Hoppa yfir valmynd
30. maí 2017 Utanríkisráðuneytið

Öryggismál, Brexit og orkumál rædd á ráðherrafundi í Póllandi

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Timo Soini utanríkisráðherra Finnlands - mynd
Öryggismál, samskiptin við Rússland, svæðisbundið samstarf, uppbygging innviða og endurnýjanlegra orkugjafa og Brexit og framtíð Evrópusambandsins voru til umræðu á utanríkisráðherrafundi Norðurlandanna, Eystrasaltsríkjanna og Visegrad-ríkjanna Póllands, Tékklands, Slóvakíu og Ungverjalands, sem haldinn var í Sopot í Póllandi í dag. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra tók þátt í fundinum.

„Við höfum talað fyrir því að sameiginlegar varnir Atlantshafsbandalagsins séu styrktar á breiðum grunni samhliða því að haldið sé opnum samskiptum við Rússa. Breytt öryggislandslag hefur kallað á aukin framlög til öryggis- og varnarmála og aukna þátttöku í störfum bandalagsins. Þar hefur Ísland mikilsverða þekkingu fram að færa og leggur til borgaralega sérfræðinga í stofnanir og verkefni bandalagsins. Við höfum verið að auka okkar framlög og þátttöku og hyggjumst halda áfram á þeirri braut," segir Guðlaugur Þór, sem jafnframt gerði grein fyrir yfirstandandi formennsku Íslands í Eystrasaltsráðinu sem lýkur með ráðherrafundi í Reykjavík 20. júní nk.

Þá ræddu ráðherrarnir hvernig tekist yrði á við útgöngu Breta úr Evrópusambandinu og lagði Guðlaugur Þór þar áherslu á mikilvægi þess að ekki yrðu til nýjar viðskiptahindranir við útgönguna. Uppbygging innviða fyrir orku og samgöngur var einnig til umræðu, meðal annars í ljósi markmiða Parísarsamningsins, og ræddi utanríkisráðherra mikilvægi endurnýjanlegra orkugjafa í því tilliti, líkt og jarðvarma.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd
 Heimsmarkmið SÞ: 13 Aðgerðir í loftslagsmálum
Heimsmarkmið - mynd
Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum