.

Ein leið er t.d. á sviði samgöngumála. Við sjáum það ljóslifandi hér hversu mikil og varanleg áhrif jarðgöng á Tröllaskaga hafa haft fyrir allt svæðið. Hver væri staða Siglufjarðar og Ólafsfjarðar ef ekki hefði verið ráðist í það stórkostlega mannvirki sem Héðinsfjarðargöng eru? Hver eru áhrifin?

Niðurstöður sjö ára rannsóknar á samfélagslegum áhrifum Héðinsfjarðarganganna, sem Þóroddur Bjarnason kynnti fyrir nokkrum árum síðan, sýna að efnahagslíf í Fjallabyggð hefur eflst og aukin ánægja er með vöruverð og fjölbreytni í verslun. Þar kom líka fram að Siglufjörður – og væntanlega þá einnig Ólafsfjörður – er orðinn hluti ferðamannasvæðis Eyjafjarðar og áfangastaður ferðamanna milli Akureyrar og höfuðborgarsvæðisins.

Bættar samgöngur skipta því veigamiklu máli þegar við viljum hafa jákvæð áhrif á byggðaþróun í dag.

Þess vegna er það ánægjulegt að geta sagt frá því eitt af markmiðum nýrrar samgönguáætlunar er markmið um jákvæða byggðaþróun. Við viljum stefna að því að auka lífsgæði um land allt með bættum samgöngum og stuðla að þeim grunni sem nauðsynlegur er til að efla fjölbreytta atvinnu og bæta samkeppnishæfni, svo sem með betri aðgangi að þjónustu.

Í samgönguáætluninni felast einnig margþætt tímamót – ég nefni hér nokkur:

Orkuskipti og skyldur í loftslagsmálum – stórt mál fyrir allt okkar samfélag.

Tímamótasamkomulag við SSH um framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu og um uppbyggingu almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Við erum að tala um að koma okkur út úr skotgröfunum dreifbýli – þéttbýli. Hér verða allir að geta unnið saman.

Niðurgreiðsla á flugfargjöldum fyrir íbúa á landsbyggðinni – hin svokallaða skoska leið sem beðið hefur verið eftir – er mikið jafnréttismál. Niðurgreiðsla á flugfargjöldum íbúa á landsbyggðum eykur möguleika fólks á að sækja þjónustu sem aðeins er hægt að fá á höfuðborgarsvæðinu.

Rekstur varaflugvalla í millilandaflugi færður undir Isavia er stórt byggðamál því að það verður að horfa á þetta kerfi í heild sinni og vonandi tekst okkur í því sambandi að fjölga flughliðum inn í landið – m.a. inn á þetta svæði hér.

Þannig gæti ég haldið áfram og leiðarljósið er umferðaröryggi – við erum að tala um STÓRT STÖKK í umferðaröryggismálum og af því er ég stoltur.

Og við erum ekki bara að tala um orð – heldur athafnir.

Það sést vel í fjármálaáætlun fyrir árin 2020 til 2024, sem nú er til umfjöllunar á Alþingi, en þar er dregin fram sú staðreynd að framlög til samgönguinnviða hafa ekki verið hærri að raunvirði frá árinu 1998, að undanskildum árunum 2008 og 2009.

Árið 2018 var fjórum milljörðum króna bætt við málaflokkinn til viðhaldsframkvæmda í samgöngum. Frá því ríkisstjórnin tók við hefur verið ákveðið að setja um 40 milljarða króna aukalega í samgöngur. Á tímabili fjármálaáætlunar er stefnt að fimm milljarða aukningu til samgöngumála á ári.

Fjárfesting í samgöngumannvirkjum mun því nema ríflega 120 ma.kr. á tímabili fjármálaáætlunar! Þessi fjárfesting kemur líka á góðum tíma þegar svo kann að vera, að eitthvað sé að hægjast um í hagkerfinu hjá okkur.

Meðal framkvæmda sem unnið verður að eru Vestfjarðavegur um Gufudalssveit, tvöföldun Reykjanesbrautar að Reykjanesbæ, breikkun Suðurlandsvegar að Selfossi og Vesturlandsvegar um Kjalarnes. Þá verður lokið við gerð Dýrafjarðagangna og Dettifossveg.

Fleiri verkefni væri hægt að telja upp, en allt er þetta tíundað í nýsamþykktri samgönguáætlun. Hana þarf hins vegar uppfæra með haustinu í ljósi nýju fjármálaáætlunarinnar. Svigrúmið hefur verið aukið og það verður nýtt til að hraða framkvæmdum á stofnbrautum sem þola ekki bið, m.a. vegna óásættanlegs umferðaröryggis.

Ég tel einnig að byggðaleg áhrif þessarar metnaðarfullu samgönguáætlunar séu einnig talsverð og því ber að fagna.

Byggðaáætlun

Ágæta samkoma.

Það er einmitt um það bil ár liðið frá því að tillaga til þingsályktunar um stefnumarkandi byggðaáætlun var lögð fyrir Alþingi.

Áætlunin var síðan samþykkt í júní síðastliðinn eftir fína umfjöllun Alþingis.

Ég hef áður sagt að það mikilvægasta við framkvæmd hennar sé tryggja samþættingu byggðamála við aðra málaflokka og tryggja að byggðagleraugun séu á lofti alltaf og alls staðar.

Ég held að okkur hafi tekist ágætlega til hvað það varðar. Þar gegnir stýrihópur stjórnarráðsins lykilhlutverki en hann tryggir aðkomu allra ráðuneyta að stefnumörkuninni og einstökum aðgerðum.

Þá skiptir það miklu máli að Sambands íslenskra sveitarfélaga á bæði fulltrúa sinn í stýrihópnum og nú í nýskipuðu byggðamálaráði – þannig er tryggt að hitt stjórnsýslustigið í landinu, sveitarfélögin, komi með beinum hætti að mótun og framkvæmd byggðaáætlunar.

Það var farsælt skref að færa byggðamálin til ráðuneytis sveitarstjórnarmála. Það eitt og sér hefur skapað tækifæri til að horfa heildstætt yfir sviðið – eins má segja að breytingin hafi fært
lykilpersónur og leikendur fyrir þessa málaflokka betur saman.

Náið og reglubundið samband ráðuneytisins við fulltrúa landshlutasamtaka sveitarfélaga skiptir þar einnig máli.

Og á þessu tæpa ári sem liðið er frá samþykkt byggðaáætlunar hefur margt gerst – við höfum ekki setið auðum höndum hér frekar en á öðrum sviðum.

Af 54 aðgerðum byggðaáætlunar er þremur þegar lokið og 36 aðgerðir eru komnar í framkvæmd. Aðeins 15 aðgerðir eru ekki enn komnar í framkvæmd eða okkur skortir upplýsingar um.

Það sem af er hefur verið úthlutað eða ráðstafað á annan milljarð króna til framkvæmdaraðila. Þar af hefur um 460 milljónum króna verið ráðstafað til verkefna sem samkeppni hefur verið um, til sértækra verkefna sóknaráætlana, til verslunar í dreifbýli og fjarvinnslustöðva. Alls hafa 26 verkefni verið styrkt á þann hátt.

Það er líka ánægjulegt að sjá að byggðaáætlun er að koma við sögu í mörgum málaflokkum og þannig næst góð samþætting við stefnur og áherslur ríkisins á mörgum sviðum. Um 100 m.kr. á ári hafa t.d. runnið í verkefnið Íslands ljóstengt til að styðja við byggðarlög sem standa höllum fæti í samkeppni vegna mikils kostnaðar. Þegar því verkefni lýkur á næsta ári mun sambærileg fjárhæð renna til þess að vinna að þrífösun rafmagns í hinum dreifðu byggðum landsins.

Þannig að ég er ánægður með framkvæmdina eins og hún hefur gengið fyrir sig, allir hlutaðeigandi hafa staðið sig vel og færi ég öllum bestu þakkir fyrir.

Ég mun gera Alþingi grein fyrir framkvæmdinni með skýrslu næsta haust, en einn þáttur í því er að draga fram þá mælikvarða sem innbyggðir eru í áætlunina og ætlað er að mæta árangurinn.

Byggðamálaráð

Annað nýmæli sem ég tel rétt að gera grein fyrir hér, sem komið hefur til frá því við hittumst á ársfundi fyrir ári síðan, en það er Byggðamálaráð. Lögbundið hlutverk þess er að gera tillögu til ráðherra að stefnumótandi byggðaáætlun til 15 ára í senn og aðgerðaráætlun til fimm ára, sem endurskoða skal á þriggja ára fresti.

Með tilkomu þess og þeim breytingum sem gerðar voru á lögum um byggðaáætlun og sóknaráætlanir landshluta síðastliðið haust er verið að aðlaga vinnubrögð og aðferðafræði við gerð áætlana samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins að nýrri hugsun samhæfðrar og samþættrar stefnumótunar og áætlanagerðar og hins vegar að samhæfa stefnumótun og áætlanagerð við lög um opinber fjármál, nr. 123/2015.

Við undirbúning byggðaáætlunar á byggðamálaráð að hafa samráð við öll ráðuneyti á vettvangi stýrihóps Stjórnarráðsins um byggðamál og Samband íslenskra sveitarfélaga og sveitarfélögin.

Byggðamálaráð er skipað tveimur fulltrúum samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra þeim Ágústi Bjarna Garðarssyni, formanni ráðsins og Ingveldi Ásu Konráðsdóttur, Karli Björnssyni, fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga, Aðalsteini Þorsteinssyni, forstjóra Byggðastofnunar og Hönnu Dóru Hólm Másdóttur, fulltrúa skrifstofu sveitarfélaga og byggðamála í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu. Verkefnisstjóri ráðsins er Hólmfríður Sveinsdóttir, sérfræðingur á sömu skrifstofu.

Þannig að ráðið er að mínu mati vel skipað og vænti ég góðs af störfum þeirra. Verkefni þeirra verður síðan að móta nýja stefnu á þessu sviði og aðgerðaráætlun innan tveggja ára.

Sóknaráætlanir

Ágætu gestir.

Ríkisstjórnin er meðvituð um þýðingu virkrar byggðastefnu fyrir landið. Við teljum að mikil verðmæti felist í því að landið sé í blómlegri byggð og að landsmenn hafi jafnan aðgang að þjónustu, atvinnutækifærum og lífskjörum um land allt.

Sóknaráætlanir landshlutanna eru mikilvægt tæki til að reka byggðastefnu á forsendum heimamanna. Við höfum verið að styrkja þær með auknum fjárveitingum og viljum leita leiða til að gera það enn frekar.

Verklagið sem sóknaráætlanir byggja á hefur reynst vel og almenn ánægja er með það, bæði meðal ríkis og sveitarfélaga, enda færir það aukna ábyrgð og forræði á byggðamálum heim í hérað. Þá felur sóknaráætlunarverkefnið í sér mikið og verðmætt samstarf þvert á ráðuneyti, milli sveitarfélaga og síðast en ekki síst milli ríkis og sveitarfélaga. Stýrihópur Stjórnarráðsins um byggðamál fer með stórt og mikilvægt hlutverk í þessu nýja verklagi og vil ég þakka fulltrúum í stýrihópnum fyrir vel unnin störf.

Grunnframlög til gildandi samninga koma frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu og mennta- og menningarmálaráðuneytinu, samtals 730,7 m.kr. á ári. Heimamenn í hverjum landshluta ákveða svo sjálfir til hvaða verkefna framlögunum er varið.

Þetta fyrirkomulag hefur gefið góða raun og nú þegar nýir samningar eru í burðarliðnum er tækifæri fyrir fleiri ráðuneyti að koma að sóknaráætlunum með beinum hætti.

Ég hef óskað eftir því við stýrihóp stjórnarráðsins að þar verði reifaðar hugmyndir um verkefni sem mögulega væri hægt að færa til sóknaráætlana landshluta – líkt og menntamálaráðuneytið gerir nú varðandi fjárstuðning á sviði menningarmála. Ég hyggst nýta þá reifun til að ræða við félaga mína í ríkisstjórn og vonast til að út úr því samtali komi tillögur um frekari sókn á þessu sviði.

Störf án staðsetningar

Að endingu, ágætu fundargestir, vil ég nefna þau áform ríkisstjórnarinnar að fela ráðuneytum og stofnunum að skilgreina störf og auglýsa þau án staðsetningar eins og kostur er. Því miður hefur samræmd nálgun innan Stjórnarráðsins hvað þetta stefnumál varðar ekki náð því flugi sem æskilegt væri, en ég bind vonir um að það gerist fljótlega.

Markmið byggðaáætlunar eru að 10% allra starfa ráðuneyta og stofnana verði skilgreind sem störf án staðsetningar í árslok 2014.

Við í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu höfum þegar lagt okkar á vogarskálarnar og tekið okkar fyrsta skef því nú nýlega auglýstum við fyrstu stöðuna sem er skilgreind án staðsetningar. Vænti ég þess að fljótlega fylgi önnur ráðuneyti og stofnanir í kjölfarið

Eins er hægt að færa störf út á land með beinum hætti.

Ég er hjartanlega sammála bæjarráði Fjallabyggðar þegar það í erindi sínu til mín í desember síðastliðinn bendir á að flutningur ríkisstofnana út á land sé ein leið til að ná markmiði um að styrkja byggð í landinu. Það benti ennfremur á að það geti varla verið lögmál að sem flestar stofnanir séu í 101 Reykjavík og að nútíma tækni í samskiptum og gagnaflutningum hljóti að breyta þessu.

Ég held að við getum öll verið sammála – vinnum áfram að því að auka fjölbreytni starfa um allt land. Horfum til tækifæranna – nýtum þau.

Stjórn Byggðastofnunar

Ágætu þingfulltrúar.

Verkefni mitt á þessum ársfundi er ekki síst að tilkynna um skipun nýrrar stjórnar Byggðastofnunar.

Ný stjórn er skipuð eftirtöldum aðilum:

 • Magnús Jónsson,
 • Halldóra Kristín Hauksdóttir
 • Sigríður Jóhannesdóttir
 • Gunnar Þorgeirsson
 • Karl Björnsson
 • María Hjálmarsdóttir
 • Gunnar Þór Sigbjörnsson

Varamenn eru:

 • Bergur Elías Ágústsson
 • Herdís Þórðardóttir
 • Þórey Edda Elísdóttir
 • Eiríkur Blöndal
 • Anna Guðrún Björnsdóttir
 • Oddný María Gunnarsdóttir
 • Halldór Gunnarsson

Ég óska þeim velfarnaðar í sínum störfum.

Jafnframt vil ég nota tækifærið og þakka fráfarandi stjórn fyrir sín góðu störf í þágu byggðamála í landinu. Sérstaklega færi ég Illuga Gunnarssyni mínar bestu þakkir, en hann lætur nú af störfum eftir tveggja ára formennskutíð. Takk kærlega fyrir þitt framlag Illugi.

Og að endingu – kærar þakkir til starfsfólks Byggðastofnunar fyrir alla ykkar góðu vinnu.

Góðar stundir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira