Hoppa yfir valmynd
01. maí 2020 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Viðspyrna fyrir Austurland

Grein birt í Austurfrétt í byrjun maí 2020

Ríkisstjórnin kynnti í síðustu viku annan áfanga efnahagsaðgerða sinna undir yfirskriftinni Viðspyrna fyrir Ísland. Í fyrsta áfanga fyrir um mánuði síðan voru kynntar miklar fjárfestingar í samgöngum og byggðamálum til að vinna gegn samdrætti. Mikill einhugur er um að bregðast hratt við þeim usla sem heimsfaraldur kórónuveiru hefur valdið um allan heim. Áskorunin er tvíþætt, annars vegar hefur innlend eftirspurn dregist saman og hins vegar er algert frost í ferðaþjónustu á heimsvísu.

6,5 milljarðar aukalega í samgöngur á árinu

Til að sporna gegn samdrætti og minnka skaðann verða á þessu ári 6,5 milljarðar kr. settir aukalega í samgöngumál víðs vegar um landið. Stór hluti framkvæmdanna verða á Austurlandi og Norðurlandi svo svæðin verði enn betur í stakk búin til að taka á móti ferðamönnum þegar Covid-tímabilið er afstaðið. Stækkun flugstöðvar á Akureyri, flughlað á Akureyri og akbraut á Egilsstaðaflugvelli eru stærstu verkefnin. 

Gerðar verða nauðsynlegar endurbætur á Egilsstaðaflugvelli til að tryggja flugöryggi á Íslandi, efla varaflugvallarhlutverkið og auka virði og getu til aukinna umsvifa. Á Egilsstöðum verður hægt að taka á móti stærri og fleiri flugvélum sem gæti skapað atvinnu. 
Norðfjarðarflugvöllur mun með betri aðflugsljósum þjóna umdæmissjúkrahúsi Austurlands enn betur. Heimamenn og ríkið fjárfestu í umtalsverðum endurbótum á vellinum árin 2016 og 2017 og nú skapast tækifæri til að halda áfram og bæta ljósabúnað á vellinum. Þá mun tveimur ofanflóðaverkefnum einnig verða flýtt í Fjarðabyggð. 

Á Norðurlandi eru framkvæmdir við stækkun flugstöðvar á Akureyri á næsta leiti og samhliða verður flughlaðið stækkað. Mögulegt verður að afgreiða farþega í innanlands- og millilandaflugi samtímis og auka þannig samkeppnishæfni flugvallarins. Þá er mikil þörf á viðhaldi á flugvellinum á Þórshöfn sem mun bæta öryggi flugfarþega og skapa störf við framkvæmdina. Áætlað er að við flugvallaframkvæmdirnar verði til um 140 ársverk, í hönnunar- og verktakavinnu. 

Brimvarnargarðurinn á Bakkafirði verður síðan endurbyggður og sjóvarnir bættar víða um kjördæmið, m.a. brugðist við skemmdum í kjölfar veðra vetrarins.

Á Djúpavogi hefur fiskeldi vaxið fiskur um hrygg. Slátrun á eldisfiski er orðin umfangsmikil atvinnugrein og kemur þar að einhverju leyti í stað hefðbundins sjávarútvegs. Bættar hafnaraðstæður gera vaxandi starfsemina mögulega, og eru forsenda fyrir auknum umsvifum á Austfjörðum og tengdum störfum. Við framkvæmdirnar þarf 8-9 ársverk, þær voru að hluta til inn á áætlun, en verður nú flýtt.

Í tengslum við fjárfestingaátak ríkisstjórnarinnar mun einbreiðum brúm á Norðurlandi fækka um tvær, Köldukvíslargil og Skjálfandafljót og á Austurlandi verður brúin yfir Gilsá á Völlum tvöfölduð. Borgarfjarðarvegur frá Eiðum að Laufási fær yfirlögn, unnið er að vegbótum á leiðinni milli Þórshafnar og Bakkafjarðar, framkvæmdir við Dettifossveg eru á lokametrunum og auk endurbóta á malarvegum hingað og þangað. Hæst bera þó framkvæmdir við Fjarðarheiðargöng og Axarveg.

Þá fékk ljósleiðaravæðing í dreifbýli auka fjármagn og brátt sér fyrir endann á að þrífösun rafmagns. 

Að þessu sögðu eru fjöldamörg samgönguverkefni, stór og smá, í samgönguáætlun sem munu hjálpa að koma hjólum atvinnulífsins í gang að nýju. Fjárfestingarnar eru arðbærar, slá á atvinnuleysi, auka eftirspurn eftir vinnuafli og örva landsframleiðslu. Aðgerðirnar í fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar eru fjölbreyttar. Þær hefjast allar á þessu ári og miða að því að verja störf og efnahag heimilanna. Tími aukinna opinbera fjárfestinga er núna og mikilvægt að horfa björtum augum til framtíðar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira