Hoppa yfir valmynd
01. október 2020 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Uppbyggilegt samtal varðar leiðina áfram veginn

Ávarp flutt á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna 2020

Kæru ráðstefnugestir.

Fjármálaráðstefnan í ár er haldin  við óvenjulegar aðstæður. Við erum vön því að vera fleiri saman komin á Nordica en er í dag, en í staðinn erum við hvert um sig á heimavelli og nýtum tímann og aðstæður vel. 

Ég sakna þess vissulega að fá ekki að hitta ykkur í persónu og njóta samveru og uppbyggilegra samtala um málefni líðandi stundar – en í staðinn gerum við þetta svona í ár og vonum að það komi tímar og komi ráð sem leiði samfélagið okkar í eðlilegt horf.

En við erum líka lánsöm Íslendingar að hafa byggt upp á síðustu árum hágæða innviði á sviði fjarskipta. Þess vegna getum við nýtt  nútíma samskiptatækni til að halda öllu gangandi á tímum sem þessum, óháð því hvert verkefnið er eða hvar fólk er. Þetta hefði ekki verið hægt fyrir 10 árum síðan. 

Ísland ljóstengt er vel heppnað verkefni sem við getum verið stolt af. Okkur hefur tekist að tengja 99,9% íslenskra heimila og fyrirtækja hraðvirku neti og með því jafnað tækifæri allra landsmanna á svo mörgum sviðum. 

Ísland ljóstengt er nú að renna sitt skeið en á næsta ári úthlutar Fjarskiptasjóður í síðasta sinn á grundvelli verkefnisins. Um er að ræða sannkallað fyrirmyndarverkefni þar sem markmið þess hafa náðst á réttum tíma og innan fjárhagsáætlunar. 

Ég vil nefna hér sérstaklega vinnu sem miðar að því að nýta hluta af NATO-ljósleiðaraþráðum sem gætu stuðlað að sambærilegri uppbyggingu ljósleiðarakerfa í byggðakjörnum á landsbyggðinni, en það eru helst slíkir staðir sem þarf að huga að. Með eflingu samkeppni á landshring fjarskipta yrði  stuðlað að hraðari og hagkvæmari uppbyggingu í mörgum byggðakjörnum en ella. Þá myndi valkostum um þjónustuaðila sveitaneta líklega fjölga. Slíkt er þó bæði háð útfærslu og niðurstöðu útboðs á NATO-þráðum.

Verkefnið er síðan að hagnýta þessa tækni til hins ítrasta, og þar er fátt sem takmarkar. Hér, eins og víðar, er það fyrst og fremst hugmyndaauðgi, færni og vilji sem getur greitt götuna í nýsköpun og umbótum með starfræna tækni að vopni.

Fjármál hins opinbera á tímum heimsfaraldursins

Heimsfaraldurinn setur svo sannarlega  mark sitt á íslenskt samfélag og heiminn allan. Ferðamenn sjást hér varla í dag en voru á þriðju milljón á síðasta ári, fyrirtæki í öllum landshlutum glíma við rekstrarvanda, atvinnuleysi eykst og allt samkomuhald er úr skorðum. 
Okkur hefur þó tekist að sigla í gegnum þetta með skynsemi og ráðdeild. Sóttvarnaraðgerðir eru metnar eftir aðstæðum og reynt er að tryggja að við getum lifað sem best með veirunni. Við förum ekki hörðu leiðina og lokum öllu eða setjum á útgöngubann og göngum freklega fram gegn mannréttindum, né látum við reka á reiðanum með þeim afleiðingum að við missum fjölda fólks úr sjúkdómnum. 

Við höfum valið meðalveginn og þannig munum við vinna okkur út úr þessu.
Ríkisstjórnin hefur gripið til margvíslegra aðgerða til viðspyrnu og viðsnúnings fyrir íslenskt efnahagslíf og er stöðugt að meta þörf fyrir nýjar aðgerðir. Þannig verður það áfram. 

Samstarf ríkis og sveitarfélaga um fjárhagsleg áhrif heimsfaraldursins

Við áttum strax á fyrstu dögum faraldursins í nánu samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga um aðkomu sveitarfélaganna og viðbúnað allan. Samstarfið hefur m.a. miðað að því hvetja sveitarfélögin til að grípa til sambærilegra aðgerða og ríkið varðandi frestun gjalda, lækkun eða niðurfellingu þeirra eftir atvikum, auknar fjárfestingar og viðhaldsframkvæmdir. Margt jákvætt kom út úr því og sendi til dæmis sambandið frá sér áskorun til sveitarfélaga um að hrinda í framkvæmd hugmyndum og ábendingum þess um aðgerðir til viðspyrnu fyrir íslenskt atvinnulíf.

Við fengum líka margvíslegar ályktanir sendar og kröfur  um beinan fjárhagslegan og almennan stuðning ríkisins við sveitarfélögin. Sumt var málefnalegt og hægt að verða við, annað síður. Mín afstaða er sú að það hlýtur að vera leiðarljós hjá hinu opinbera að hjálpa hinum veiku í gegnum erfiðleikana en ekki setja þá á gjörgæslu sem eru við góða heilsu.
Ég átti líka fjarfund með formönnum og framkvæmdarstjórum landhlutasamtaka sveitarfélaga, Sambandi sveitarfélaga og Byggðastofnun í vor. Við áttum mjög gagnlegar umræður um verkefni ríkisstjórnar til viðnáms, verndar og viðspyrnu, auk þess sem áskoranir sveitarfélaganna vítt og breitt um landið voru ræddar.

Þannig hefur samtalið verið mikið og fjarskiptin stytt allar vegalengdir sem er afar mikilvægt ekki síst á tímum sem þessum.

Í raun er þetta þannig að ríkissjóður hefur tekið að sér að bera hitann og þungann af öllum mótvægisaðgerðum vegna áhrifa faraldursins og því verða áhrifin á fjárhag ríkissjóðs mikil. Fjármálaráðherra mun fara nánar yfir það með ykkur á morgun. Verkefnið var – og er – að styðja við heimilin og fyrirtækin í landinu og það hefur tekist á margan hátt vel, þótt enn sé gríðarmikið verk að vinna.

Flestar þessar aðgerðir ríkisins hafa haft bein eða óbein áhrif á fjármál sveitarfélaganna. Hlutabótaleiðin og öflugt atvinnuleysistryggingarkerfi hefur til dæmis án efa gert það að verkum að fallið í útsvarinu var minna en búast mátti við, enda tekur ríkið á sig jaðaráhrifin í tekjuskattskerfinu en sveitarfélögin fá útsvarið af fyrstu krónu sem ríkið tryggir. Endurgreiðsla á virðisaukaskatti til sveitarfélaga eða stofna þeirra gæti skilað um 2 milljörðum króna á tímabilinu, veitt var 600 m.kr. framlag til að styðja við lágtekjuheimili til að tryggja jöfn tækifæri barna til íþrótta og tómstundastarfs og svo mætti áfram telja.

Sérstöku framlagi var veitt til atvinnuskapandi verkefna á Suðurnesjum, í fimm sveitarfélögum á Suðurlandi og einu á Norðurlandi eystra. Samtals nam stuðningurinn 400 m.kr. en hann byggði á ágætri greiningu Byggðastofnunar á þeim sveitarfélögum og svæðum sem orðið höfðu fyrir einna mestum áhrifum af skyndilegu hruni ferðaþjónustunnar. 

Samtalið leiddi einnig til þess að fjármálareglum sveitarstjórnarlaga hefur verið vikið tímabundið til hliðar – eða til ársins 2023 – og sett var í lögin ákvæði sem heimilar sveitarfélögum að víkja tímabundið frá tilteknum ákvæðum laganna til að tryggja að sveitarstjórn sé starfhæf við neyðarástand og til að auðvelda ákvarðanatöku.

Þannig hefur gott samtal og samráð milli ríkis og sveitarfélaga leitt  til margs góðs fyrir sveitarfélögin, þó ekki sé hægt að verða við öllu. Mikilvægt er að forgangsraða stuðningi, almennar aðgerðir sem renna líka þangað þar sem þeirra er ekki þörf, skila engu gagni fyrir þjóðarbúið eða sveitarfélögin.

Greining á fjármálum sveitarfélaga

Varðandi fjármál sveitarfélaga almennt þá komumst við að þeirri sameiginlegu niðurstöðu að mikilvægt væri að fá heildstæða greiningu á fjárhagslegri stöðu einstakra sveitarfélaga sem hægt væri að byggja tillögugerð og ákvarðanatöku á. Það var alveg ljóst að staða þeirra var misjöfn og afar brýnt fyrir málefnaleg umræðu að fá fram eins raunsanna mynd af stöðunni og unnt er á þessum óvissutímum.

Vaskur hópur var settur til verka undir forystu Gunnars Haraldssonar hagfræðings og formanns fjármálaráðs og skilaði hann af sér í lok ágústmánaðar.

Í niðurstöðum starfshópsins segir að gera megi ráð fyrir að samanlögð rekstrarniðurstaða sveitarfélaganna allra verði 26,6 milljörðum lakari en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlunum ársins 2020. Þá megi búast við að auknar fjárfestingar sveitarfélaga nemi rúmlega 6,5 milljörðum króna. Samanlagt væru áhrifin því rúmlega 33 milljarðar króna eða rúmlega 91 þúsund króna á hvern íbúa.

Það stefnir því í að sveitarfélögin verði fyrir töluverðum áhrifum, það er alveg ljóst. Þetta eru um 9% af heildarútgjöldum sveitarfélaga miðað við árið 2019 eða um 1,1% af vergri landsframleiðslu. Hér er því um verulegar upphæðir að ræða í þjóðhagslegu tilliti.
Reiknað er með því að útsvarstekjur geti dregist saman um 11 milljarða króna á árinu í samanburði við forsendur í fjárhagsáætlunum sveitarfélaga og þá liggur fyrir að tekjur Jöfnunarsjóðs munu lækka um fjóra milljarða króna.

Að mínu mati dregur skýrslan vel fram áætluð áhrif efnahagsþróunarinnar í kjölfar Covid-19 faraldursins á fjármál sveitarfélaga og skapar traustan grundvöll fyrir frekari umræður um fjárhagsleg málefni sveitarfélaganna á þessum óvissutímum. 

Ljóst er að staða þeirra er afar misjöfn, mörg hver hafa t.d. rúmt svigrúm til að takast á við þessar tímabundnu þrengingar meðan önnur eiga erfiðara um vik, m.a. vegna skuldastöðu, tekjusamsetningar og íbúaþróunar. 

Þegar veltu fé frá rekstri er skoðað er meirihluti sveitarfélaga þrátt fyrir áföll ársins enn með jákvætt veltufé frá rekstri sem er vísbending um að grunnþjónustan sé varin þó erfiðara kunni að vera um vik varðandi afborganir langtímalána. 

Yfirlýsing um fjárhagslegan stuðning 

Þessi góða greining hefur síðan verið til hliðsjónar við ákvarðanir um frekari skref af hálfu ríkisins í þá átt að styðja við sveitarfélögin. Yfirlýsing ríkisstjórnar frá í gær í tengslum við undirritun samkomulags milli ríkis og sveitarfélaga vegna opinberra fjármála er grundvölluð á þessum gögnum og samtölum 

Yfirlýsingin felur í sér beinan stuðning við fjármál sveitarfélaga og felur hún í sér um 5 milljarða innspýtingu. Aðgerðir eru:

  • 670 m.kr. aukaframlag sem varið verði til framlaga til sveitarfélaga vegna málefna fatlaðs fólks.
  • 720 m.kr. framlag sem renni til sveitarfélaga þar sem kostnaður við fjárhagsaðstoð er yfir nánar tilgreindum mörkum. 
  • 500 m.kr. framlag sem nýtist til stuðnings þeirra sveitarfélaga sem glíma við hvað mesta fjárhagserfiðleika vegna Covid-19 faraldursins. Framlögin verði veitt í samstarfi við eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga og eftir atvikum Lánasjóð sveitarfélaga. 
  • 935 m.kr. framlag sem styðji við stefnumarkandi áætlun stjórnvalda um eflingu sveitarstjórnarstigsins og aukna sjálfbærni þess með sameiningum sveitarfélaga.
  • Og að endingu að heimild til að nýta 1.500 m.kr. úr Fasteignasjóði Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga verði nýtt í ár og á næsta ári til þess að vega upp á móti lækkun almennra tekju- og útgjaldajöfnunarframlaga sjóðsins.

Viðbótarframlög ríkissjóðs nema því samtals 2.825 m.kr. Heildarstuðningur til viðspyrnu fyrir sveitarfélögin á grundvelli yfirlýsingarinnar næmi því 4.325 m.kr. Jöfnunarsjóður sveitarfélaga annaðist útgreiðslur framlaga á grundvelli nánar skilgreindra reglna þar um, sem unnar verði í nánu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. 

Við munum fylgjast áfram með þróun í fjármálum sveitarfélaga. Greining á fjármálum þeirra verður uppfærð reglulega og brugðist verður við eins og nauðsynlegt er hverju sinni til að tryggja að sveitarfélögin geti sinnt þeirri mikilvægu nærþjónustu sem þeim er falið að sinna skv. lögum. 
„Ríkisstjórnin mun standa að baki sveitarfélögum eins og frekast er unnt svo starfsemi þeirra

raskist ekki um of á komandi mánuðum og misserum. Líta ber á þann stuðning sem yfirlýsing þessi felur í sér enn eitt skrefið í þeirri vegferð,“  segir orðrétt í yfirlýsingunni. 

Ég vil nota tækifærið og þakka fyrir allt þetta góða og uppbyggilega samtal sem ég hef átt við forystu sveitarfélaganna, sveitarstjórnarfólk úr öllum landshlutum og ekki síst þakka ég formanni Sambandsins og framkvæmdarstjóra, sem hafa verið afskaplega fylgin sér við að halda til haga sjónarmiðum og hagsmunum sveitarfélaganna í þessari umræðu.

Stefnumótun fyrir sveitarstjórnarstigið

Ágætu gestir.

Eins og þið þekkið samþykkti Alþingi stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga í janúar síðastliðinn. Þetta er fyrsta áætlunin sinnar tegundar, tímamótaáætlun sem felur  í sér metnaðarfull áform um eflingu sveitarstjórnarstigsins, aukna sjálfbærni þess og góða þjónustu við íbúana. Ellefu skilgreindum aðgerðum er ætlað að vinna að þessum markmiðum. 

Ein þeirra lýtur að því að stórefla stuðning Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga við sameiningar og gaf ég út nýjar reglur þar að lútandi í ágúst síðastliðnum. Nú geta forsvarsmenn hvers sveitarfélags séð hver stuðningurinn verður óháð því hvaða sveitarfélög hyggjast sameinast. 

Önnur aðgerð felur í sér átak til að efla stafræna stjórnsýslu og þjónustu sveitarfélaga. Áhersla verði á að hagnýta þá innviði sem byggðir hafa verið upp og þekkingu á stafrænum lausnum hins opinbera.

Enn önnur miðar að því að styrkja tekjustofna sveitarfélaga og auka fjárhagslega sjálfbærni þeirra. Í því felst m.a. að lokið verði við heildarendurskoðun á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga fyrir almennar sveitarstjórnarkosningar 2022 og breytingar innleiddar í áföngum á því kjörtímabili.

Mikilvægasta aðgerðin, sem  er forsenda fyrir raunverulegum umbótum á sveitarstjórnarstigi, er tillagan um lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga. Frumvarp sem innleiðir aðgerðina – vilja Alþingis, ríkisstjórnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga – er nú tilbúið í ráðuneytinu og verður kynnt í ríkisstjórn innan fárra daga. 

Það felur í sér að lágmarksíbúafjöldi verði 250 frá almennum sveitarstjórnarkosningum árið 2022, en 1.000 frá almennum sveitarstjórnarkosningum árið 2026. Áætlað er að heildarávinningur af aðgerðinni geti numið á bilinu 3,5 til 5 milljarðar króna, sem eru fjármunir sem nýtast til þess að bæta þjónustu við íbúa, lækka skuldir eða byggja upp trausta innviði.

Hér er um tímabært umbótaverkefni að ræða, eitt hið stærsta á sviði opinberrar stjórnsýslu á Íslandi og er skjót leið til að gera það sem við erum öll sammála um, að efla sveitarstjórnarstigið, nýta opinbera fjármuni betur og bæta þjónustu við íbúa.
Það er ekkert að vanbúnaði og stóraukinn stuðningur Jöfnunarsjóðs liggur fyrir. Jákvæð reynsla við nýlegar sameiningar á Austurlandi er góð fyrirmynd. Það er ljóst er að nýta þarf opinbert fé betur á komandi árum – brettum upp ermar og hefjumst handa.

Samgönguáætlun – tímamótaáætlun  

Ágæta sveitarstjórnarfólk. Ég  vil nota tækifærið og segja nokkur orð um nýsamþykkta samgönguáætlun fyrir tímabilið 2020-2034. Áætlunin er ein sú mikilvægasta sem ríkið stendur að enda er samgöngukerfið er ein verðmætasta eign ríkisins og þar með okkar landsmanna allra. 

Það er ánægjulegt að segja frá því að aldrei áður hefur jafnmiklum fjármunum verið varið til samgangna. Á næstu fimmtán árum er gert ráð fyrir 640 milljarða króna framlagi ríkisins til samgönguáætlunar en heildarumfang áætlunarinnar er metið á um 900 milljarða króna.
Samgönguáætlun felur í sér mikilvæga framtíðarsýn í samskiptum, atvinnu og samkeppnishæfni þjóðarinnar allrar og stuðlar um leið að því að öflug samfélög geti blómstrað um allt land. Mikilvægasta verkefni okkar er að auka öryggi, tengja byggðir landsins og bæta lífsgæði, auk þess að uppfylla skyldur í loftlagsmálum. Einnig viljum við tryggja greiðar samgöngur, gott aðgengi að þjónustu, stytta vegalengdir og almenningssamgöngur á milli staða.

Arðbær verkefni og ný störf

Fjárfestingar í samgönguinnviðum reynast mjög mikilvægar þegar mæta þarf niðursveiflunni sem heimsfaraldur kórónuveiru hefur valdið. Verkefnum er flýtt og fjölgað en við það skapast fjölmörg ný störf. Þessum fjármunum er varið til arðbærra verkefna og ávinningurinn mun skila sér strax, hagkerfið eflist og samfélagið verður mun betur í stakk búið þegar tekist hefur að vinna bug á faraldrinum. Alls verða til 8.700 fjölbreytt ársverk á næstu fimm árum, frá hönnun til beinna framkvæmda.

Sérstök áhersla á umferðaröryggi miðar að því m.a. að fækka einbreiðum brúm á Hringveginum um 14 til ársins 2024 og að aðskilja akstursstefnur á umferðarþyngstu vegköflum landsins frá höfuðborgarsvæðinu að Borgarnesi, austur fyrir Hellu og að Leifsstöð.

Fullyrða má að aukning í nýframkvæmdum á næstu árum í samgöngum sé fordæmalaus – svo að notað sé orðið sem hefur verið á allra vörum í ár. Það grundvallast annars vegar á metnaðarfullri framtíðarsýn í fimmtán ára samgönguáætlun og á viðbótarfjármagni sem lagt var í samgönguframkvæmdir úr fjárfestingaátaki ríkisstjórnarinnar.

Samvinnuverkefni

Í því skyni að flýta enn frekar þjóðfélagslega mikilvægum samgönguframkvæmdum hefur Alþingi heimilað samstarf hins opinbera og einkaaðila um sex afmarkaðar framkvæmdir og gjaldtöku vegna þeirra. Verkefnin auka öll umferðaröryggi og stuðla að verulegri styttingu leiða og áfram verður hægt að fara fyrri leið.

Verkefnin eru vel skilgreind og fyrir fram ákveðin. Brú yfir Hornafjarðarfljót er þegar fullhönnuð og að verða klár fyrir útboð. Ný brú yfir Ölfusá, nýr vegur yfir Öxi, láglendisvegur og göng í gegnum Reynisfjall, önnur göng undir Hvalfjörð og hin langþráða Sundabraut eru þar næst á dagskrá. 

Með Samgöngusáttmála ríkisins og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu var stigið stærsta skref í uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu sem stigið hefur verið. Höggvið var á þann hnút sem hefur verið í samskiptum ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um áratugaskeið og komið hefur í veg fyrir alvöru uppbyggingu á svæðinu. Sáttmálinn markar tímamót sem mun skila sér í greiðari samgöngum, hvort sem litið er á fjölskyldubílinn, almenningssamgöngur eða gangandi og hjólandi umferð.

Loftbrú - lægri flugfargjöld fyrir íbúa landsbyggðarinnar

Það var mér sérstök ánægja í síðasta mánuði að kynna Loftbrú sem gefur íbúum á landsbyggðinni, sem búa fjarri höfuðborginni, kost á lægri flugfargjöldum til borgarinnar. Loftbrú veitir 40% afslátt af innanlandsflugi fyrir allt að þrjár ferðir á ári til og frá Reykjavík. Þetta er afar mikilvægt skref við að bæta aðgengi íbúa á landsbyggðinni að miðlægri þjónustu og gera innanlandsflug að hagkvæmari samgöngukosti.

Í mínum huga er Loftbrú ein af mikilvægari byggðaaðgerðum sem ráðist hefur verið í og með því er tekið stórt skref til að jafna aðstöðumun þeirra sem búa annarsstaðar en á suðvesturhorninu. Það er mikið réttlætismál að þeir sem búa fjarri höfuðborginni og vilja og þurfa að sækja þjónustu þangað fái niðurgreiðslu á ferðum sínum með flugi. Verkefnið hefur verið á stefnuskrá minni síðan ég kom í ráðuneytið. Fyrirmyndin var sótt til nágranna okkar Skota en við höfum nú útfært verkefnið á okkar hátt og gert aðgengilegt í takt við áherslur um stafræna þjónustu hins opinbera.

Endurskoðun byggðaáætlunar

Vinna við endurskoðun byggðaáætlunar er hafin.

Þessa dagana stendur yfir vinna við stöðumat, eða svokallaða grænbók, þar sem rýnt er í hvað hefur tekist vel í gildandi áætlun og hvað mætti betur fara. Áætlað er að grænbókin verði lögð fram í samráðsgátt stjórnvalda í lok október og í framhaldinu fer fram víðtækt samráð um allt land og hvet ég sveitarstjórnarfólk til að taka þátt í mótun nýrrar áætlunar. Ég gerir ráð fyrir að tillaga verði lögð fyrir Alþingi seint næsta vor. 

Framkvæmd núverandi áætlunar hefur gengið vel að mínu mati. Við höfum náð að flétta byggðaáætlun saman við aðrar opinberar áætlanir með beinum fjárframlögum. Má þar nefna aðgerðir eins og Ísland ljóstengt, en þar hefur byggðaliðurinn lagt til 400 m.kr. frá árinu 2017 til að styðja við verkefni Fjarskiptasjóðs. Mjög gott dæmi um samhæfingu allra áætlana ráðuneytisins.

Fjarheilbrigðisþjónusta er annað gott dæmi þar sem byggðaliðurinn styður við stefnu stjórnvalda um að jafna aðgengi landsmanna að heilbrigðisþjónustu með því að nýta þá tækni sem fyrir er. Þar skiptir miklu að vel hefur gengið að ljósleiðaravæða dreifðustu byggðir landsins. 

Almennt gengur vel að koma aðgerðunum í framkvæmd en þær eru alls 54. Ég viðurkenni þó að það hefur valdið mér vonbrigðum og áhyggjum hve illa virðist ganga að hrinda aðgerðinni „Störf án staðsetningar“ í framkvæmd. Ég vil meina að þar sé meðal annars um að kenna að ekki hefur tekist að sannfæra stjórnendur ríkisstofnana (þar með talið ráðuneytanna) um hve mikill akkur er í aðgerðinni og hve einföld hún er í raun. 

Þegar starf er auglýst „án staðsetningar“ þýðir það að búseta skiptir ekki máli við val á starfsfólki. Þannig stækkar mengið sem stjórnendur geta valið úr. Það kallar á hugarfarsbreytingu að hrinda þessari aðgerð í framkvæmd og ég mun leggja mitt af mörkum á komandi mánuðum til þess að svo megi verða. Það er okkar allra hagur.

Ég vil nota tækifærið og hvetja sveitarfélög til að skoða vel hvaða tækifæri felast í þessari aðgerð og hvort það séu ekki störf á þeirra vegum sem þurfa ekki endilega að vera unnin við tiltekið skrifborð í tiltekinni byggingu í tilteknu póstnúmeri (sem oft byrjar á einum og endar á einum). Þetta á ekki hvað síst við um fjölkjarna sveitarfélög og þau sem eru að sameinast núna og á næstu misserum. 

Framkvæmd byggðaáætlunar er einnig gott dæmi um vel heppnað samstarf ríkis og sveitarfélaga, en við höfum lagt kapp á að hafa fulltrúa þeirra með á öllum stigum.

Góðir gestir.

Við lifum á óvenjulegum tímum. Nú er tími fyrir jákvæðar hugsanir og skynsamar lausnir. Það er ekki tími íhaldssemi, svartsýni og úrtölur, heldur tími nýsköpunar og úrræða sem leiða okkur áfram veginn.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira