Hoppa yfir valmynd
13. apríl 2021 Innviðaráðuneytið, Utanríkisráðuneytið, Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Félagasamtök á Íslandi hvött til að taka þátt í norrænu samstarfsneti

Félagasamtök á Íslandi hvött til að taka þátt í norrænu samstarfsneti - myndJohannes Jansson/norden.org

Norræna ráðherranefndin hyggst koma á fót norrænu samstarfsneti borgaralegra samtaka með það að markmiði að efla samstarfið þvert á Norðurlönd og þvert á hin ýmsu fagsvið. Öllum borgaralegum samtökum í norrænu löndunum, einkum þeim sem vinna á sviði sjálfbærni, býðst að taka þátt en frestur til að sækja um er til og með 5. maí nk.

Stofnun samstarfsnetsins er liður í nýrri framtíðarsýn Norrænu ráðherranefndarinnar um norrænt samstarf fram til ársins 2030. Markmiðið er að auka opinbert samráð og áhrif borgaralegra samtaka á þróun norræns samstarfs í anda nýrrar framtíðarsýnar og að efla markmið um græn Norðurlönd, samkeppnishæf Norðurlönd og félagslega sjálfbær Norðurlönd. Alls geta 40 samtök frá Norðurlöndunum fengið aðild að samstarfsnetinu.

Í norræna samstarfsnetinu verða fulltrúar landsbundinna og norrænna borgaralegra samtaka. Samstarfsnetið á að starfa á þverlægan og heildrænan hátt, en því verður einnig skipt í þrjá undirhópa sem samsvara þremur áherslusviðum í framtíðarsýninni – græn Norðurlönd, samkeppnishæf Norðurlönd og félagslega sjálfbær Norðurlönd.

Hvað felst í þátttöku í samstarfsnetinu?

Fulltrúar í norræna samstarfsnetinu fá tækifæri til að eiga samstarf við Norrænu ráðherranefndina og aðra sem aðild eiga að samstarfsnetinu. Samstarfið getur verið við öll svið Norrænu ráðherranefndarinnar og á öllum sviðum pólitískrar ákvarðanatöku, með upplýsingamiðlun, samráði, samtali og þátttöku í starfi ráðherranefndarinnar.

  • Norræna ráðherranefndin hyggst bjóða samstarfsnetinu á einn til tvo fundi á ári til upplýsingagjafar um málefni sem eru ofarlega á baugi og varða framtíðarsýnina og til að ræða möguleg samstarfssvið fyrir samstarfsnetið.
  • Samhæfingaraðili samstarfsnetsins mun eiga samskipti við öll fagsvið Norrænu ráðherranefndarinnar til að kortleggja möguleika á aðkomu samstarfsnetsins áður en komið er að máli við samstarfsnetið, sem ákveður sjálft hvað leggja eigi áherslu á á hverju starfsári.
  • Fulltrúar í hinu norræna samstarfsneti borgaralegra samtaka verða í stöðugum tengslum við Norrænu ráðherranefndina um það starf sem ákveðið hefur verið í byrjun hvers árs að leggja áherslu á.

Umsóknarferli um aðild að samstarfsnetinu er hafið en því lýkur 5. maí nk. Ferlið er opið öllum borgaralegum samtökum á Norðurlöndum. Þess er vænst að valferlinu verði lokið um miðjan júní á þessu ári.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum